ÞJÓÐVERJAR stóðu af sér orrahríð Kamerúna í fyrri hálfleik, voru manni færri í 37 mínútur, en knúðu samt fram sigur, 2:0, í hreinum úrslitaleik þjóðanna um sæti í 16-liða úrslitum HM í gær.

ÞJÓÐVERJAR stóðu af sér orrahríð Kamerúna í fyrri hálfleik, voru manni færri í 37 mínútur, en knúðu samt fram sigur, 2:0, í hreinum úrslitaleik þjóðanna um sæti í 16-liða úrslitum HM í gær. Leikurinn var hörkuspennandi lengi vel og fer á spjöld sögunnar því Antonio Lopez, dómari frá Spáni, lyfti gula spjaldinu 16 sinnum í leiknum, og í tvö skiptin fylgdi það rauða með. Þetta er met í leik í lokakeppni HM.

Lopez rak Carsten Ramelow, varnarmann Þjóðverja, af velli á 40. mínútu og Patrick Suffo, varamaður Kamerún, fór sömu leið á 77. mínútu. Tíu Þjóðverjar náðu forystunni í byrjun síðari hálfleiks með marki frá Marco Bode og hinn marksækni Miroslav Klose tryggði sigurinn, tveimur mínútum eftir að jafnt var í liðum á ný.

"Þetta var afar erfitt í síðari hálfleiknum á meðan við vorum manni færri. Við ætluðum okkur að setja pressu á leikmenn Kamerún, því við vissum hvar veikleikar þeirra lágu, og það tókst. Aðalmálið var að komast áfram," sagði Marco Bode, sem kom inn á sem varamaður í byrjun síðari hálfleiks og var fljótur að koma Þjóðverjum yfir.

"Við hefðum átt að nýta okkur að vera manni fleiri. Ég sagði mínum mönnum að sækja upp kantana en þeir hlýddu því ekki. Við misstum boltann of oft á miðjunni og þannig fengum við á okkur fyrra markið. Ég vildi að Ramelow hefði ekki verið rekinn af velli og Eto'o hefði skorað í staðinn þegar hann braut á honum. En við misstigum okkur þegar okkur tókst ekki að vinna Íra í fyrsta leiknum okkar, annars hefðum við farið áfram," sagði Winfried Schäfer, hinn þýski þjálfari Kamerún.