Valgarður Frímann fæddist á Akureyri 6. mars 1930. Hann lést á hjartadeild Landspítalans við Hringbraut 22. júní síðastliðinn. Foreldrar hans voru Jóhann Frímann, skólastjóri og skáld frá Hvammi í Langadal, f. 27.11. 1906, d. 28.2. 1990, og eiginkona hans Sigurjóna Pálsdóttir Frímann, húsfreyja á Akureyri, f. 17.6. 1909, d. 24.5. 1981.

Systur Valgarðs eru Guðlaug Sigyn, húsmóðir á Akureyri, f. 22.12. 1934, og Bergljót Pála Sif, deildarritari í Reykjavík, f. 1.11. 1944. Eiginkona Valgarðs var Theódóra Kolbrún Ásgeirsdóttir, f.12.12. 1933, d. 24.3. 1971. Börn þeirra eru: 1) Þórelfur Guðrún flugfreyja, gift Jóhanni Bragasyni matreiðslumeistara. Börn hennar eru Sveinbjörn Óli, dóttir hans er Júlía, Kolbeinn Daníel, Tómas Freyr og Þórunn Elfa. 2) Hjördís, listmálari í Hafnarfirði, sambýlismaður Kristján Helgason, söngvari og tónlistarmaður. Börn hennar eru Orri Grímur og Helga. 3) Valgerður Jóna nemi, sambýlismaður Vilmundur Sigurþór Þorgrímsson, húsgagnasmiður og hlunnindabóndi í Skálanesi. Börn þeirra eru Valgarður Jón, d. 19.5. 1990, Þór og Olga Kolbrún. 4) Ásgeir trúboði, kvæntur Marie Bulajewsky trúboða. Börn hans eru: Jóhann, Marteinn, Dominique, Raphael, Thea og Valerie. 5) Theódóra Kolbrún hjúkrunarfræðingur, gift Jóni Herbertssyni. Börn þeirra eru Theódóra Kolbrún, Guðný og Jón Tómas. 6) Jóhann, verkamaður í Reykjavík, giftur Kristbjörgu Jóhannsdóttur hjúkrunarfræðingi. Börn þeirra eru: Adam Örn, Aron Valur og Axel Haukur. 7) Vaka, nemi, sambýlismaður Fritz M. Jörgensson rekstrarfræðingur. Börn þeirra eru: Ari Már, Hrafn og Erna Guðrún.

Valgarður lauk námi í rafvirkjun og starfaði sem meistari í iðn sinni. Hann starfaði sem lögreglumaður á Akureyri og í Seyðisfirði, hann var jafnframt tollvörður í Seyðisfirði. Valgarður var ökukennari á báðum stöðum. Valgarður hannaði fjölda firmamerkja á Akureyri og stundaði síðar bókhaldsstörf í Reykjavík.

Útför Valgarðs verður gerð frá Fossvogskirkju á morgun, mánudaginn 1. júlí, og hefst athöfnin klukkan 13.30.

Vaktu, minn Jesús, vaktu' í mér, vaka láttu mig eins í þér. Sálin vaki þá sofnar líf, sé hún ætíð í þinni hlíf. (Hallgrímur Pétursson.)

Elsku pabbi, á sólríkum sumardegi, fyrirvaralaust, fékkst þú ósk þína uppfyllta.

Að fá að kveðja þetta líf vandræðalaust og án fyrirhafnar var þitt æðsta takmark, það eina sem var eftir á þinni erfiðu ævi.

Og það gerðir þú sannarlega, þegar hjartað þitt brast eins og stífla og allt fór á fleygiferð, eitt andartak, og svo var öllu lokið.

Eftir stöndum við, ringluð og tóm.

Og nú tekur tími uppgjörsins við hjá mörgum okkar, þar sem minningarnar munu hrinda af stað erfiðri atburðarás liðinna tíma og enn á ný horfumst við í augu við erfiðar tilfinningar.

