15. júní 2002 | Akureyri og nágrenni | 251 orð | 1 mynd

Gildran, ný akureyrsk kvikmynd verður frumsýnd í Borgarbíói 17. júní

Sumarævintýri ungra stúlkna

Örn Ingi Gíslason hjá Arnarauga og Adda Soffía Ingvarsdóttir, einn af aðalleikurum myndarinnar, með kynningarspjald fyrir myndina.
Örn Ingi Gíslason hjá Arnarauga og Adda Soffía Ingvarsdóttir, einn af aðalleikurum myndarinnar, með kynningarspjald fyrir myndina.
GILDRAN heitir ný kvikmynd eftir Örn Inga Gíslason sem frumsýnd verður í Borgarbíói þjóðhátíðardaginn 17. júní kl. 13.30. Ung stúlka á Akureyri, Sólveig Sigurðardóttir samdi tónlistina og leikur jafnframt eitt af aðalhlutverkunum.
GILDRAN heitir ný kvikmynd eftir Örn Inga Gíslason sem frumsýnd verður í Borgarbíói þjóðhátíðardaginn 17. júní kl. 13.30. Ung stúlka á Akureyri, Sólveig Sigurðardóttir samdi tónlistina og leikur jafnframt eitt af aðalhlutverkunum.

Örn Ingi sagði að hann hefði í fyrstu ætlað sér að gera 30 mínútna stuttmynd, en þegar upp var staðið verið með tæplega tveggja tíma kvikmynd í höndunum. Myndin fjallar um ungt fólk og ævintýri þess í Færeyjum og á Íslandi. Örn Ingi var fámáll um söguþráðinn, en í aðalhlutverkum eru fimm ungar stúlkur, 14-15 ára gamlar og fá áhorfendur að kynnast lífi þeirra eitt sumar. Þær hreppa ferðavinning til Færeyja á veitingahúsi sem þær sækja og stóra spurningin snýst um hvort þær fái fararleyfi og þá á hvaða forsendum. Þær koma svo í ljós í lok myndarinnar. "Það var með ólíkindum hvað gaman var og gefandi að vinna að þessari mynd með öllu þessu góða fólki," sagði Örn Ingi. Alls koma um 60 manns fram í myndinni sem leikarar, en fyrir bregður fjölda fólks því m.a. var tekið upp um verslunarmannahelgina á Akureyri og Fiskideginum mikla á Dalvík.

Styrkur fékkst frá Barnamenningarsjóði, m.a. á þeim forsendum að um er að ræða mynd þar sem ofbeldi og fíkniefni koma ekki við sögu. Akureyrarbær veitti einnig styrk.

Í aðalhlutverkum eru auk Sólveigar sem áður er nefnd, Freyja Pálína Jónatansdóttir, Adda Soffía Ingvarsdóttir, Hrafnhildur Björnsdóttir, Vilhjálmur B. Bragason, Úlla Árdal, Petra Björk Pálsdóttir og Jón Ingi Einarsson. Handrit, leikstjórn, myndataka, hljóð- og myndvinnsla var í höndum Arnar Inga.

Myndin verður sýnd alla næstu viku kl. 18.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.