Peter Levine og Edda Arndal.
Peter Levine og Edda Arndal.
Bandaríski sálfræðingurinn Peter Levine hefur þróað nýja meðferð við áfallastreitu. Hann kynnti þetta nýja meðferðarform á námskeiði sem hann hélt á Landspítala - háskólasjúkrahúsi um liðna helgi.

PETER Levine er bandarískur sálfræðingur sem hefur sérhæft sig í áfallaröskun en hann hélt á dögunum námskeið á Landspítala - háskólasjúkrahúsi þar sem hann kynnti kenningar sínar og aðferðir. Peter, sem er einnig með doktorspróf í lífeðlisfræði, hefur aðallega leitast við að sýna fram á lífeðlisfræðilegan grunn áfallaröskunar og hafa rannsóknir hans markað nýja stefnu í meðferð áfalla. Meðferðin sem hann hefur þróað kallast líkamsskynjun en hann telur að líkamsskynjunin sé lykillinn að lækningu áfalla, það er að beina fólki inn í þá skynjun.

Peter starfar núorðið mest við kennslu og námskeiðahald, auk þess sem hann vinnur með einstaklingum sem hafa orðið fyrir áföllum. Hann hefur þjálfað sálfræðinga, hjúkrunarfræðinga og fleiri stéttir víða um heim og stendur meðal annars fyrir kennslu í líkamsskynjun sem meðferðarformi. Edda Arndal er meðal nemenda hans í Bandaríkjunum, en hún er hjúkrunarfræðingur auk þess sem hún hefur lokið meistaraprófi í sálfræði og mannfræði og er hún nú að sérhæfa sig í meðferð áfallastreitu, samkvæmt kenningum Peters. Hann kom hingað til lands fyrir milligöngu hennar og Guðnýjar Önnu Arnþórsdóttur, hjúkrunarframkvæmdastjóra endurhæfingarsviðs geðdeildar Landspítala - háskólasjúkrahúss.

Hefur rannsakað áhrif áfalla og streitu á taugakerfi

"Aðferðin sem ég nota er ný nálgun en ég hef sjálfur notað hana í meira en þrjátíu ár," segir Peter. Að sögn hans skoðaði hann atferli dýra og reyndi að skilgreina áhrif áfalla og streitu á taugakerfi þeirra, jafnt sem manna. "Þegar fólki er ógnað og hættan líður hjá er áfallið ekki yfirstaðið. Þannig er það hins vegar hjá villtum dýrum. Þegar þau eru komin úr hættu komast þau í sama jafnvægið um leið aftur," bendir hann á

Hann veltir því upp hvort dýr verði ekki fyrir áfallastreitu en segir að hegðun villtra dýra breytist fljótt ef þeim er komið fyrir á tilraunastofu þannig að vissulega verði þau fyrir áfallastreitu líkt og fólk. Aftur á móti hugsa þau ekki um hættuna þegar þau eru úti í náttúrunni, að sögn Peters, heldur gerist eitthvað í líkamsstarfsemi þeirra sem veldur því að þau komast samstundis í jafnvægi.

Hann segir að í mönnum og dýrum, jafnvel sumum frumstæðum dýrum, sé þáttur í heilastarfseminni sem stýri viðbrögðum við áföllum. Peter spyr því hvort þessi hæfileiki dýranna til að jafna sig sé eitthvað sem mennirnir búa yfir en hafa misst hæfileikann til að nota eða hvort þetta sé náttúrlegt ferli sem mannfólkið leyfir ekki að gerist.

Við festumst í áfallinu

Hann segir að rannsóknir sínar styðji síðari fullyrðinguna. "Ef villt dýr er elt fer það í gegnum mjög sérstakt ferli þegar það losnar. Það hristist og skelfur, fær djúpan, öran andardrátt og gengur í gegnum hitabreytingar. Það sama gerist hjá fólki nema hvað við skiptum okkur af þessu ferli. Við höfum orðið hrædd við það og leyfum því sjaldnast að ganga yfir. Við stoppum í þessari miklu orku og verðum föst. Áfall snýst einmitt um það að vera fastur," útskýrir Peter.

Hann heldur áfram og segir að ef einhverjum sé ógnað framkalli líkami og hugur þau viðbrögð að viðkomandi hlaupi eins hratt og hann getur eða berjist. Hann bendir á að orkan sem kemur yfir einstaklinginn sé sama orka og gerir móður kleift að lyfta þungri bifreið og draga barnið sitt undan til þess að bjarga því úr hættu. "Við gefum frá okkur ótrúlegt magn af orku en ef við erum ekki fær um að losa þessa orku og komast aftur á byrjunarreit leggst það á líkama okkar," bætir hann við. Hann segir að fólk sem hefur lent í mörgum áföllum á tiltölulega stuttum tíma virðist fara mjög nærri því að komast út úr þessu ferli. Það verði sterkara fyrir vikið vegna þess að það viti að það komist í gegnum áföll.

Líkaminn þarf að ljúka ferlinu

Aðspurður hvernig meðferðin sjálf gangi fyrir sig segir Peter að í fyrstu þurfi að vinna með líkamanum. "Áfall snýst um að festast. Einstaklingur verður hreyfingarlaus gagnvart hættu og festist þar. Líkaminn gerir vissa hluti til að vernda okkur og þetta er einn þeirra. Ef hann fær að ljúka þessu ferli þá er einstaklingurinn ekki lengur í áfalli og eftir stendur orka," ítrekar Peter.

Hann telur að fólk geti fundið það innra með sér ef það hefur fest, það skipti ekki máli að muna hvert áfallið var heldur eingöngu að finna að það hafi orðið og leyfa því að klára. "Fólk þarf að vera meðvitað. Þegar manneskjan verður meðvituð fer líkaminn að hegða sér eins og hann gerði fyrir tveimur árum þegar einhver réðst á hana. Þá fer líkaminn að ljúka þessum viðbrögðum. Viðbrögðunum fylgir skjálfti, hristingur, djúpur andardráttur og svo framvegis. Þetta verður til þess að líkaminn losnar úr þessu ástandi," segir hann.