18. júlí 2002 | Viðskiptablað | 644 orð

Samsvörun við kreppuna á fjórða áratugnum

Bók frá árinu 1931 lýsir umbrotum sem vel gætu átt við þau sem einkenndu síðasta áratug

TÆKNIFRAMFARIR og almenn bjartsýni, almenningur kynnist nýjum notkunarmöguleikum í fjarskiptum; upplýsingastreymi margfaldast sem hefur áhrif á alla þjóðfélagsmyndina.
TÆKNIFRAMFARIR og almenn bjartsýni, almenningur kynnist nýjum notkunarmöguleikum í fjarskiptum; upplýsingastreymi margfaldast sem hefur áhrif á alla þjóðfélagsmyndina. Tækninýjungar skapa aukna framleiðni og tekjur, og ódýrari vörur auka kaupmátt fólks og einnig kaupgleði þess, sem leiðir til mikillar skuldsetningar sem björt framtíð á að glíma við. Síðast en ekki síst, í hringiðu tæknibyltingar og breyttrar þjóðfélagsmyndar hækkar gengi hlutabréfa, sérstaklega þeirra fyrirtækja sem eru fremst í flokki með að skapa þessa nýju tækni.

Þessi lýsing gæti vel átt við þau umbrot sem einkenndu síðasta áratug. Hér er hins vegar verið að vísa í frásögn Fredericks Lewis Allens úr bók hans Only Yesterday - An Informal History of the 1920's sem hann ritaði árið 1931, mitt í miðri kreppunni sem fylgdi í kjölfar hruns hlutabréfamarkaða árið 1929, sem átti reyndar eftir að verða enn verri. Það er sláandi fyrir lesendur í dag, sem hafa nýlega upplifað tæknibyltingu tölva, farsíma og veraldarvefjar, sem hafa valdið miklum breytingum í þjóðfélagsmynstri hins vestræna heims, að sjá samsvörunina í því sem Allen lýsir í bókinni. Hún fjallar í meginatriðum um þær breytingar sem bandarískt þjóðfélag gekk í gegnum á þriðja áratugnum. Allen lifði sjálfur þetta tímabil og skráði bókina skömmu eftir að atburðir áttu sér stað. Frásögnin er afar lifandi, og á tíðum svo ótrúleg, að hún líkist frekar góðum skáldskap en sögulegum staðreyndum.

Upphaf þessa tímabils skilgreinir Allen sem 11. nóvember árið 1918, daginn sem Þjóðverjar skrifuðu undir uppgjafarsamning í fyrri heimsstyrjöldinni. Fjöldi Bandaríkjamanna hafði barist á vígvellinum. Eftir að stríðinu lauk var algengt áhyggjuefni almennings að kommúnismi næði tökum í Evrópu og breiddist þaðan til Bandaríkjanna. Þegar þær áhyggjur dvínuðu fór þjóðfélagsumræðan smám saman að beinast frá hugsjónum og meira í átt að efnishyggju og frjálsræði. Í stríðinu fékk fjöldi ungra Bandaríkjamanna, af báðum kynjum, ekki aðeins aðra sýn á lífið við að lenda í hamförum sem fylgja stríðsrekstri, heldur einnig reynslu af lífi í Evrópu, sem líkist litlu af því lífi sem ríkti í bandarísku samfélagi. Slík reynsla endurspeglaðist smám saman í þjóðfélginu þegar það fólk sneri aftur. Réttur kvenna, sem fengu kosningarétt árið 1920, jókst mikið; nýtísku heimilistæki eins og þvottavélar, kæliskápar og ryksugur gerðu það að verkum að húsverkin urðu auðveldari og margar konur fóru því, í fyrsta sinn, á hinn almenna vinnumarkað. Bíllinn og lagning vega var einn drifkrafturinn í þessari miklu þjóðfélagsþróun. Fjöldi bíla í Bandaríkjunum meira en þrefaldaðist á tímabilinu og vegalagning í samræmi við það. Rétt eins og upphafleg kynning á Microsoft Windows 95-stýrikerfinu varð stórfrétt á sínum tíma voru nýjustu gerðir bíla eitt af helstu dægurmálum þess tíma. Samgöngur urðu auðveldari og vörudreifing jókst mikið. Það sem gerir þessa þróun athyglisverða er að hún spratt úr viðjum kreppu í Bandaríkjunum. Þar var hins vegar greiður aðgangur að miklum auðlindum í formi náttúrulegra afurða, vinnuafls og tækniþekkingar. Evrópa var í sárum eftir fyrri heimsstyrjöldina sem hjálpaði til við að gera Bandaríkin að efnahagslegum leiðtogum.

Árið 1921 hóf fyrsta útvarpsstöðin starfsemi, sem auglýsingamiðill fyrir vörur Westinghouse-raftækjaframleiðandans. Þessi bylting í upplýsingaflæði hafði líklegast meiri áhrif en veraldarvefurinn sjötíu árum síðar. Gengi hlutabréfa, sem voru lítt fréttnæm áður en útvarpsstöðvar hófu starfsemi, varð eitt af helstu umræðuefnunum, enda höfðu menn jafnari aðgang að upplýsingum um gengi bréfanna, ólíkt því sem áður var.

Bókin dregur saman hvernig ofangreindir þættir stuðluðu að gífurlegum hækkunum á gengi hlutabréfa, og lýsir með tilþrifum hvernig hápunkti var náð sem endaði með hruni verðbréfa í byrjun vetrar árið 1929. Verðfallið hélt hins vegar hægt og bítandi áfram næstu þrjú árin með miklu verri áhrifum, og lýsir bókin ósköpunum árin 1930 og 1931, sem héldu áfram árið eftir útgáfu bókarinnar. Bókin er auðlesin og er afar góð heimild um þessa umrótstíma, sem mótuðu að vissu leyti það nútímaþjóðfélag sem þykir sjálfsagt í dag. Hún er góð áminning um að nýliðin uppsveifla, og allar þær tækninýjungar sem fylgdu henni, er síður en svo einstök í mannkynssögunni; sagan virðist einfaldlega endurtaka sig.

mixa@sph.is

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.