Afnám tengingar við tekjur maka námsmanna og hækkun grunnframfærslu eru þau tvö atriði sem mönnum ber saman um að standi upp úr í breyttum útlánareglum Lánasjóðs íslenskra námsmanna. Bergþóra Njála Guðmundsdóttir kynnti sér nýju reglurnar.

NÝJAR úthlutunarreglur Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) fyrir skólaárið 2002-2003 eru mikið framfaraskref að mati fulltrúa stúdenta í stjórn LÍN og þá sérstaklega afnám tengingar lána við tekjur maka námsmanns. Formaður endurskoðunarnefndar reglnanna segir að um sanngirnismál hafi verið að ræða.

Reglurnar tóku gildi 1. júní síðastliðinn en umrædd breyting felur í sér að nú munu tekjur maka námsmanns ekki koma til skerðingar námslánum hans. Að sögn Steingríms Ara Arasonar, framkvæmdastjóra LÍN, kemur á móti að hert er á lánum vegna maka námsmanna. "Reglan var þannig að menn gátu fengið lán út á maka ef aðilar voru með barn á framfæri og makinn kaus að vera heima og annast barnið og heimilið. Þessi regla gilti hvort heldur menn voru í námi á Íslandi eða erlendis. Nú má segja að þessi heimild sé takmörkuð við það að um nám erlendis sé að ræða." Hann segir þó lánað vegna maka á Íslandi ef um veikindi eða örorku makans sé að ræða.

Aðspurður hvort þessar breytingar muni leiða til aukinnar aðsóknar í háskólanám segir Steingrímur að svo gæti orðið en hins vegar eigi sjóðurinn ekki von á verulegum breytingum hvað það varðar. "En það er alveg ljóst að það má gera ráð fyrir því að einhverjir fari í nám vegna þessarar breytingar og sæki síðan um lán vegna hennar líka."

Bent á jafnréttissjónarmið

Ingunn Guðbrandsdóttir, sem er fulltrúi Stúdentaráðs HÍ í stjórn LÍN, telur að þessi breyting muni virka hvetjandi á námsmenn enda komi hún til með að auðvelda fólki í sambúð að stunda nám. Hún segir marga hafa veigrað sér við því að sækja nám á háskólastigi vegna tekjutengingarinnar þar sem hún hafi valdið því að viðkomandi námsmaður hafi ekki fengið námslán. "Þannig að það er ekki spurning að þetta kemur til með að auka aðsókn í Háskólann að mínu mati," segir hún.

Ásta Þórarinsdóttir, formaður nefndarinnar sem hafði endurskoðun reglnanna á sínum höndum, segir að breytingin muni hafa mest áhrif til fjölgunar hjá þeim sem eru að koma aftur úr námshléi því væntanlega eigi þeir fremur maka en þeir sem eru að koma beint í háskólanám úr framhaldsskóla. Hún segir þó erfitt að meta hversu mikil fjölgunin verður.

Aðspurð segir hún að breytingarnar hafi verið sanngirnismál. "Sérstaklega fyrir ungt fólk sem er kannski ekki alveg búið að ákveða sinn lífsförunaut endanlega þótt það búi saman. Að því leytinu fannst okkur þessi rök eiga við gagnvart námsmönnum. Okkur hefur líka verið bent á þetta frá jafnréttissjónarmiði - að með þessu geti konur, sem eru á miðjum aldri og vilja mennta sig, gert það á eigin forsendum. Þær hafa kannski ekki getað fengið lán vegna maka og þar gæti þetta komið sérstaklega til góða."

Hún segir hins vegar ekki gefið að breytingarnar séu fordæmisgefandi inn í félagslega kerfið þar sem víða er tekið tillit til tekna maka. "Við teljum okkur vera að gera þetta algerlega á okkar forsendum og þessu sé sérstaklega beint að námsmönnum," segir hún.

Önnur veigamikil breyting á úthlutunarreglunum er að mati viðmælenda Morgunblaðsins fólgin í hækkun grunnframfærslunnar en hún var hækkuð um 8,6% eða úr 69.500 krónum í 75.500 krónur. Samfara því var frítekjumark ákveðið 280 þúsund krónur sem er óbreytt frá árinu áður en tekjur námsmanns umfram þetta mark taka að skerða námslánin. Skerðingarhlutfallið er eins og áður 40 prósent.

Framfærslan var einfaldlega allt of lág

Ingunn segir hækkun framfærslunnar hafa verið nauðsynlega. "Framfærslan var einfaldlega allt of lág og er í sjálfu sér ennþá of lág því 75.500 er ekki há upphæð á mánuði, sér í lagi ef horft er til verðs á húsnæði og framfærslu og fleiru. En þetta er samt gífurleg hækkun milli ára og í rauninni mesta hækkun sem hefur náðst lengi."

