Timothy Grant Arnason
Timothy Grant Arnason
Timothy Grant Arnason er forseti Íslendingadagsnefndar í Gimli í Kanada, en hefur starfað hjá tryggingafyrirtæki í Winnipeg frá því hann útskrifaðist úr Háskólanum í Winnipeg 1976 og er þar yfirmaður tjónadeildar.

Timothy Grant Arnason er forseti Íslendingadagsnefndar í Gimli í Kanada, en hefur starfað hjá tryggingafyrirtæki í Winnipeg frá því hann útskrifaðist úr Háskólanum í Winnipeg 1976 og er þar yfirmaður tjónadeildar. Tim hefur mjög látið til sín taka í "íslenska" samfélaginu í Manitoba og hefur m.a. verið í stjórn Íslendingadagsins í um 20 ár, þar sem hann hefur gegnt mörgum trúnaðarstörfum. Tim er 45 ára og er kvæntur Delphine Arnason. Þau eiga tvö börn, sem eru Alena Theresa 14 ára og Brady Michael Bjorn 11 ára.

Timothy Grant Arnason er forseti Íslendingadagsnefndar í Gimli í Kanada, en hefur starfað hjá tryggingafyrirtæki í Winnipeg frá því hann útskrifaðist úr Háskólanum í Winnipeg 1976 og er þar yfirmaður tjónadeildar. Tim hefur mjög látið til sín taka í "íslenska" samfélaginu í Manitoba og hefur m.a. verið í stjórn Íslendingadagsins í um 20 ár, þar sem hann hefur gegnt mörgum trúnaðarstörfum. Tim er 45 ára og er kvæntur Delphine Arnason. Þau eiga tvö börn, sem eru Alena Theresa 14 ára og Brady Michael Bjorn 11 ára.

Íslendingadagurinn í Gimli í Kanada verður mánudaginn 5. ágúst í ár, en Íslendingadagshátíðin stendur yfir 2. til 5. ágúst að þessu sinni. Hátíðin fer nú fram í 113. sinn, en þetta er elsta hátíð þjóðarbrots í Kanada. Til að byrja með var hátíðin í Winnipeg en hún var flutt til Gimli 1932 og verður þar því í 70. sinn í sumar. Timothy Grant Arnason, forseti Íslendingadagsnefndar, er á Íslandi um þessar mundir í boði forsætisráðuneytisins og utanríkisráðuneytisins í þeim tilgangi að kynna hátíðina. Hann hitti Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra, í gær, heimsækir Vesturfararsetrið á Hofsósi í dag og síðan er gert ráð fyrir að hann hitti m.a. Ólaf Ragnar Grímsson, forseta Íslands, Davíð Oddsson, forsætisráðherra, Jón Kristjánsson, heilbrigðisráðherra, og Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, borgarstjóra í Reykjavík. Hann verður með viðtalstíma í utanríkisráðuneytinu frá klukkan 10 til 12 á morgun, fimmtudag, fyrir þá sem hafa áhuga á að koma fram á hátíðinni í náinni framtíð. Morgunblaðið hitti Tim og hann var fyrst spurður um ástæður þess að hann hefði unnið eins mikið og lengi fyrir Íslendingadaginn og raun ber vitni.

"Ég fæddist inn í þetta áhugastarf. Björn Valdimar Arnason, faðir minn, sem er 86 ára, hefur verið í stjórn Íslendingadagsnefndar í meira en 40 ár og var forseti 1970 og 1971. Vilhjálmur Arnason, afi minn, fór í nefndina þegar hátíðin var flutt til Gimli fyrir 70 árum og starfaði lengi í henni, en hann var sonur Dórotheu Soffíu Abrahamsdóttur og Jóhanns Péturs Árnasonar frá Villingadal í Eyjafirði. Kristín Jónína Benson, móðir mín, hefur alla tíð tekið virkan þátt í starfinu og var Fjallkona 1973, þannig að fjölskyldan hefur tengst þessu eins og öðrum málum í íslenska samfélaginu í Manitoba. Íslendingadagurinn hefur verið stór hluti af lífi okkar, en ég er líka í stjórn Kanada-Íslandssjóðsins og er ráðgjafi nefndarinnar Sameinað íslenskt átak."

Hvernig er dagskráin í ár?

"Við erum með fjölbreytta dagskrá og reynum að bæta hana á hverju ári með því að brydda upp á einhverju nýju, en þetta er merkasta hátíðin í Nýja-Íslandi ár hvert. Í ár verðum við með íslenskt leikrit, Völuspá eftir Þórarin Eldjárn, og félagar úr Harmonikufélagi Reykjavíkur skemmta, en uppistaða dagskrárinnar byggist á hefðbundnum þáttum eins og margs konar keppni fyrir alla aldurshópa, eldhúsi ömmu, þar sem gestir geta fengið íslenskan mat, margs konar sýningum og menningarviðburðum að ógleymdri skrúðgöngu og flugeldasýningum. Í stuttu máli gengur þetta út á að vera með eitthvað fyrir alla á þessari fjölskylduhátíð."

Hvað er gert ráð fyrir mörgum gestum?

"Við rennum mjög blint í sjóinn hvað fjöldann varðar, en á undanförnum árum hafa verið um 40.000 gestir árlega. Fyrir tveimur árum vorum við með um 60.000 manns sem er met, en aðalatriðið er að það er rými fyrir alla og allir eru velkomnir. Við höfum oft fengið gesti frá Íslandi og í þessu sambandi má nefna að Jón Kristjánsson, heilbrigðisráðherra, flytur minni Kanada á hátíðinni, en J. Timothy Samson minni Íslands. Connie Magnusson er fjallkona í ár og flytur hátíðarræðuna."

Í fyrra var íslensk-kanadísk kvikmyndahátíð, Gimli kvikmyndahátíðin, hluti af skemmtuninni. Verður hún aftur í ár?

"Já. Kvikmyndirnar vöktu mikla athygli í fyrra en þær voru sýndar á stóru tjaldi úti á Winnipegvatni og sami háttur verður hafður á í sumar. Að þessu sinni verður kvikmyndahátíðin dagana á undan Íslendingadagshátíðinni sjálfri þannig að skemmtunin verður lengri en á meðal mynda verður Rare Birds eftir Sturla Gunnarsson. Í tengslum við Íslendingadaginn gengst vikublaðið Lögberg-Heimskringla fyrir Opna íslenska mótinu í golfi eins og í fyrra og verður það föstudaginn 2. ágúst."

Hver er tilgangur heimsóknarinnar til Íslands?

"Þetta er liður í að styrkja enn frekar böndin milli Nýja-Íslands og Íslands. Við erum stöðugt að leita leiða til að kynna Ísland vestra og notum hvert tækifæri sem við getum til að minna á land og þjóð en Íslendingadagurinn er kjörinn vettvangur til þess. Íslendingadagurinn er líka vettvangur fyrir listafólk á mörgum sviðum og með viðtalstímanum í utanríkisráðuneytinu gefst mér tækifæri til að kynna fyrir áhugasömu listafólki hvaða tækifæri það hefur. Við höfum oft verið með íslenska listamenn og viljum halda því áfram. Við viljum líka efla samstarfið við Þjóðræknisfélagið á Íslandi og Snorraverkefnið er okkur mjög hugleikið. Í heimsókninni gefst mér ennfremur tækifæri til að tengjast betur upprunanum. Hér eru ræturnar og þær eru mikilvægar."