Kristín Ósk Gísladóttir tók sig vel út í sumarblíðunni og á sjálfsagt eftir að taka sig jafn vel út á hvíta tjaldinu.
Kristín Ósk Gísladóttir tók sig vel út í sumarblíðunni og á sjálfsagt eftir að taka sig jafn vel út á hvíta tjaldinu.
ÞAÐ er æði misjafnt hvað börn taka sér fyrir hendur þegar skóla lýkur í sumarbyrjun. Framundan er nægur tími til skemmtilegra verka og víst er að Kristín Ósk Gísladóttir, 10 ára stúlka í Keflavík, er full tilhlökkunar fyrir þetta óvenjulega sumar.

ÞAÐ er æði misjafnt hvað börn taka sér fyrir hendur þegar skóla lýkur í sumarbyrjun. Framundan er nægur tími til skemmtilegra verka og víst er að Kristín Ósk Gísladóttir, 10 ára stúlka í Keflavík, er full tilhlökkunar fyrir þetta óvenjulega sumar.

Hún ætlar að leika í kvikmynd og þar með hefur langþráður draumur hennar ræst. Kvikmyndin sem um ræðir er Dauði kötturinn eftir Kristlaugu Maríu Sigurðardóttur en tökur myndarinnar hófust í Reykjanesbæ nýliðna helgi.

Rétt fyrir páskahátíðina auglýstu aðstandendur kvikmyndarinnar að áheyrnarprufur vegna leikaravals færu fram í Frumleikhúsinu á föstudaginn langa. Þar var tekið fram að verið væri að leita að ungri stúlku í aðalhlutverk myndarinnar.

Vilborg Reynisdóttir, móðir Kristínar, segist hafa rekið augun í auglýsinguna og sagt Kristínu frá henni, meira í gríni en alvöru. "Kristín sagði oft þegar hún var yngri að hún ætlaði að verða leikkona.

Ég var svo sem ekkert viss um að sá brennandi áhugi væri enn fyrir hendi þegar ég nefndi þetta við hana, en það var hann samt greinilega því hún dreif sig," sagði Vilborg í samtali við Morgunblaðið.

Ekki happatalan

Gísli Viðar Harðarson, faðir Kristínar, var jafnhissa og Vilborg en að kvöldi skírdags bað Kristín pabba sinn að vekja sig snemma morguninn eftir. "Ég spurði hana hvers vegna í ósköpunum, enda var mér ekki kunnugt um að neitt stæði til. Hún tilkynnti mér galvösk að hún ætlaði í prufuna og þar við sat."

Hátt í 200 stúlkur voru mættar í leikhúsið að morgni föstudagsins langa, en Kristín lét fjöldann ekkert á sig fá, þrátt fyrir reynsluleysi á þessu sviði.

Í prufunni þurfti Kristín að fara í viðtal. "Ég var spurð um áhugamál og svoleiðis," sagði Kristín, sem greinlega hefur haft mikla útgeislun því fljótlega var henni tilkynnt að hún væri komin í tíu manna úrtak vegna hlutverksins. "Ég var látin fá númer og mér sagt að koma aftur seinna um daginn. Ég fékk númerið 49 og ég segi að það sé happatalan mín. Í seinni prufunni þurfti ég svo að leika." Þar með voru úrslitin ráðin.

Kristín segir að leiklistina geti hún alveg hugsað sér að leggja fyrir sig og á sú reynsla sem hún mun hljóta á næstu vikum eflaust eftir að reynast henni vel á þeirri braut.