Í meira en 30 ár barst þú þungan kross á baki þér, brennimerktur fyrir lífstíð, vegna verknaðar sem þú framdir í augnabliki hörmulegra veikinda. Þetta var hörkutímabil fyrir þig og börnin þín sjö og aðra nákomna. En við lifðum þetta af og lærðum ýmislegt og erum enn að læra. Varnarleysið og skömmina, sem þú sjálfur bögglaðist með og talaðir um, barstu af þvílíku æðruleysi að unun var á að horfa. Guð hvað þú reyndir að láta lítið á þér bera innan um ókunnuga. En með börnum þínum, á góðri stundu, kom sögumaðurinn upp í þér og þú hafðir alveg einstakan frásagnarstíl og við hlustuðum með virðingu. Þetta voru bestu stundirnar, þeim erfiðari gleymum við. Pabbi minn, Þú varst stór hluti af mínu lífi og fjölskyldu minnar.

Jólin og þú, ákveðnar hefðir sem börnin kunnu vel að meta. Bónusferðirnar með "Bónusafa" eins og Jón Tómas kallaði þig, tóku drjúgan toll þegar þú bjóst einn, en spjallið á eftir og skákkennslan til stráksins voru gott veganesti. Traustið sem þú hafðir á Jonna mínum var skiljanlegt. Hann var og er okkar stoð og stytta í einu og öllu. Þú varst nú líka afskaplega montinn af stelpunum mínum, Kollu og Guðnýju sem voru þér góðar eins og börnin þín öll. Síðasti kaflinn í lífi þínu var flutningurinn inn á Hrafnistu þar sem þú náðir að vera tæpa þrjá mánuði. Þar varstu aldeilis farinn að blómstra. Kannski búinn að átta þig á því, að það var í lagi að vera sýnilegur. Elsku pabbi, ég er þakklát Guði að þú þurftir ekki að þjást í lokin, kallið var komið og þú vildir verða að ösku.

Við setjum þig í virðulegt ker og flytjum þig norður til hennar mömmu sem þar hvílir. Hún tekur áreiðanlega vel á móti kallinum sínum sem nú er kominn heim.

Saman munuð þið væntanlega vaka yfir börnum ykkar og senda þeim þann styrk sem þau þurfa á að halda í þessum líka óútreiknanlega heimi.

Þakka þér samfylgdina og hvíl þú í friði.

Þín dóttir,

Theódóra.

Tengdafaðir minn, Valgarður Frímann, lést á Landspítalanum hinn 22. júní sl.

Ég hitti Valgarð fyrst fyrir rúmum tveim áratugum norður á Akureyri. Hann var stór maður og myndarlegur á velli og sjaldan var myndavélin langt undan þar sem hann fór, hann var fær ljósmyndari og lagði fjölskyldunni gjarnan til hæfileika sína á því sviði. Valgarði var margt til lista lagt, laginn teiknari og með næmt auga fyrir hinu listræna í lífinu, hann tók tölvutæknina snemma í sínar hendur og vann með ljósmyndir og bréfaskriftir. Það var alltaf hrein unun að fá frá honum sendibréf, svo lipur var hann með pennann, ekki átti hann langt að sækja hæfileikana á ritvellinum en eftir föður hans, Jóhann Frímann skólastjóra og skáld, liggja bæði leikrit og ljóðabækur. Valgarður hafði áður en veikindi létu til sín taka verið virkur í starfi skátahreyfingarinnar á Akureyri og stundaði hann fjallamennsku af miklu kappi á sínum yngri árum. Valgarður var einstaklega ljúfur og þægilegur maður í umgengni, það var ekki hans að leggja fólki lífsreglur en oft lagði hann til góð ráð þegar það átti við. Síðustu árin voru Valgarði betri en mörg þar á undan, lífshlaupið hafði verið honum þungt og glíman við veikindi erfið, en með góðum húmor sem var einn af hans stærstu kostum létti hann oft lífið fyrir sjálfan sig og aðra. Barnabörnin eiga eflaust eftir að sakna afa Valla enda var alltaf vel tekið á móti gestum þegar þá bar að garði. Valgarður var nýlega fluttur búferlum á Hrafnistu í Reykjavík, þegar kallið kom, hann hafði komið sér ágætlega fyrir þar, naut þess að fá góðar máltíðir og umönnun, hann var búinn að eignast góða félaga á Hrafnistu og farinn að njóta dvalarinnar.