Ásta segir að við útreikninga á grunnframfærslunni hafi verið tekið fullt tillit til hækkunar á verðlagi. "Auk þess var sérstaklega horft á liði sem koma námsmönnum við og hafa hækkað meira en aðrir liðir. Þetta varðar námskostnaðinn eins og námsbækur og efniskostnað. Hún segir húsnæðisliðinn ekki hafa hækkað. "Reyndar var tekið tillit til þess að námsmenn hafa betri aðgang núna að húsaleigubótum en áður þannig að sá liður var frekar lækkaður. En á móti var lækkað tillitið til tekna á þann hátt að við reiknum húsaleigubætur ekki sem tekjur þannig að það má segja að þetta hafi þurrkast út á báðum hliðum."

Af öðrum breytingum má nefna að samanlagt hámark skólagjaldalána er hækkað úr 2,8 milljónum króna í 3,1 milljón. Sé um nám erlendis að ræða er reiknað út hversu mikið hámarkið er í mynt námslands og tilgreint í sérstöku fylgiskjali með reglunum. Að sögn Steingríms er í þessu fólgin meiri trygging en áður fyrir því að skólagjaldalánin skerðist ekki í framtíðinni. "Þegar þetta var tilgreint eingöngu í íslenskum krónum og hámarkið í mynt námslands afgreitt með því að það skyldi vera sambærileg fjárhæð miðað við gengi tiltekinn dag, þá gat í rauninni falist í því skerðing milli námsára vegna gengisbreytinga."

Ingunn segir að þetta hafi verið baráttumál stúdenta lengi. "Núna á fólk að vita nákvæmlega hvað það getur fengið mikið í skólagjaldalán fram í tímann og þú getur alltaf fengið sömu upphæð í erlendri mynt."

Samfara þessari breytingu var lágmark eigin fjármögnunar skólagjalda hækkað úr 25.000 krónum í 32.500 krónur og geta tekjur nú skert skólagjaldalán hafi umsækjandi svo háar tekjur að honum reiknist ekki framfærslulán. Þá var framfærsla erlendis almennt hækkuð með tilliti til verðlagsbreytinga í hlutaðeigandi landi.

Áætlaður kostnaður 320 milljónir

Fleiri breytingar voru gerðar á reglunum, s.s. að reglur um lánshæfi sérnáms á Íslandi eru samræmdar, m.a. á þann hátt að nú verður fyrsta eða fyrstu tvö misserin í 4 ára iðnnámi alltaf ólánshæf og sjúkraliðanám lánshæft í allt að fimm misseri í stað tveggja áður. Reglur um lánshæft sumarnám eru rýmkaðar frá og með árinu 2003 en meginskilyrði er eftir sem áður að sumarnám flýti námslokum. Þá er tillit til tekna hjá þeim sem eru að koma úr námshléi samræmt almenna tekjutillitinu. Frítekjumark þeirra sem hafa verið meira en sjö og hálfan mánuð í fullri vinnu áður en lánshæft nám hefst er nú ákvarðað tvöfalt almenna frítekjumarkið en var þrefalt áður.

Að sögn Steingríms er áætlaður kostnaður vegna breytinganna 320 milljónir króna. Af því eru framlög um helmingur eða 160 milljónir. Mismunurinn er svo fjármagnaður með lánum sem sjóðurinn tekur. Hann segir að í breytingunum megi sjá ákveðna einföldun, bæði fyrir námsmenn og Lánasjóðinn og að mikil áhersla hafi verið lögð á að ná sátt um reglurnar.

Undir þetta tekur Ásta sem segir endurskoðunarvinnuna hafa gengið óvenjuvel þetta árið, bæði hvað varðar að ná fram sparnaði og samkomulagi um reglurnar.

Ingunn segir Stúdentaráð einnig vera mjög ánægt með þessar reglur. "Að sjálfsögðu teljum við að það megi alltaf gera betur og gerum okkur fulla grein fyrir því að frítekjumarkið sem er aðeins 280 þúsund króna miðast engan veginn við lágmarks sumarlaun námsmanna. Sömuleiðis teljum við skerðingarhlutfallið vera allt of hátt sem getur verið vinnuletjandi fyrir námsmenn. En að öðru leyti erum við mjög ánægð með þetta og teljum þetta mikið framfaraskref, sérstaklega afnám tekjutengingarinnar."

ben@mbl.is