Ragna Marinósdóttir formaður Umhyggju, Ingveldur Marion sem hélt þakkarræðu og Hrafn Hjartarson sem afhenti styrkinn.
Ragna Marinósdóttir formaður Umhyggju, Ingveldur Marion sem hélt þakkarræðu og Hrafn Hjartarson sem afhenti styrkinn.
UM 100 nemendur 10. bekkjar Réttarholtsskóla voru í sjálfboðavinnu hjá ýmsum fyrirtækjum tvo daga í maí og uppskáru tæplega 450 þús.

UM 100 nemendur 10. bekkjar Réttarholtsskóla voru í sjálfboðavinnu hjá ýmsum fyrirtækjum tvo daga í maí og uppskáru tæplega 450 þús. krónur, sem síðan voru afhentar formanni Umhyggju, Rögnu Marinósdóttur, við hátíðlega athöfn á skólaslitum Réttarholtsskóla 4. júní sl.

"Þetta er í annað skipti sem nemendur Réttarholtsskóla vinna að svona söfnunarátaki og í bæði skiptin hafa þeir kosið að styrkja Umhyggju, félag langveikra barna. Hvatinn hefur eflaust verið að Ingveldur Marion Hannesdóttir, sem er í 10. bekkjar hópnum, er einmitt eitt þessara langveiku barna. Í fyrra þegar verkefnið fór af stað hélt hún fyrirlestra fyrir nemendur skólans um langveik börn og einnig sjúkdóm sinn. Þetta vakti mikla athygli og fór Ingveldur víðar með fyrirlestur sinn, m.a. inn á þing félagsráðgjafa og fleiri sérfræðinga. Ingveldur gat lítið fylgt söfnunarátakinu eftir í vetur vegna veikinda sinna. Það varð að ráði að nemendur, með styrk frá Umhyggju, færðu Ingveldi tölvu á útskrift skólans," segir í fréttatilkynningu.

Fyrirtækin sem studdu nemendur Réttarholtsskóla við sjálfboðaliðastarfið voru: Landsspítalinn Fossvogi, Össur hf., Eimskipafélag Íslands, Gróðrarstöðin Gróandi, Ævintýraferðir, Gróðrarstöðin Mörk, Gróðrarstöðin Storð, Borgarskjalasafn, TBR, Morgunblaðið, Kennaraháskóli Íslands (bókasafn), Landsvirkjun, Iðntæknistofnun, Fossvogsskóli, Breiðagerðisskóli, Garðheimar, Bústaðakirkja, Skautahöllin, Gróðrarstöðin Lambhagi, Fjölskyldu- og húsdýragarðurinn, Olís, Borgarleikhúsið, Waldorfskólinn og Opin kerfi.