Helgina áður en hann lést gerði Valgarður víðreist, bjó sér til örlítið aukasumarfrí og heimsótti vini og vandamenn í sumarbústaði hér á undirlendinu og var sá gamli óvenjulega ferðaglaður og hress og er ég ekki frá því að hann hafi ómeðvitað skynjað hvert stefndi. Ég er ríkari í sinni og hjarta eftir kynni mín af Valgarði, æðruleysi hefur fengið nýjan skilning í mínum huga og ég á eftir að sakna húmorsins og ferða í rjómatertur og fínerí sem alltaf er hægt að gleðja góða maga með. Valgarður minn, ég veit að þú ert núna á grænum grundum með ástvinum þínum og hef ég einhvern veginn lúmskan grun um að þið hjónin og Valgarður nafni þinn séuð núna, þegar ég hripa þessar línur, úti að spássera og Dopphildur Djásn hlaupandi allt um kring.

Ég bið guð og alla engla um að vaka yfir þér og votta öllum aðstandendum mína dýpstu samúð.

Vaktu, minn Jesús, vaktu' í mér,

vaka láttu mig eins í þér.

Sálin vaki þá sofnar líf,

sé hún ætíð í þinni hlíf.

(Hallgrímur Pétursson.)

Fritz M. Jörgensson.

Elsku bróðir, ósköp lá þér á allt í einu. Enginn tími til að kveðja og segja takk fyrir það sem þú varst mér og mínum. Við vorum búin að fara í gegnum súrt og sætt saman, áttum okkar góðu stórfjölskyldu sem var ekki minnst þér að þakka hversu stór og góð hún varð.

Ævi þín varð ekki sú auðveldasta en þú gerðir það besta úr henni sem hægt var og kvartaðir ekki yfir örlögunum. Margs er að minnast frá okkar góða æskuheimili; dansinn í kringum jólatréð á aðfangadagskvöld, jólaleikirnir, bókaheitin, söngurinn í kringum píanóið og svo margt sem við höfum reynt að miðla til næstu kynslóða af því þetta gaf okkur svo mikið. Nú svo kom Kolla, stóra ástin, inn í lífið þitt og lífsbaráttan hófst hjá ykkur, börnin komu hvert af öðru, húsbygging og baráttan fyrir brauðinu eins og gengur í stórum fjölskyldum.

Allt gekk vel, þið voruð yndisleg saman og góð fjölskylda. Þá reið stóra höggið yfir, þú veiktist af veikinni sem helst enginn vill vita af, geðveikinni, bráða geðklofa og það varð allt svart í bili, þú varst látinn taka út þungan dóm. Enginn skilningur.

Vonandi eru meðferðarúrræðin betri í dag.

Ég er svo þakklát þessu fólki sem skapar listaverk eins og "A Beautiful Mind" og Engla alheimsins sem auka skilning fólks á geðveikinni. En lífið hélt áfram og það birti smám saman upp og fullt af fólki sem hafði skilning studdi við bakið á okkur. Fyrir það vorum við þakklát, þú komst smám saman út í lífið til okkar með hjálp góðs fólks og lyfja. Þú áttir þín góðu börn sem studdu við bakið á þér og gerðu þér lífið bærilegt. Góðu stundirnar urðu fleiri og fleiri, þú varst duglegur að finna þér góð áhugamál, þér var margt til lista lagt og oft var glatt á hjalla hjá okkur.

Þú varst búinn að tala um að þú vildir helst ekki verða mjög gamall og hrumur, en þú varst bara svo hress og með þinn góða húmor til þess síðasta svo mér datt í hug kallinn sem lá banaleguna með svipaðar skoðanir á aldri og heilsu, hann sagði: "Æi, ég hefði nú alveg þegið svona hálft ár í viðbót." Alla vega hefði ég þegið að hafa þig lengur. Ég veit að almættið verður áfram með okkur og áfram verður staðið þétt saman. Far þú í friði bróðir. Blessuð sé minning þín Gægæ minn.

Þín litla siss,

Bergljót.

