Sólveig Pétursdóttir
Sólveig Pétursdóttir
SÓLVEIG Pétursdóttir dómsmálaráðherra ítrekar að ákvörðun íslenskra stjórnvalda um að meina Falun Gong-félögum um landgöngu hér á landi sé tekin til að tryggja öryggi en ekki til að koma í veg fyrir friðsamleg mótmæli.

SÓLVEIG Pétursdóttir dómsmálaráðherra ítrekar að ákvörðun íslenskra stjórnvalda um að meina Falun Gong-félögum um landgöngu hér á landi sé tekin til að tryggja öryggi en ekki til að koma í veg fyrir friðsamleg mótmæli. Aðspurð hvort það komi til greina að ákvörðunin verði dregin til baka, m.a. í ljósi þess að þeir hafa heitið því að hlíta fyrirmælum lögreglu, segir Sólveig að þessi ákvörðun hafi verið tekin af ríkisstjórninni en vafalaust verði farið yfir stöðu mála á ríkisstjórnarfundi í dag.

Sólveig segir að stjórnvöld hafi verið mjög undrandi þegar upplýsingar bárust um að Falun Gong-félagar myndu fjölmenna hingað. "Mér skilst að Falun Gong hafi gefið út þá yfirlýsingu til fylgismanna sinna að fjölmenna til Íslands í þeim tilgangi að mótmæla. Ástæðurnar hafi í megindráttum verið tvær. Annarsvegar að Ísland væri lýðræðisríki þar sem tjáningarfrelsi og önnur mannréttindi væru í hávegum höfð en hinsvegar að íslenska lögreglan væri fámenn og gæti því illa stjórnað stórum hópum mótmælenda.

Þarna væri því gullið tækifæri til að koma skilaboðum til kínverska forsetans beint og milliliðalaust," segir Sólveig. "Með þessari aðferð er hreyfingin að spila inn á veikleika íslensku lögreglunnar sem er fámenn, en um leið að spilla opinberri heimsókn erlends þjóðhöfðingja til landsins.

Það er ljóst að íslenska lögreglan, eins góð og vel þjálfuð og hún er, getur ekki tekist á við fjöldamótmæli og um leið tryggt öryggi forsetans og fylgdarliðs hans. Þess vegna var nauðsynlegt fyrir íslensk yfirvöld að bregðast við þeim straumi mótmælenda til landsins sem var fyrirsjáanlegur," segir Sólveig.

Friðsamlegar aðgerðir í langflestum tilfellum

Því hafi hún ásamt forsætisráðherra og utanríkisráðherra tekið þessa ákvörðun og það sé skylda hennar sem yfirmaður lögreglumála að sjá til þess að henni sé framfylgt. Hefði ekki verið gripið til þessara aðgerða hefði lögregla staðið frammi fyrir langstærstu lögregluaðgerð fyrr og síðar, að öllum líkindum enn umfangsmeiri en vegna utanríkisráðherrafundar Atlantshafsbandalagsins en alls hafi 350 lögreglumenn komið að því verkefni. Embættismenn í dómsmálaráðuneytinu hafa lýst áhyggjum sínum af hugsanlegum viðbrögðum 29 vopnaðra öryggisvarða sem fylgja forsetanum. Aðspurð hvort stjórnvöld hafi áhyggjur af öryggi Kínaforseta eða almennings segir Sólveig að fari mótmælendur inn fyrir öryggissvæði geti ákveðin hætta skapast vegna öryggisvarðanna.

Fram hefur komið að aðgerðir Falun Gong hafa aldrei verið ofbeldisfullar og aldrei hefur komið til þess að þeim hafi verið vísað frá Vesturlöndum eða meinuð þar landganga. Sólveig segir rétt að aðgerðir Falun Gong séu í langflestum tilfellum friðsamlegar. Samkvæmt upplýsingum frá þýskum lögregluyfirvöldum hafi meðlimir Falun Gong brotið ýmis fyrirmæli lögreglu þegar forseti Kína var þar í opinberri heimsókn í apríl sl. "Þýska lögreglan átti að vísu ekki í teljandi erfiðleikum með þessi mótmæli enda er þar fjölmennt lið sem sinnir öryggisgæslu vegna slíkra heimsókna. Jafnframt hafði íslenska lögreglan samband við talsmenn þessarar hreyfingar hér á Íslandi fyrir nokkrum dögum og þá kom það fram að þeir myndu ekki hlíta fyrirmælum lögreglu.

Þannig að lögregla hafði verulegar áhyggjur af því að hún myndi ekki ráða við allan þann fjölda mótmælenda sem hafði í hyggju að koma hingað til lands," segir Sólveig. Aðspurð hvort það hafi komið til greina að aflýsa heimsókn Jiang Zemins, segir Sólveig að það sé ekki hennar að svara því. Ríkisstjórnin hafi samþykkt að taka á móti forsetanum sem kemur í boði forseta Íslands og sú ákvörðun standi óhögguð.

Hnekkir fyrir stjórnvöld að hætta við

Hún bendir á að Íslendingar hafi á undanförnum árum verið að efla samskipti við kínversk stjórnvöld á ýmsum sviðum. "Hluti af því að byggja upp og treysta samskipti ríkja er opinberar heimsóknir.

Íslenskir ráðamenn, forseti og ráðamenn hafa á undanförnum árum haldið í opinberar heimsóknir til Kína. Það er eðlilegt að endurgjalda slíkar heimsóknir og sýna kínversku þjóðinni að við tökum af sömu gestrisni á móti þeirra fulltrúum.

Ef lögreglunni tekst ekki að tryggja öryggi erlendra þjóðhöfðingja hér á landi í tengslum við opinberar heimsóknir þá er ljóst að það verður ekkert af slíkum heimsóknum.

Þannig að við stöndum frammi fyrir þeirri spurningu hvort eðlilegt sé að friðsöm hreyfing geti með skipulögðum aðgerðum og flutningi á fjölda mótmælenda hingað til lands haft þannig áhrif á ákvarðanir íslenskra stjórnvalda hverjir koma hingað í heimsókn," segir Sólveig.