"Samviskubitið nærist með öðrum orðum á þeim viðhorfum sem segja að konur eigi, þrátt fyrir aukna þátttöku í vinnumarkaðnum, að koma meira að uppeldi barnanna en karlar. Uppeldið sé á þeirra ábyrgð."

Ótal mæður sem ég hef hitt um dagana hafa vakið máls á samviskubitinu. Ungar sem aldnar. Sjálf er ég engin undantekning. Ég held ég hafi fengið samviskubit strax fyrstu dagana eftir að dóttir mín fæddist. Samviskubitið fékk ég vegna þess að mér fannst ég ekki hafa nægilega mjólk handa henni. Hún þyngdist ekki nóg samkvæmt vaxtarkúrfunni sem allt átti að miðast við. Seinna fékk ég samviskubit þegar ég hætti með hana á brjósti. Þá var hún fimm mánaða. Of snemmt samkvæmt velflestum uppeldisbókum. Síðan jókst samviskubitið þegar ég fór að vinna og kom henni að hjá dagmóður. Þá var hún ellefu mánaða. Of ung miðað við viðteknar kenningar um þroska barna. Svona gæti ég haldið lengi áfram. Í stuttu máli sagt: Allar götur síðan dóttir mín fæddist hef ég haft samviskubit yfir einu eða öðru sem tengist uppeldinu. Mér finnst ég aldrei gera nógu vel. Það er alltaf hægt að finna eitthvað; kenningu, bók, almenn viðhorf, eitthvað sem segir mér að ég eigi að gera betur. Þrátt fyrir það geri ég eins vel og ég get. En það er eins og það sé ekki nóg. Samviskubitið er þarna alltaf. Það fylgir mér, sem og öðrum mæðrum að því er virðist. Móðir mín hefur talað um það, frænkur mínar og vinkonur.

Það merkilega er þó að ég hef aldrei heyrt feður tala um samviskubitið. Af einhverjum ástæðum virðast þeir ekki hafa slæma samvisku vegna uppeldisins. (Kannski þeir hafi hana þó samt þrátt fyrir að tala ekki um það.) Ég hef á hinn bóginn oft heyrt þá stæra sig af ýmsu því sem tengist uppeldinu. Til dæmis því hvað þeir eru duglegir að lesa fyrir barnið á kvöldin eða koma því í skólann á morgnana. Hvað þeir eru liðtækir við að skipta um bleiu eða setja barnið í bað. Í sjálfu sér hef ég ekkert við það að athuga að feður monti sig af þessum verkum. Það sem vekur hins vegar athygli mína er að ég hef ekki heyrt mæður hreykja sér af þeim. Þær virðast með öðrum orðum ekki telja það til tíðinda þótt þær sjái, jafnvel alfarið; aleinar og án nokkurrar aðstoðar, um þessar grunnþarfir barnsins.

En hvaðan skyldi þetta umtalaða samviskubit koma? Og af hverju virðist það hrjá mæður í meira mæli en feður? Ég held að samviskubitið eigi rætur sínar að rekja til þeirra viðhorfa sem enn finnast í þjóðfélaginu varðandi hlutverk kynjanna. Samviskubitið nærist með öðrum orðum á þeim viðhorfum sem segja að konur eigi, þrátt fyrir aukna þátttöku á vinnumarkaðnum, að koma meira að uppeldi barnanna en karlar. Þær eigi ekki aðeins að standa sig vel í vinnunni, þær eiga líka að vera fyrirmynd allra uppalenda. Uppeldi barnanna sé á þeirra ábyrgð. Ég er svo sem ekki að halda því fram að þessi viðhorf séu ríkjandi. Nei, þau eru sem betur fer á undanhaldi, en þau eru samt enn til staðar. Og vegna þeirra eru meiri og öðruvísi kröfur gerðar til mæðra en feðra. Vegna þeirra eru konur sífellt undir smásjánni þegar kemur að uppeldi barnanna. Vegna þeirra eru mæður sífellt gagnrýndar fyrir að gera ekki nógu vel, fyrir að standa ekki sína plikt.

- Því má bæta við að gagnrýnin kemur ekki síst frá konunum sjálfum. Ólík viðhorf til hlutverka kynjanna birtast okkur á ýmsan máta. Til dæmis þykir það varla tiltökumál ef feður fara utan til vinnu eða náms í lengri tíma þegar börnin eru lítil. Í þeim tilvikum þykir það sjálfsagt mál að konan sé eftir á Íslandi og sjái um börnin. Sjálfri finnst mér ekkert athugavert við þessa tilhögun. Svo lengi sem það sama gildir um konur og karla. En svo er ekki. Ég þekki til að mynda dæmi um það að karlinum hafi verið hrósað fyrir þá þrautseigju að halda það út svo lengi fjarri fjölskyldunni á sama tíma og konan, sem varð eftir heima og sá um barnauppeldið, auk þess sem hún var í fullri vinnu, til að fjármagna heimilishaldið, var gagnrýnd fyrir það að fara með barnið í pössun! Þetta þykir mér vægast sagt ósanngjarnt! Karlinn var stikkfrí þegar kom að uppeldinu, hann var jú úti að læra, en konan var gagnrýnd fyrir það að þurfa á hjálp að halda. Samt var það hún sem varð eftir til að sjá um uppeldið. Þessu er síðan iðulega snúið við þegar konan heldur utan í nám eða til vinnu og karlinn verður eftir til að sinna börnunum. Þá er konan gagnrýnd fyrir að fara frá barni eða börnum en eftir því tekið sérstaklega hvað karlinn er "duglegur" að sjá um heimilið. Honum er jafnvel vorkennt fyrir að eiga svo "kaldlynda" konu og ástæða talin til að bjóða honum oft og mörgum sinnum í mat til að létta honum lífið. Auk þess þykir sjálfsagt að passa fyrir hann enda hefur hann "mörgum öðrum mikilvægum hnöppum að hneppa fyrir utan heimilið".

Svona ólíkum viðhorfum til hlutverka kynjanna mætum við á hverjum degi, í einni eða annarri mynd. Við sjáum þau m.a. í auglýsingum, þar sem einungis konur auglýsa bleiur og mjúk barnaþvottaefni, eins og rakadrægni bleia komi þeim einum við (sem betur fer eru þó að koma fram undantekningar á slíkum auglýsingum) og heyrum þau alltof oft í umræðum um karla sem kjósa að vera heimavinnandi eða taka sér mun lengra fæðingarorlof en konurnar. Þessi viðhorf krauma undir niðri og birtast okkur öðru hvoru í ýmsum myndum, eins og t.d. þeim sem hér á undan eru raktar. Á slíkum viðhorfum nærist samviskubitið -þetta að því er virðist endalausa samviskubit. Og þó. Kannski er kominn tími til að kasta samviskubitinu fyrir róða. Gefa viðteknum viðhorfum til hlutverkaskiptingar kynjanna langt nef, sem og öllum vaxtarkúrfum, uppeldisbókum og kenningum fræðimanna um það hvað okkur er fyrir bestu. Treysta dómgreindinni og því að við gerum flest ef ekki öll okkar besta, þegar kemur að uppeldi barnanna okkar.

Eftir Örnu Schram arna@mbl.is