Elsku Valgarður frændi. Mig langar til að kveðja þig með nokkrum fátæklegum orðum, nú þegar þú ert horfin okkur yfir móðuna miklu.

Ég man eftir þér frá árunum þegar ég var barn á Akureyri. Fjölskylda þín var stór og alltaf gaman að koma í Kringlumýrina til frændfólksins. Þið hjónin voruð fallegt par og gagnkvæm ást og samheldni einkenndi ykkur. Barnahópurinn var fallegur og mannvænlegur. Á heimilinu var líf og fjör eins og vill verða hjá barnmargri fjölskyldu. Þið hjónin sáuð þó um að ærslin færu ekki úr böndunum. Kolbrún á sinn ljúfa og hægláta hátt og þú með meðfæddum myndugleika, blönduðum svolitlum stráksskap á stundum. Þegar fjölskyldan flutti til Seyðisfjarðar fannst mér það mikill missir, en það var bætt úr að nokkru með sumarheimsóknum á Seyðisfjörð.

Segja má að ég kynntist þér fyrst fyrir 15 árum, þegar þú bjóst í Hátúni. Þá var ég orðinn fullorðinn maður og með okkur varð vinátta. Ég heimsótti þig reglubundið og yfir kaffi ræddum við hin ýmsu mál. Þú varst greindur maður, talaðir fallegt mál. Þú varst sögumaður góður, hafsjór af sögum, gjarnan kryddaðar kímni og græskulausu gamni. Þú vildir öllum vel, varst tilfinningamaður en barst tilfinningarnar ekki á torg. Í brjósti þér bjó mikill harmur sem þú leyndir flestum. Þú varst lifandi og áhugasamur um ýmis málefni, sérstaklega þau er sneru að tækni og skaust þar stundum yngri mönnum rækilega ref fyrir rass. Árið 1989 keyptir þú íbúð í smíðum á Klapparstíg 3 og í kjölfarið fylgdu skemmtilegir tímar. Þarna varð gestkvæmt, því þótt þú væri ekki allra varst þú í raun mikil félagsvera. Þú hafðir mikið að gefa og varst einnig mjög áhugasamur um hagi viðmælenda þinna. Börnin og barnabörnin voru tíðir gestir og á þessum árum eignaðist þú sannkallaðan heimilisvin sem bjó í næsta húsi; Örn Bjarnason frá Akureyri, sem gaf tilverunni bjartari svip.

Við frændurnir brölluðum ýmislegt og vorum um tíma saman í hálfgerðu "bílabraski". Keyptum við m.a. saman "Volvo 264" árgerð 1979, sem verið hafði í eigu eins af forsetum lýðveldisins. Bifreiðin var sannkölluð lúxusbifreið, með kraftmikilli vél, vökvastýri, leðursætum og rafmagni í rúðum. Hún var rúmgóð vel, enda veitti ekki af. Þú varst með stærstu mönnum og mikill að vallarsýn. Nefndum við bílinn Forsetabílinn. Valgarður hafði ekki ekið um árabil. Gamli ökukennarinn tók nú nokkra ökutíma og endurnýjaði skírteini sitt. Á næstu árum ók hann bifreiðinni af reisn og myndugleika og hafði mikla ánægju af. Síðustu misseri hittumst við frændurnir ekki eins oft og áður en strengurinn á milli okkar var alltaf samur.

Það er undarleg tilfinning að þú skulir vera farinn. En á stundum finnst mér að þú sért við hliðina á mér þegar ég er að bauka eitthvað. Ég veit það, Valgarður minn, að þér líður vel og ert í faðmi ástvina, sem áður eru farnir. Ég bið þig að heilsa föður mínum sem dó fyrir rúmum 2 árum. Þið voruð ágætir félagar og er mikill missir að ykkur báðum.

Ég vil að lokum votta börnum Valgarðs, barnabörnum, systrum og öðrum vandamönnum og vinum innilega samúð. Sömuleiðis senda móðir mín og systkini innilegustu samúðarkveðjur.

Jóhann Frímann Gunnarsson.

