Kristinn kemur að landi í Reykjavíkurhöfn.
Kristinn kemur að landi í Reykjavíkurhöfn.
KRISTINN Magnússon sundkappi synti Viðeyjarsund í þriðja sinn á laugardaginn. Hann hóf sundið frá bryggjunni í Viðey og tók land í Reykjavíkurhöfn við Suðurbugt, sem er á milli Miðbakkans og Ægisgarðs.

KRISTINN Magnússon sundkappi synti Viðeyjarsund í þriðja sinn á laugardaginn. Hann hóf sundið frá bryggjunni í Viðey og tók land í Reykjavíkurhöfn við Suðurbugt, sem er á milli Miðbakkans og Ægisgarðs. Sundið er 5,1 km og var hann eina klukkustund og 25 mínútur á leiðinni. Hann ætlar að synda frá Vestmannaeyjum til lands um miðjan ágúst í sumar, en það hafa aðeins tveir menn gert áður, þeir Eyjólfur Jónsson og Axel Kvaran árið 1960.

Kristinn segir að sundið á laugardaginn hafi verið nokkuð átakalítið. "Ég ætlaði reyndar að bæta metið mitt frá því fyrir fjórum árum, en var svo ekkert að æsa mig yfir því enda er það enn í minni eigu," sagði Kristinn, sem var 3 mínútur frá meti sínu. Sjórinn var um 10 stiga heitur og synti Kristinn ósmurður í sundskýlu einni fata eins og hann er vanur.

Ein af sjö sundleiðum í sumar

Viðeyjarsundið er ein af sjö sundleiðum í sjó sem hann ætlar að fara í sumar. Hann synti fyrr í sumar Engeyjarsund og yfir Hvalfjörð. Næsta verkefni hans er Drangeyjarsund um næstu helgi. Þá ætlar hann að synda yfir Þingvallavatn og frá Kjalarnesi og inn í Reykjavíkurhöfn, sem er um 10 km leið. Lokasundspretturinn verður frá Vestmannaeyjum til lands, alls um 13 km leið, um miðjan ágúst í sumar.

Kristinn er 35 ára sjúkraþjálfari og hefur stundað sjósund frá því 1998. Hann syndir í sjónum nær alla daga vikunnar yfir sumarmánuðina og þá helst í Nauthólsvík. Þá æfir hann sund með Sundfélagi Hafnarfjarðar. Hann segist aldrei hætta sér í sjósund nema bátur fylgi honum eftir. Menn úr Björgunarsveitinni í Hafnarfirði hafa fylgt honum eftir í sumar.

Hann segir það mikla áskorun við náttúruna að stunda sjósund. "Ég tek aldrei neina áhættu í þessu. Aðalmálið er að öryggið sé í lagi. Ég veit alveg hvað ég má ganga langt í þessu, enda er ég sjúkraþjálfari og þekki vel líkama minn," segir hann.