AFGANIR sögðu í gær að þeir væru hneykslaðir á meintum þrýstingi Bandaríkjamanna á að fyrrverandi konungur Afganistans, Mohammed Zahir Shah, hætti við að bjóðast til að verða þjóðhöfðingi á ný.

AFGANIR sögðu í gær að þeir væru hneykslaðir á meintum þrýstingi Bandaríkjamanna á að fyrrverandi konungur Afganistans, Mohammed Zahir Shah, hætti við að bjóðast til að verða þjóðhöfðingi á ný.

Sögðu Afganirnir, að þótt þeir væru þakklátir Bandaríkjamönnum fyrir að hafa losað landið við talibanana og al-Qaeda, ættu bandarísk stjórnvöld að leyfa Afgönum að ákveða á fundi þjóðarráðs síns, Loya Jirga, sem kom saman í gær, hver yrði þjóðhöfðingi þeirra.

Stríðsherrann Padsha Khan hefur varað við því að frekari bardagar séu yfirvofandi í Afganistan, fái Zahir ekki að verða þjóðhöfðingi. Khan sagði í gær að Zahir hefði verið neyddur til að hætta við að bjóða sig fram. Bandaríkjamenn vilji heldur að Hamid Karzai, sem nú fer fyrir bráðabirgðastjórninni í landinu, verði þjóðhöfðingi.

Almennir borgarar í Afganistan andmæltu einnig meintum afskiptum Bandaríkjamanna af málinu. "Bandaríkjamenn mega ekki ráðskast með Afgani. Þeir eiga að leyfa Afgönum að ráða sjálfir sínum málum," sagði Bashir Ahmad, starfsmaður vísindaakademíunnar í Kabúl. "Loya Jirga merkir að þjóðin eigi sjálf að fá að ráða örlögum sínum."

Kabúl. AFP.