Ingibjörg Bryngeirsdóttir fæddist í Vestmannaeyjum 6. október 1925. Hún lést á Sjúkrahúsi Vestmannaeyja 1. júní síðastliðinn og var útför hennar gerð frá Landakirkju 7. júní.

Dagurinn kveður, mánans bjarta brá blikar í skýja sundi. Lokkar í blænum, leiftur augum frá, loforð um endurfundi. Góða nótt, góða nótt, gamanið líður fljótt, brosin þín bíða mín, er birtan úr austri skín. Dreymi þig sólskin og sumarfrið, syngjandi fugla og lækjarnið. Allt er hljótt, allt er hljótt ástin mín, góða nótt.

Það eru rétt rúm tíu ár frá því að ég hitti Ingibjörgu í fyrsta skipti. Ég og Jóhanna dóttir hennar höfðum verið að draga okkur saman eftir vel heppnaða þjóðhátíð og nú var komið að því að kynna mig fyrir foreldrunum. Oft er þetta erfiður tími fyrir unnusta, stund sem e.t.v. ræður úrslitum um framhaldið. Hvernig hægt verður að tvinna samband tveggja kynslóða. Í mínu tilfelli var kvíðinn ástæðulaus, Ingibjörg og Alfreð sátu inni í stofu með "Bjartar vonir vakna" og fleiri perlur úr smiðju Ása í Bæ og Oddgeirs á fóninum og voru í alla staði afar elskuleg við mig. Reyndar þekktu þau töluvert meira til mín og fjölskyldu minnar en ég gerði mér fyllilega grein fyrir. Þau höfðu jú búið í næsta nágrenni við foreldra mína fyrir gos. Ég fann það þá og svo margoft seinna hve þau voru miklir Eyjamenn inn við beinið og þrátt fyrir að teygst hefði á útlegðinni þá fylgdust þau vel með lífinu í Eyjum.

Ingibjörg var alla tíð vinnusöm og það var sama hvort um var að ræða síldarsöltum eða saumaskap, það var aldrei farið af stað í nokkurt verk með hangandi hendi. Verkin voru unnin af krafti, seiglu og natni. Ingibjörg var af þeirri kynslóð þar sem hefðbundin verkaskipting kynjanna var á hreinu. Ég átti ekkert með það að vera að vasast inni í eldhúsi nema til þess að næra mig og þegar ég seinna var að snúast í matargerðinni til að gera henni lífið léttara þá var viðkvæðið ætíð: "Vertu ekki að hafa neitt fyrir okkur." Sama átti við um margt annað í samskiptum kynjanna og fjölskyldan notaði sem máltæki orð hennar þegar menn eru ekki sammála stjórnmálakonum: "Hvað eru konur að vilja í pólitík?"

Ingibjörg hafði yndi af því að syngja og þar voru gömul þjóðhátíðarlög í mestu uppáhaldi. Hún kunni ógrynni af textum frá fyrri tíð og það var sönn gleði sem fylgdi hverju lagi, svo sönn að maður skynjaði gleðina sem átti sér uppruna áratugum áður. Þennan uppruna sem Eyjamenn halda svo sterkt í og tengir þá við brimið og bjargið. Þarna var vettvangur sem við þekktum bæði og höfðum dálæti á. Það leiðist engum sem syngur.

Annað var það sem við Ingibjörg áttum sameiginlegt og mér er minnisstætt, við vorum bæði rauðhærð! Það sem mér er þó sérstaklega minnisstætt er að Ingibjörgu fannst lítið til þess koma á meðan ég saknaði þess heldur að hafa tapað mínum rauða lit með árunum. Við Jóhanna eignuðumst síðan rauðhærðan strák og ég hringdi stoltur í tengdaforeldrana til að segja þeim fréttirnar. Eftir að hafa hlustað á mig segja frá rauða hárinu sagði Ingibjörg: "Það getur nú elst af honum."

Eins minnist ég þess þegar kom að eftirrétti við veisluborð þá kom aðeins eitt til greina, ís og aftur ís. Oft var gert góðlátlegt grín að ísáti Búastaðarfólksins og kom það m.a. berlega í ljós á ættarmóti sem haldið var fyrir fáeinum árum. Það eina sem eldhúsfólkið hafði ekki nóg af var ísinn í eftirrétt.

Það eru þessar gleðistundir og dýrmætu augnablik sem varða minningu Ingibjargar tengdamóður minnar, það er einnig þessi létta lund sem hún átti og mikla hjartahlýja sem hún gaf frá sér. Önnur minningarbrot verða ekki dregin fram, þau hafa enga merkingu. Eru óþörf.

Ég kveð þig, kæra tengdarmóðir, með söknuði, drengirnir mínir kveðja kæra ömmu. Við munum, með guðs hjálp hugsa vel um þá sem eftir lifa.

Elsku Imba, ég er þess fullviss að á þessari stundu syngur þú með Ása og öllu fólkinu "innan girðingar" sem á undan þér er gengið, laus við þraut og pínu þessa heims, gamla slagara úr Herjólfsdal. Við sem eftir sitjum tökum undir:

Dagurinn kveður, mánans bjarta brá

blikar í skýja sundi.

Lokkar í blænum, leiftur augum frá,

loforð um endurfundi.

Góða nótt, góða nótt,

gamanið líður fljótt,

brosin þín bíða mín,

er birtan úr austri skín.

Dreymi þig sólskin og sumarfrið,

syngjandi fugla og lækjarnið.

Allt er hljótt, allt er hljótt

ástin mín, góða nótt.

(Ási í Bæ)

Ólafur Týr Guðjónsson.

Ólafur Týr Guðjónsson.