Daninn Jon Dahl Tomasson fagnar marki sínu sem innsiglaði sigur Dana á heimsmeisturum Frakka án þess að Fabien Barthez og félagar fengju rönd við reist.
Daninn Jon Dahl Tomasson fagnar marki sínu sem innsiglaði sigur Dana á heimsmeisturum Frakka án þess að Fabien Barthez og félagar fengju rönd við reist.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
FRANSKIR fjölmiðlar kröfðust uppstokkunar á knattspyrnulandsliði sínu, strax á fyrstu klukkutímunum eftir ósigur heimsmeistaranna gegn Dönum í Incheon í Suður-Kóreu í gær.

FRANSKIR fjölmiðlar kröfðust uppstokkunar á knattspyrnulandsliði sínu, strax á fyrstu klukkutímunum eftir ósigur heimsmeistaranna gegn Dönum í Incheon í Suður-Kóreu í gær. Franska fréttastofan AFP sagði að þótt menn afsökuðu frammistöðuna með ýmsu móti, óheppni, meiðslum, fjarveru Zidanes í tveimur fyrstu leikjunum og slæmu veðri, væri staðreyndin sú að franska landsliðið væri orðið of gamalt. "Kynslóðaskipti í liðinu eru óumflýjanleg, og það strax, því undankeppni EM hefst strax í september," sagði AFP .

Frakkar tefldu fram sjö leikmönnum sem eru 30 ára og eldri og þrír aðrir, sem ekki gátu spilað vegna meiðsla og leikbanns, eru einnig komnir á fertugsaldur.

Netútgáfa Le Monde birti mynd af Zinedine Zidane liggjandi vonsviknum í grasinu eftir leikinn, undir fyrirsögninni: "Frakkland laut í gras fyrir Danmörku". Í samtali við Sky fréttastofuna í gær sagði íþróttafréttastjóri blaðsins að úrslit leiksins við Dani hefðu ekki komið á óvart í ljósi þess hvernig franska liðið hefði leikið í tveimur fyrstu leikjum keppninnar.

Netútgáfa íþróttadagblaðsins L'Equipe sneri út úr hinu fræga hvatningarhrópi Frakka, "Allez, les Bleus" (Áfram, bláir) og birti fyrirsögnina: "Adieu les Bleus," (Bless, bláir).

Franskt þjóðlíf var nær lamað í gærmorgun á meðan leikurinn stóð yfir og hann var sýndur á stórum skjáum víða í borgum landsins. Vonsviknir Frakkar grétu á götum úti þegar örlög liðsins þeirra voru ráðin. Viðbrögð fólks voru víða á þá leið að leikmenn franska liðsins hefðu verið of hrokafullir og sjálfsöruggir áður en keppnin hófst, og það hefði komið þeim í koll. "Þeir héldu að þetta kæmi af sjálfu sér og hafa verið of uppteknir af því að leika í auglýsingum til að þéna enn meiri peninga," sagði ungur Parísarbúi, sveipaður franska fánanum.

Jacques Chirac, forseti Frakklands, sendi Marcel Desailly fyrirliða bréf þar sem hann lýsti yfir gífurlegum vonbrigðum en sagði að Frakkar stæðu sem fyrr á bak við sitt lið.

"Við munum aldrei gleyma ævintýrinu mikla árin 1998 og 2000," sagði Chirac.

Laurent Blanc, fyrrum fyrirliði Frakka og leikmaður Manchester United, var hvassari. "Þetta var einfaldlega ekki nógu gott. Sumir verða að gera upp hug sinn um hvort rétt sé að þeir leiki aftur fyrir Frakklands hönd," sagði Blanc.