Jón Arnar Ingvarsson var í gær ráðinn þjálfari úrvalsdeildarliðs Breiðabliks til næstu þriggja ára. Jón Arnar, sem er 30 ára gamall, tekur við Blikaliðinu af Eggerti Garðarssyni sem tekinn er við þjálfun síns gamla liðs, ÍR.

Jón Arnar Ingvarsson var í gær ráðinn þjálfari úrvalsdeildarliðs Breiðabliks til næstu þriggja ára. Jón Arnar, sem er 30 ára gamall, tekur við Blikaliðinu af Eggerti Garðarssyni sem tekinn er við þjálfun síns gamla liðs, ÍR. ,,Ég fagna því að vera kominn til Blikanna og ég tel verkefnið vera mjög spennandi. Tímabilið hjá Breiðabliki í fyrra tókst mjög vel og ég ætla að reyna að fylgja þeim árangri eftir og festa Breiðablik í sessi sem alvöru úrvalsdeildarlið," sagði Jón Arnar þegar hann hafði lokið við að skrifa undir þjálfarasamninginn í Smáranum í gær.

Jón Arnar kemur til Breiðabliks frá Haukunum en þar hefur hann leikið með meistaraflokki félagsins í 14 ár og hefur um árabil verið í hópi bestu körfuknattleiksmanna landsins. "Ég er tilbúinn að spila með liðinu ef þess gerist þörf en ég á þó síður von á því," sagði Jón, sem hefur þjálfað yngri flokka Hauka í samtals 12 ár og þá stýrði hann karlaliðinu hálft tímabil fyrir nokkrum árum.

Blikarnir, sem voru nýliðar í fyrra og komu geysilega á óvart með því komast í úrslitakeppnina, þar sem þeir biðu lægri hlut fyrir Íslandsmeisturunum í oddaleik, segjast munu tefla fram mjög ámóta liði á næsta tímabili og lék með því síðastliðinn vetur.