Mengyang Jian frá Boston og Xiaoxu Shean Lin frá Atlanta eru í hópi 26 Falun Gong-félaga í Njarðvíkurskóla.
Mengyang Jian frá Boston og Xiaoxu Shean Lin frá Atlanta eru í hópi 26 Falun Gong-félaga í Njarðvíkurskóla.
XIAOXU Shean Lin, líffræðingur frá Atlanta í Bandaríkjunum, og Mengyang Jian, sem er nýútskrifuð úr menntaskóla í Boston, eru meðal þeirra 26 áhangenda Falun Gong sem synjað var um landvist á Íslandi og hafa verið í haldi lögreglu í Njarðvíkurskóla frá...

XIAOXU Shean Lin, líffræðingur frá Atlanta í Bandaríkjunum, og Mengyang Jian, sem er nýútskrifuð úr menntaskóla í Boston, eru meðal þeirra 26 áhangenda Falun Gong sem synjað var um landvist á Íslandi og hafa verið í haldi lögreglu í Njarðvíkurskóla frá því í gærmorgun.

Farþegar af asískum uppruna yfirheyrðir í hliðarherbergi

Þau komu með Flugleiðavél frá Boston og segjast hafa verið stöðvuð í landamærahliðinu í Leifsstöð. Allir farþegar sem litu út fyrir að vera af asískum uppruna hafi verið stöðvaðir í hliðunum og leiddir inn í hliðarherbergi til yfirheyrslu. ,,Við vorum spurð hvort við þekktum Falun Gong og hvort við værum komin hingað til lands í þeim tilgangi að mótmæla. Síðan var okkur tjáð að okkur væri neitað um landgöngu á Íslandi og vorum svo öll flutt hingað í skólann," segir Mengyang Jian.

Shean Lin segir greinilegt að íslensk yfirvöld hafi látið undan þrýstingi frá Kínverjum vegna heimsóknar Jiang Zemin, forseta Kína. ,,Kínversk stjórnvöld hafa dreift þeim áróðri að Falun Gong ætli að standa fyrir miklum mótmælaaðgerðum hér. Ég tel að þessir atburðir séu afleiðing af áróðursþrýstingi frá Kínverjum," segir hann.

Aðspurð hvort þau séu komin til Íslands í þeim tilgangi að mótmæla komu kínverska forsetans segir Mengyang Jian svo ekki vera. Áður en þau stigu um borð í flugvélina í Bandaríkjunum hafi þau undirritað sérstaka yfirlýsingu um að tilgangur fararinnar til Íslands væri ekki sá að hafa í frammi mótmæli. ,,Við erum hér hvert fyrir sig að eigin ákvörðun og sem einstaklingar. Ég þekki ekki yfir 90% þessa fólks sem er hér saman komið í skólanum," segir hún.

,,Það skiptir ekki öllu máli þótt við sjáum ekki kínverska forsetann á meðan við erum hér, heldur mun nálægð okkar hér á landi einfaldlega setja þrýsting á hann vegna þess að þá er honum gert ljóst að umheimurinn veit um mannréttindabrotin, sem framin eru gegn Falun Gong í Kína," segir hún.

Þau leggja áherslu á að Falun Gong-iðkendur hafi eingöngu friðarboðskap fram að færa og hafi m.a. staðið að friðsamlegum mótmælum við höfuðstöðvar Sameinuðu þjóðanna í New York og í Genf og hlotið viðurkenningu lögregluyfirvalda fyrir friðsamlegar aðgerðir. ,,Við reynum aldrei að vera lögreglu erfið í neinu landi," segir hann.

- Íslensk lögregluyfirvöld halda því fram að dæmi séu um að félagar í Falun Gong virði ekki öryggisreglur og reyni að komast inn á afmörkuð öryggissvæði. Hverju svarið þið þessu?

,,Ég fæ með engu móti séð af hverju við ættum að haga okkur svo óskynsamlega. Við leggjum okkur alltaf fram um að eiga samvinnu við lögreglu hvar sem við erum. Allt annað væru mikil mistök," segir hann.

Stuðningur við stefnu Kínverja ef látið er undan kröfum þeirra

Þau láta vel af aðbúnaðinum í Njarðvíkurskóla og segja að íslenska lögreglan hafi komið vel fram við þau. Þeim sé færður matur og drykkir og þeim hafi verið leyft að hringja hvert sem er.

Shean Lin segir að íslensk stjórnvöld eigi við það vandamál að stríða að kínversk stjórnvöld séu að reyna að koma fram hryðjuverkastefnu sinni gagnvart Falun Gong út um allan heim, sem fótum troði grundvallarmannréttindi. Með því að láta undan kröfum kínverskra stjórnvalda séu íslensk stjórnvöld í raun að veita þessari stefnu stuðning.

,,Ef íslensk stjórnvöld ákveða að vísa Falun Gong-fólki frá landinu, fólki sem á engan sakaferil að baki, munu kínversk stjórnvöld hagnýta sér það í áróðri sínum um Falun Gong og valda enn fleiri þjáningum," segir hann.

Þau sögðust að lokum vona að íslensk stjórnvöld breyttu ákvörðun sinni og veittu þeim landvist svo þeim yrði ekki vísað frá landinu í dag.