Markús Karlsson ætlar að ráðleggja íslenskum hugbúnaðarfyrirtækjum.
Markús Karlsson ætlar að ráðleggja íslenskum hugbúnaðarfyrirtækjum.
Íslenska hugbúnaðarfyrirtækið Emojo er í samstarfi við sum af þeim stærstu í geiranum. Markús Karlsson stofnaði fyrirtækið fyrir fjórum árum og segir hér Eyrúnu Magnúsdóttur frá Emojo og nýjum verkefnum.

MIKIÐ hefur verið rætt og skrifað um hugbúnaðarfyrirtæki hérlendis sem erlendis á síðustu árum. Að undanförnu virðist umræðan þó frekar snúast um þau fyrirtæki sem eiga undir högg að sækja en síður um þau sem náð hafa árangri. Emojo er eitt þeirra fyrirtækja sem lítið hefur heyrst frá. Fyrirtækið er fjögurra ára gamalt og hannar vefumsjónarkerfi og veflausnir fyrir stór og umfangsmikil vefsvæði. Stofnandi og aðaleigandi Emojo er Markús Karlsson en hann ákvað nýlega að slást í hóp þeirra sem vinna sem sérstakir markaðsráðgjafar fyrir Útflutningsráð Íslands og mun á næstu tveimur árum aðstoða íslensk hugbúnaðarfyrirtæki við að koma ár sinni fyrir borð á erlendum mörkuðum. Hann hefur mikla þekkingu á hugbúnaðarmörkuðum enda selur Emojo sínar veflausnir um allan heim. Útflutningsráð leitaði til Markúsar til að vera í ráðgjafarhlutverki fyrir íslensk hugbúnaðarfyrirtæki. Sambærileg verkefni hafa verið gerð út á vegum ráðsins, t.d. í sjávarútvegi, en nú er í fyrsta skipti ráðist á hugbúnaðarmarkaðinn. Verkefnið sem Markús kemur að er annað af tveimur á þessum markaði en Útflutningsráð er að setja samskonar verkefni í gang í Danmörku.

Gerðum öll mistökin

Markús segist hlakka til að takast á við verkefnið. "Þetta er mjög spennandi og ég held að þetta sé eitthvað sem ég get gert vel. Ég er búinn að starfa í hugbúnaðargeiranum í átta ár og veit að það er hægt að gera endalaus mistök. Huga þarf að því hvernig samningar eru undirritaðir, við hvernig fyrirtæki er skipt, hvernig lagasetning í viðkomandi landi er og svo framvegis. Við gerðum öll mistök sem hægt er að gera þannig að við þekkjum þetta. Ef ég hefði haft svona mann fyrir nokkrum árum þegar ég var að byrja þá hefðu mistökin eflaust verið færri," segir Markús. Hann segir 20 íslensk hugbúnaðarfyrirtæki hafa sýnt verkefninu áhuga. "Ég mun svo velja fjögur til átta fyrirtæki til að taka þátt. Ég ætla mér að ná árangri með fyrirtækin, finna réttu aðilana fyrir þau til að starfa með. Ég þekki fólk í viðskiptum um allan heim sem gæti hjálpað til," segir Markús.

Þegar Markús var að stíga sín fyrstu skref í viðskiptum erlendis stofnaði hann fyrirtækið Mitoo 1994 og uppúr því varð Emojo til. Fyrirtækin tvö eru þó með öllu ótengd í dag utan þess að Markús á enn hlut í Mitoo. Hann segist hafa lært það á þessum tíma að samstarf við önnur fyrirtæki skipti miklu máli. Hann vill því leggja mikla áherslu á samstarf milli fyrirtækjanna í verkefninu og segir að sér komi á óvart hversu lítið sé um slíkt milli fyrirtækja í hugbúnaðargeiranum hér á landi. Hann ætlar meðal annars að setja upp vefsíðu fyrir verkefnið þar sem fyrirtækjunum er gert kleift að ræða saman í gegnum Netið og miðla af sinni reynslu. Markús segir Emojo vera með þónokkrar slíkar síður þar sem þeir geti haldið sambandi við sína samstarfsaðila.

Í beinni sam- keppni við Microsoft

Hjá Emojo starfa nú sjö manns auk Markúsar. Hann segir fyrirtækið hafa verið að vaxa um 100% á ársfjórðungi síðustu misseri og sala á hugbúnaði hafi gengið vonum framar. Þrátt fyrir mikla velgengni er fjölgun starfsmanna ekki fyrirhuguð. Mest er lagt upp úr góðu samstarfi við önnur og stærri fyrirtæki. Emojo hefur verið að hanna og þróa vefumsjónarkerfi fyrir mörg stórfyrirtæki, þeirra á meðal eru tölvufyrirtækið Carrera, fataframleiðandinn Diesel og Konunglega óperuhúsið í London (The Royal Opera House). Íslenskir kaupendur að veflausnum Emojo eru t.d. Europay, Securitas og RARIK en aðalsamstarfsaðili Emojo hér á landi er hugbúnaðarfyrirtækið Juventus. "Þetta eru mjög stór kerfi sem við erum að hanna. Við vorum að vinna með fyrirtæki sem heitir Carrera og var með stærstu sjálfstæðu tölvuframleiðendum á Bretlandi á sínum tíma. Fyrirtækið bað okkur um að hanna fyrir sig vefumsjónarkerfi. Þar sem allar þeirra tölvur nota Microsoft-hugbúnað sagðist Microsoft ekki verða ánægt ef vefurinn yrði ekki keyrður á þeirra vefumsjónarkerfi. Carrera vildi hins vegar nota okkar kerfi og við urðum því ofan á í beinni samkeppni við Microsoft," segir Markús.