Vinur minn góður, Valgarður Frímann Jóhannsson, er dáinn. Reyndar kallaði ég hann alltaf Gægæ Frímann, eða bara Gægæ, eins og allir gerðu sem þekktu hann vel. Nafnið var svo einstakt að það var nóg að segja bara Gægæ, þá vissu allir við hvern var átt.

Við kynntumst á Akureyri, en Gægæ var þar lögreglumaður um margra ára skeið, jafnframt því að starfa sem rafvirki hjá Indriða í Kóinu. Ég var þá innan við tvítugt og þurfti endilega að skaprauna lögreglunni, ef ég mögulega gat, eins og fleiri ungir menn í höfuðstað Norðurlands á þeim tíma. Sérstaklega átti þetta við þegar við strákarnir höfðum komist yfir áfengi og stundum tókst okkur að æsa lögguna svoleiðis upp að hún fór að láta kjánalega og missa stjórn á skapi sínu. Ég held að flestir í lögreglunni hafi einhvern tímann lent í því. Nema Gægæ. Hann skipti aldrei skapi það ég best man. Alltaf svona sallarólegur, stór og mikill, dálítið eins og góðlegur bangsi. Hann Valgarður Frímann Jóhannsson lét nú ekki nokkra unglingsstráka koma sér úr jafnvægi.

Gægæ var svo stór og mikill að félagar hans í lögreglunni báðu hann að "rétta nú vel úr sér" ef mikið lá við og slagsmál sýndust í uppsiglingu. Datt þá yfirleitt allt í dúnalogn. Enginn vildi lenda í slag við þennan stóra mann ef hægt var að komast hjá því. Þannig er minningin um Gægæ á Akureyri svona í kringum 1965.

Svo var það sumarið 1990 að ég flutti á Völundarlóðina neðst á Klapparstígnum í Reykjavík og einn af þeim fyrstu sem ég sá þar var Gægæ Frímann, vinur minn frá Akureyri. Hann hafði keypt sér þar íbúð eins og ég. Það voru miklir fagnaðarfundir. Í þau ár sem við áttum báðir heima þarna á Klapparstígnum kom ég nánast daglega til Gægæ og við spjölluðum um alla heima og geima yfir góðum kaffisopa. Hjá honum var eiginlega mitt annað heimili í nokkur ár. Það var hálftómlegur dagur ef ég náði ekki að segja nokkur orð við vin minn Gægæ Frímann og fá kaffi í bolla.

Og við spjölluðum margt. Það var gott að koma til Gægæ með vandamál lífsins sem banka uppá öðru hvoru hjá okkur öllum. Hann fann alltaf einhverja einfalda lausn á málunum, hversu snúin sem þau kunnu að hafa verið í upphafinu. Með rólegheitum sínum og góðsemi greiddi hann úr öllu saman og lausnin lá svo á borðinu fyrr en varði, svona rétt eins og ekkert væri eðlilegra. Ég furðaði mig oft á þessum eiginleika hjá Gægæ, að leysa mál á einfaldan hátt. Áfram liðu árin.

Frá Klapparstígnum flutti Gægæ í Álftamýri 40 og bjó þar í nokkur ár. Þangað heimsótti ég hann stundum og alltaf var það jafn notalegt. Þar reyndist líka vera hægt að spjalla saman og leysa lífsgátuna og einnig þar var drukkið gott kaffi. Þaðan lá svo leiðin í Jökulgrunn 2, þar sem Gægæ átti heima síðustu mánuðina sem hann lifði. Lát hans bar nokkuð skyndilega að og mig grunar að þannig hafi hann óskað sér að það mætti verða.

Kæri vinur, Valgarður Frímann Jóhannsson, Gægæ. Það er komið að kveðjustund. Ég vil við leiðarlok þakka þér fyrir allar ljúfu og notalegu samverustundirnar og öll heilræðin sem þú áttir alltaf handa mér. Sumir menn eru sendir í veg okkar hinna til að kenna okkur svo ótal margt. Þú varst einn þeirra.

Ég varð líka þeirrar gæfu aðnjótandi að fá að kynnast börnunum þínum flestum og fleiri ættingjum, sem í dag eru góðir vinir mínir.

Gægæ, minn góði vinur. Farðu vel.

Örn Bjarnason.

Theódóra.