[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
HVERNIG er hin góða móðir? Er hún ábyrg virk móðir sem tilheyrir kjarnafjölskyldu, á hún eiginmann sem tekur þátt í uppeldinu, er hún heima allan daginn, er móðurumhyggjan meðfædd? En hin unga móðir?

HVERNIG er hin góða móðir? Er hún ábyrg virk móðir sem tilheyrir kjarnafjölskyldu, á hún eiginmann sem tekur þátt í uppeldinu, er hún heima allan daginn, er móðurumhyggjan meðfædd? En hin unga móðir? Hefur bernska þeirra spillst eða hafa þær öðlast óvæntan þroska? Hvernig á gott foreldri að vera?

Ímynd móðurinnar og táningsins í hinum vestræna heimi hefur haft sterk áhrif bæði á umfjöllun og rannsóknir á högum ungra mæðra. Annadís Rúdólfsdóttir, lektor í félagssálfræði við University of the West of England í Bristol, hefur rannsakað þessi áhrif og einnig gagnrýni femínista á þá neikvæðu mynd sem dregin hefur verið upp af ungum mæðrum. Annadís hefur skoðað við hvers konar móðurímyndir ungar mæður styðjast, þegar þær gera grein fyrir hugmyndum sínum um móðurhlutverkið og einnig hvers konar aðhald samfélagið veitir þeim.

Annadís skýrði nýlega frá nokkrum niðurstöðum sínum í rannsókn sem hún gerði á vegum Rannsóknastofu í kvennafræðum á árunum 1996-1999.

Hin góða móðir

Í rannsóknum á þroska barna hafa móðir og barn verið í brennidepli. "Femínistar hafa bent á að bak við margar þeirra hugmyndir sem ríkjandi eru um hvernig best ber að hátta samskiptum móður og barns megi greina íhaldssamar hugmyndir um eðli kvenna sem gjarnan hafa verið úr takti við aðstæður og líf þorra kvenna," segir hún.

Annadís segir að í stuttu máli einkenni eftirfarandi hina góðu móður:

Hún er ábyrg fyrir því að barnið þroskist eðlilega. Hún er virk og skapar barninu örvandi umhverfi. Hún tilheyrir kjarnafjölskyldu og hún ber ábyrgð á því að faðirinn taki þátt í uppeldinu. Hún er heima allan daginn, m.a. til að koma í veg fyrir skaðleg áhrif á barnið með fjarveru.

Táningsárin og tímabilið þegar kona gengur með fyrsta barn þykja vera mikilvæg tímabil fyrir mótun sjálfsmyndarinnar. Ef þetta tvennt gerist á sama tíma eru góðar líkur á að sjálfsmynd móðurinnar og sjálfsmynd unglingsins stangist á. "Yfirleitt eru táningsárin skilgreind sem það tímabil þegar einstaklingurinn er að finna sjálfan sig og mynda sjálfsmynd sína," segir Annadís og að táningsstúlkan sé eins og Britney Spear syngur í smellinum: "I´m Not a Girl, Not Yet a Woman" (ekki stúlka, og ekki kona enn).

Hún segir að ef það er einhvern tímann leyfilegt að sýna ungæðishátt og glannaskap, gera tilraunir með mismunandi sjálfsmyndir, misstíga sig t.d. með áfengi þá er það á þessum árum.

Það er á þessum árum sem einstaklingurinn er að læra að hafa stjórn á sjálfum sér og að standa á eigin fótum.

Sjálfsmynd móður

Ungar mæður eru áhugaverðar m.a. vegna þess að ímynd móðurinnar kallar fram allt aðrar hugmyndir en ímynd unglingsins. "Sjálfsmyndin gengst undir óafturkræfar breytingar sem hafa áhrif á viðhorf móðurinnar til sjálfrar sín og annarra," segir Annadís og að margir telji konur ná sambandi við sína kvenlegu fullorðinssjálfsmynd þegar þær eru orðnar mæður. Móðurhlutverkið krefst þess að tvísýn hegðun og sjálfhverfa unglingsáranna víki fyrir ábyrgri hegðun.

Táningsmæður eru á skilunum þar sem kynlíf og bernska mætast og skýrir það hvers vegna táningsmæður hafa valdið fólki áhyggjum. Þær teljast jafnvel vera sérstakur áhættuhópur sem heilbrigðis- og félagskerfið þarf að hafa sérstök afskipti af. Táningsmæður eru einnig líklegri en aðrar mæður til að vera hvorki giftar né í sambúð.