Kerfið sem um ræðir þurfti að geta haldið utan um vef með um 20 þúsund vörutegundum þar sem verð á tæpum helmingi þeirra breyttist vikulega. "Við komum með nokkrar hugmyndir að því hvernig kerfið ætti að virka. Það kerfi sem við bjuggum svo til virkaði þannig að þegar einhver pantaði tölvu kom póstur þess efnis inn til framleiðanda, í bókhaldið, til sölumanns, inn á línu í pökkun o.s.frv. til að allt mætti ganga sem hraðast fyrir sig. Það barst meira að segja póstur til DHL-hraðþjónustunnar til að láta vita að sækja þyrfti kassa innan tíðar. Allt þetta er hægt að gera með því að ýta á einn hnapp. Svona kerfi byggist í raun allt upp á samböndum. Við tengjum saman upplýsingar," segir Markús.

Netsteinöld stendur yfir

Helsta söluvara Emojo er vefumsjónarkerfið Affino. Markús segir Netið vera í svo mikilli þróun að til að halda í við það sem er að gerast sé nauðsynlegt að halda sífellt áfram að þróa kerfið. Hann nefnir sem dæmi að síðan Emojo gaf út nýjustu útgáfu af Affino 2.0 fyrir um þremur mánuðum hafi ný evrópsk lög sem segja til um hvernig svona kerfi eiga að virka litið dagsins ljós auk þess sem nýir vafrar (vafri = browser) hafi komið út.

"Þetta er stanslaus straumur. Það er alltaf eitthvað að breytast og við verðum að þróa kerfið áfram til að missa ekki af neinu. Það mun hægja á þessari þróun en ég tel ólíklegt að það muni gerast á næstu fimm árum. Eftir tíu ár mun kannski hægja eitthvað á hlutunum. Netiðnaðurinn er bara svo nýr að það er alltaf eitthvað að breytast. Í raun getur enginn sagt til um hvað á eftir að gerast. Við erum á steinöldinni núna, erum rétt að færast inn á járnöldina hvað Netið varðar. Menn eru fyrst núna að læra almennilega á Netið," segir Markús.

Í samstarfi við Macromedia

Emojo starfar náið með hugbúnaðarrisanum Macromedia sem hefur hannað og þróað forritin Flash og Dreamweaver. Emojo er getið í nýjasta bæklingi Macromedia sem samstarfsaðila fyrirtækisins. Að sögn Markúsar er Macromedia að þróa tengsl á sínum hugbúnaði við veflausnir Emojo. "Við höfum verið að þróa okkar vefumsjónarkerfi svo að hægt sé að nota það á öll stýrikerfi; Windows, Linux, Solaris o.s.frv. Við byggjum þetta upp á Macromedia-tækni og hún virkar á öll helstu stýrikerfi sem notuð eru fyrir vefsíður," segir Markús.

Í ágústhefti tímaritsins PC Pro er vakin athygli á veflausn Emojo og hún kynnt sérstaklega sem ein af þeim bestu á Macromedia-hugbúnaði. "Það er enginn að gera það sama við þeirra kerfi og við og þeir eru ánægðir með okkar lausnir," segir Markús. Meðal verkefna sem framundan eru hjá Emojo er að vinna lausnir fyrir gagnvirkt sjónvarp hjá UKTV sem er í eigu BBC og Flextech. Markús segir þá vinnu vera mjög spennandi og geta, gangi allt upp, skipt miklu máli fyrir fyrirtækið.

Eins og að selja fisk til Íslands

Fjöldi samstarfs- og endursöluaðila Emojo veltur á tugum. Emojo er í tengslum við fyrirtæki víða um heim, meðal annars í landi hinna knattfimu Brasilíumanna. Ekki eru það þó einungis einkafyrirtæki sem sýna veflausnum Emojo áhuga því fyrirtækið er nú opinber samningsaðili við ríkisstjórn Bandaríkjanna ("Official US Government Contractor"). Markús segir Emojo vera með samning við Kaliforníuríki um kaup á vefumsjónarkerfi.

"Við vorum í mikilli samkeppni við fjölda bandarískra fyrirtækja og vorum mjög ánægðir með að fá þennan samning. Þetta er eins og að selja fisk til Íslands," segir Markús. Kalifornía er vitanlega heimaríki hins víðfræga Kísildals þar sem ófá hugbúnaðarfyrirtæki hafa stigið sín fyrstu spor í tölvuheiminum. Emojo hefur alltaf starfað í London en Markús segir heimsóknir sínar til Íslands væntanlega verða tíðari í kjölfar hins nýja hlutverks hjá Útflutningsráði. Markús mun, ásamt því að reka hið hraðvaxandi Emojo, gefa öðrum hugbúnaðarfyrirtækjum góð ráð um hvernig skuli fóta sig í útlöndum. Hvort hann hyggst láta á það reyna að selja fisk hingað til lands frá Bretlandi skal ósagt látið en Markús er ákveðinn í að halda áfram þróun og sölu hugbúnaðar um allan heim.

eyrun@mbl.is