Rupert Murdoch
Rupert Murdoch
ÁSTRALSKI fjölmiðlajöfurinn Rupert Murdoch hefur lýst því yfir að hann muni nota aðstöðu sína sem áhrifamesti blaðaeigandi í Bretlandi til að berjast gegn öllum tilraunum Tonys Blair forsætisráðherra til að leiða Bretlandi inn í myntbandalag Evrópu.

ÁSTRALSKI fjölmiðlajöfurinn Rupert Murdoch hefur lýst því yfir að hann muni nota aðstöðu sína sem áhrifamesti blaðaeigandi í Bretlandi til að berjast gegn öllum tilraunum Tonys Blair forsætisráðherra til að leiða Bretlandi inn í myntbandalag Evrópu.

Í viðtali sem birtist í gær í Financial Times sagði Murdoch að hann myndi vilja að mest seldu bresku blöðin sem hann á, The Sun, The News of the World, The Times og The Sunday Times, segðu lesendum að greiða atkvæði gegn myntbandalagsaðild, verði hún borin undir þjóðaratkvæði.

Murdoch sagði ennfremur að hann myndi ekki verða ánægður með að ritstjórar blaðanna tækju aðra afstöðu til málsins en hann sjálfur. "Ég hef það á tilfinningunni að það sé margt heimskulegt sagt um evruna. Það er pólitísk ákvörðun [um hvort gengið verður í bandalagið]."

Fregnir um orð Murdochs ollu því að breska pundið hækkaði á erlendum peningamörkuðum og fór í 1,5544 evrur, úr 1,5468 á mánudaginn. "Þetta snýst fyrst og fremst um sjálfstæði. Ef maður hættir að stjórna gjaldmiðli sínum mun maður hætta að geta stjórnað skattkerfi sínu, það er jafnvíst og að nótt fylgir degi," sagði Murdoch.

Ólíkir menningarheimar

Hann kveðst telja að í Evrópu séu svo margir og mismunandi menningarheimar að ekki sé ráðlegt að skella þeim öllum saman "undir stjórn franskra skriffinna sem ekki þurfa að standa fyrir máli sínu gagnvart neinum. Sú hugmynd, að Evrópa hafi eina, sameiginlega utanríkisstefnu, setji heri sína alla undir einn hatt, sýnist mér vera um 100 árum of snemma á ferðinni. Ég fæ ekki séð annað en að allt sé unnið með því að bíða."

London. AFP.