29. júní 2002 | Leiklist | 547 orð | 1 mynd

LEIKLIST - Skemmtihúsið

Kraftmikill einleikur

The Saga of Gudridur

Þórunn Erna Clausen í hlutverki Guðríðar Þorbjarnardóttur í The Saga of Gudridur.
Þórunn Erna Clausen í hlutverki Guðríðar Þorbjarnardóttur í The Saga of Gudridur.
Höfundur og leikstjóri: Brynja Benediktsdóttir. Aðstoð við enska þýðingu: Tristan E. Gribbin. Leikari: Þórunn Erna Clausen. Búningur: Filippía Elísdóttir. Sviðsmynd og grímur: Rebekka Rán Samper. Hönnun lýsingar: Jóhann Bjarni Pálmason. Hljóð og tónlist: Margrét Örnólfsdóttir. Skemmtihúsið, Laufásvegi 22, 27. júní
SKEMMTIHÚSIÐ við Laufásveg var þétt setið bandarískum ferðamönnum síðastliðið fimmtudagskvöld þar sem Þórunn Erna Clausen leiddi þá inn í heim víkingaaldarinnar í hlutverki Guðríðar Þorbjarnardóttur í leikverki Brynju Benediktsdóttur, sem á ensku heitir The Saga of Gudridur.

Þetta snjalla verk Brynju var frumsýnt í Skemmtihúsinu í febrúar 1998 af Tristan E. Gribbin sem flutti verkið á ensku. Tristan hefur síðan leikið verkið víða, t.d. í Canada, Írlandi, Grænlandi og Austurríki og nú í sumar býður hún upp á sýningar í Los Angeles. Íslensk frumsýning verksins, Ferðir Guðríðar, var hins vegar í Norðurlandahúsinu í Færeyjum sumarið 1998, með Ragnhildi Rúriksdóttur í hlutverki Guðríðar, og sýndi hún verkið síðan áfram við góðar undirtektir í Skemmtihúsinu sama sumar. Sænsk útgáfa verksins var frumsýnd í Stokkhólmi haustið 1998, þar sem Bára Lyngdal Magnúsdóttir lék Guðríði og fór hún síðan með sýninguna í leikför til Finnlands. Þá lék Þórunn Lárusdóttir Guðríði í ensku útgáfunni bæði í Skemmtihúsinu og í Washington haustið 2000.

Höfundur verksins og leikstjóri, Brynja Benediktsdóttir, hefur tekið þátt í öllum þessum sýningum og því ferðast víða, ekki síður en söguhetja hennar á víkingaöldinni. Verkinu hefur verið afar vel tekið, enda er í því sögð mikil og áhugaverð örlagasaga merkrar konu, auk þess sem gefin er skemmtileg innsýn inn í umbrotatímann í kringum árið 1000 þegar kristinn siður mætti heiðnum átrúnaði og skapaði átök sem höfðu djúp áhrif á fólk og menningu.

Þórunn Erna Clausen er sem sagt fimmta leikkonan sem bregður sér í hlutverk Guðríðar Þorbjarnardóttur. Þórunn Erna er tiltöluleg nýútskrifuð leikkona (útskrifaðist 2001 frá Webber Douglas Academy of Dramatic Art í London) sem segja má að hafi komið sterkt inn í íslenkt leikhúslíf í vetur. Hún lék í Syngjandi í rigningunni í Þjóðleikhúsinu og í Rauðhettu í Hafnarfjarðarleikhúsinu, auk þess sem hún lék í Lykill um hálsinn í Vesturporti. Þórunn Erna hefur vakið athygli fyrir mikinn "sjarma" á sviðinu, örugga sviðsframkomu og góðan textaflutning. Allt þetta einkennir leik hennar í hlutverki Guðríðar og sérstaklega er ástæða til að minnast á frábæran framburð hennar á enskunni, svo og er hún glettilega skemmtileg þegar hún bregður fyrir sig þýsku og skoskum hreim þegar hún talar fyrir munn aukapersóna í The Saga of Gudridur. Greinilegt var að Þórunn náði vel til áhorfenda á fimmtudagskvöldið, bros ljómuðu á andliti gesta, jafnvel þótt sumir hefðu á orði (í hléi) að sýningin væri "very modern" og var þar verið að vísa til atriða sem gerðust úti á náðhúsi og vísuðu til kynlífs (áhorfendur voru flestir í eldri kantinum).

Hér er varla ástæða til að rifja upp sögu Guðríðar Þorbjarnardóttur, hún og ævi hennar ætti að vera Íslendingum vel kunn, ekki bara af Grænlendinga sögu og Eiríks sögu rauða heldur einnig af nýlegum bókum þeirra Páls Bergþórssonar, Vínlandsgátan (1997), og Jónasar Kristjánssonar, Veröld víð (1998), en sú síðarnefnda er söguleg skáldsaga um ævi Guðríðar. Verk Brynju Benediktsdóttur er frumleg og skemmtileg leið að ævi þessarar konu um leið og það gefur góða innsýn inn í tímann sem hún lifði. Í heild er sýningin mjög vel lukkuð, það er í henni mikill kraftur, hraði og fjör sem Þórunni Ernu tókst einstaklega vel að koma til skila. Sýningin er sérstaklega ætluð ferðamönnum en ætti ekki síður að höfða til Íslendinga sem hafa áhuga á sögu lands síns - og ekki síst til þeirra sem hafa áhuga á kvennasögu.

Soffía Auður Birgisdóttir

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.