"Afleiðingarnar af því, þegar þetta tvennt fer saman, táningsárin og móðurhlutverkið, eru yfirleitt málaðar með dökkum litum í fjölmiðlum, a.m.k. í Bretlandi og Bandaríkjunum," segir Annadís, "Stjórnmála- og blaðamönnum hefur verið tíðrætt um táningsmæður sem lifa á ríkinu eða eignast börn til að komast í íbúðir á vegum félagsmálastofnana þar."

Hin neikvæða ímynd

Vísindamenn segjast iðulega vera hlutlausir og gera hlutlægar rannsóknir, en það er í raun hægara sagt en gert. Niðurstöður úr rannsóknum á táningamæðrum, eins og ungar mæður eru oftast kallaðar í rannsóknum, hafa af þessum sökum lengi leitað í tvo farvegi, að mati Önnudísar. Það eru rannsóknir þar sem því annarsvegar er haldið fram að ungar mæður séu slæmar mæður, og hinsvegar að barneignirnar hafi slæm áhrif á framtíðarhorfurnar.

Rannsóknir eru nú af ýmsum toga og hlutur ungra mæðra mælist oft betri. Nefna má sem dæmi að Ann Phoenix gerði viðamikla og vandaða eigindlega rannsókn á kjörum ungra mæðra í Bretlandi. Hún vildi gefa ungu mæðrunum rödd í rannsóknum m.a. vegna þess að þær hafa sínar eigin skoðanir og skýringar sem geta stangast á við niðurstöður og skýringar í rannsóknum. Annadís fylgdi þessari aðferð. "Ég leitaðist við í minni rannsókn að gefa viðmælendum mínum rödd," segir hún. "Túlkunin á því sem þær sögðu var hinsvegar auðvitað undir áhrifum af mínum eigin viðhorfum og hugmyndum um ungar mæður."

Annadís hafði áhuga á að vita hvaðan þekking ungu mæðranna á móðurhlutverkinu kom, hvers eðlis hún væri og hvort sú staðreynd að þær væru yngri en tvítugar hefðieinhver áhrif á reynslu þeirra af móðurhlutverkinu. Hún tók viðtöl við ungar mæður á aldrinum 16-20 ára, bæði á meðan þær voru barnshafandi og eftir að þær áttu börnin. Þá skoðaði hún handbækur um barnauppeldi og annað fræðsluefni á heilbrigðisstofnunum.

Jákvæðar fyrirmyndir

Sjö af ungu mæðrunum í rannsókn Önnudísar bjuggu hjá foreldrum eða hjá móður, ein leigði með vinkonu en tvær bjuggu með barnsföður. Sex þeirra höfðu verið í námi en fjórar að vinna þegar þær urðu barnshafandi, allar voru þær þá með barnsföður sínum, en samböndin varað mislengi. Sex þeirra áttu foreldra sem höfðu skilið en foreldrar fjögurra voru enn giftir.

Annadís átti einnig hópviðtöl við aðrar ungar mæður, þá konur sem áttu börn ungar og loks mæður ungra mæðra. Þær voru á misjöfnum aldri með eitt til þrjú börn og með misleitan félagslegan bakgrunn; einstæðar og fráskildar.

Aðferð Önnudísar í rannsókninni heitir orðræðugreining. "Ég skilgreindi orðræðuna sem þyrpingu hugmynda, ímynda og athafna sem hafa áhrif á félagslega virkni og skipulag stofnana í samfélaginu," segir hún, og að hún hafi þemagreint efnið.

Niðurstöður rannsóknarinnar voru meðal annars að engin af ungu konunum sagðist hafa ákveðið meðvitað að eignast sitt fyrsta barn og skiptist til helminga hvort kæruleysi var kennt um þungunina eða því að getnaðarvarnir brugðust; eins og rangri notkun á pillunni.

Ein af meginástæðunum fyrir ákvörðuninni um að eignast barnið var viljinn til að axla ábyrgð af eigin gjörðum. Algengt var einnig að vísa í örlögin og segja að þetta hafi átt að gerast. Einnig virtust jákvæðar fyrirmyndir ungra mæðra úr samfélaginu hafa áhrif eða vitundin um að margar konur hefðu eignast barn ungar en samt náð þeim markmiðum sem þær settu sér. Flestar hefðu þó viljað eiga það seinna, en sumar sögðust vera að gera það sem þær vildu.

Hvetja börnin til að gera sjálf

Annadís vísar í mælikvarða samfélagsins um góðar mæður og sagði að út frá honum væru þessar ungu mæður virkar mæður, sem fóru með börnin í ungbarnanudd og sund, og þær gerðu sér grein fyrir bindingunni. "Þær voru því það sem kallað er góðar mæður," segir hún.

Athyglisvert var að sumar ungu mæðranna virtust axla ábyrgðinna á því að faðirinn yrði virkur í uppeldinu með þeim. Sumar höfðu jafnvel lagt sig fram um að gera verðandi barnsfeðrum sínum grein fyrir alvöru málins og hvað væri í raun í vændum.

Þegar þær voru spurðar um kosti þess að eiga barn ungar sögðu sumar að ungar mæður skeri sig úr öðrum mæðrum m.a. vegna þess að þær hvetja börnin sín til að gera hlutina sjálf á meðan eldri mæður hafa meiri tilhneigingu til að gera allt fyrir barnið. Aðrar bentu á að þær telja sig eiga auðveldara en eldri mæður að mynda vinskap við börnin, því þær standi þeim nær í aldri.

"Eitt af því sem kom sterklega fram í viðtölunum við ungu mæðurnar var að móðurhlutverkið gildir svo sannarlega sem aðgöngumiði að hinum kvenlega fullorðinsheimi," segir Annadís, "raunar var aðgangurinn að fullorðinsheiminum, ásamt samskiptunum við barnið, einn mest aðlaðandi kosturinn við það að verða móðir."

Sumar ungar mæður töldu jafnvel að líf jafnaldra þeirra væri innantómt en þeirra eigin eftirsóknarvert. Þessi munur gat einnig leitt til þess að vinahópurinn minnkaði. Einangrun getur verið fylgifiskur þessa krefjandi hlutverks.

Ekki frávikshópur

Greinilega kom fram að mæðurnar virðast í andófi gegn neikvæðri ímynd ungra mæðra sem liggur í loftinu. Þær ætla ekki að verða ábyrgðarlausar ungar mæður sem skilja börnin eftir hjá foreldrum og fara svo að djamma. Þær vilja ekki heldur láta skilgreina sig sem frávikshóp sem þarf hjálp. "Þær voru meðvitaðar um hina neikvæðu ímynd ungu móðurinnar og sumar voru tregar að taka þátt í rannsókninni vegna þess að þær héldu að hún væri neikvæð," segir Annadís.

Neikvæðu viðbrögðin virtust nokkuð bundin við það hversu stelpulegar þær voru í útliti, því stelpulegri sem þær voru, því meiri líkur voru á neikvæðum viðbrögðum frá umhverfinu.

Mæður þurfa ekki bara að örva vitsmunaþroska barna sinna og veita þeim ást og hlýju, þær þurfa að fæða þau og klæða. þarna lenda þær í erfiðleikum. Oft búa þær hjá foreldrum en það er háð sveitarfélögum hvort þær fá styrki.

Fjölskyldan er sterkasta baklandið, einkum stuðningur mæðranna, og barnsfeðranna ef þær eru í sambúð. Fram kom í viðtölum Önnudísar að þessi stuðningur er bæði tilfinningalegur og fjárhagslegur. "Það var algengt að mæður ungu mæðranna voru viðstaddar fæðingu barnabarnsins," segir Annadís, "ungu mæðurnar leituðu helst til mæðra sinna eða annarra kvenna ef upp komu vafaatriði sem snertu barnið."

Jafnvægisdans við (ungu) ömmuna

Stuðningur fjölskyldu var stundum notaður til að hafa taumhald á ungu konunum, þær fengu ef til vill húsnæði endurgjaldslaust ef þær héldu áfram í námi. "En mæður voru sá aðili sem ungu konurnar leituðu helst til eftir ráðgjöf ef eitthvað fór úrskeiðis," segir hún.

Návígið við eigin fjölskyldu getur hinsvegar skapað togstreitu, því með barninu verður til ný fjölskylda innan fjölskyldunnar. Þó svo að ungu konurnar hefðu með barneigninni stigið veigamikið skref í átt að því að verða fullorðnar fólst ákveðin þverstæða í því hversu þær sem voru einstæðar, urðu háðar eigin fjölskyldu.

Annadís segir að ungu ömmurnar og mæðurnar hafi oft þurft að stíga jafnvægisdans, þær ungu að stilla skapið gagnvart ráðleggingum og ömmurnar að gæta sín á að taka ekki fram fyrir hendurnar á þeim, o.s.frv.

Lokaorð Önnudísar að sinni um rannsókn sína eru að ungar mæður eru ekki einsleitur hópur frekar en aðrir hópar mæðra. Bæði er táningsaldur skilgreindur mjög vítt, og svo segir aldurinn ekki alla söguna. "Stúlkurnar sem ég ræddi við tilheyrðu mismunandi félagslegum hópum og þeirra framtíðaráfrom voru mismunandi," sagði Annadís. "Sumar höfðu hug á að læra, aðrar ekki. Sumar voru í sambandi við barnsföðurinn aðrar ekki. Líf ungra mæðra er flókinn mósaík eins og hjá öllum öðrum og hæpið að hægt sé að einblína á eina flísina til að skýra alla myndina."

guhe@mbl.is