21. júlí 2002 | Sunnudagsblað | 600 orð | 1 mynd

Sigurður Thoroddsen verkfræðingur

SIGURÐUR THORODDSEN, sjálfsmynd frá 1969.
SIGURÐUR THORODDSEN, sjálfsmynd frá 1969.
SIGURÐUR Thoroddsen verkfræðingur fæddist 24. júlí árið 1902 og hefði því orðið 100 ára á þessu ári.
SIGURÐUR Thoroddsen verkfræðingur fæddist 24. júlí árið 1902 og hefði því orðið 100 ára á þessu ári.

Sigurður fæddist á Bessastöðum á Álftanesi, en þangað höfðu foreldrar hans, Theódóra og Skúli, flutt frá Ísafirði þar sem Skúli var sýslumaður og kaupmaður. Skúli var þó kunnari fyrir þingmennsku og ritstjórn Þjóðviljans eldri.

Árið 1908 flutti fjölskyldan í Vonarstræti 12 í Reykjavík. Sigurður gekk í Landakotsskóla og síðar í Menntaskólann í Reykjavík. Þaðan útskrifaðist hann stúdent árið 1919, á sautjánda ári.

Eftir eins árs nám í heimspeki við Háskóla Íslands fór Sigurður til Kaupmannahafnar, las verkfræði og lauk prófi árið 1927.

Ekki var um auðugan garð að gresja í atvinnumálum verkfræðinga hér á landi þegar hann kom heim úr námi. Sigurður vann ýmis verk, gerði úttekt á hafnarstæðum á Norð-Austurlandi, vann við athuganir á virkjanamöguleikum og var starfsmaður Vitamálastofu í fjögur ár.

Hann stofnaði eigin verkfræðistofu vorið 1932, Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsen, sem var fyrsta verkfræðistofa landsins. Reksturinn fór rólega af stað, en frá stríðslokum óx hann hratt.

Sigurður var mikill áhugamaður um virkjanir og hannaði m.a. vatnsaflsvirkjanir á Eiðum og í Hallormsstað. Á norrænni ráðstefnu árið 1952 kynnti hann fyrstu yfirlitsáætlun sína um vatnsafl á Íslandi. Hann endurskoðaði þá áætlun árið 1962 og taldist svo til, að virkjanleg vatnsorka í meðal vatnsári næmi 35 þúsund GWh á ári.

Sósíalisti á þingi

Pólitíkin var Sigurði í blóð borin. Faðir hans og Þórður föðurbróðir hans sátu á þingi og systkini hans tvö, Skúli og Katrín, sátu um tíma á Alþingi og í borgarstjórn. Sigurður studdi Sósíalistaflokkinn og var kjörinn á þing fyrir flokkinn í Ísafjarðarkjördæmi árið 1942. Á þingi sat hann í fjögur ár og lét sig raforkumál mestu varða.

Sigurður Thoroddsen sat í raforkuráði, náttúruverndarráði, ráðgjafarnefnd í virkjunarmálum og útboðsnefnd. Þá sat hann um tíma í stjórn Landsvirkjunar og í raforkunefnd. Hann lét sig náttúruverndarmál miklu varða og ritaði grein í Tímarit verkfræðinga árið 1955 um mikilvægi náttúruverndar. Þar segir hann m.a. að verkfræðingum beri "beinlínis skylda til að sjá um að mannvirkjagerð sé svo af höndum leyst, að sem til minnstra lýta verði í landslagi, því ef svo verður, er gengið á rétt almennings, en heill hans á verkfræðingurinn að bera fyrir brjósti ..."

Málaði í frístundum

Sigurður Thoroddsen var frístundamálari og mun hafa fengið hvatningu frá Muggi frænda sínum, sem gat sér gott orð á myndlistarsviðinu. Sigurður lagði pensilinn á hilluna á árunum 1954-1967, vegna anna í verkfræðistörfum, en hóf að mála á ný og mest vatnslitamyndir. Árið 1972 hélt hann sýningu í Bogasal Þjóðminjasafnsins og seldi margar myndanna. Þá átti hann myndir á haustsýningum FÍM á árunum 1974-1977 og haldin var sýning á vatnslitaverkum hans á Kjarvalsstöðum árið 1977.

Hann var alla tíð virkur í félagsmálum, var m.a. hvatamaður að stofnun Félags íslenskra ráðgjafarverkfræðinga árið 1961 og formaður Verkfræðingafélags Íslands 1962-1964. Hann gerði verkfræðistofu sína að sameignarfélagi 5 manna árið 1962, lét sjálfur af framkvæmdastjórastarfi árið 1975 og seldi þá sinn hlut í stofunni.

Sigurður Thoroddsen lést í júlí 1983, nýorðinn 81 árs. Hann var tvíkvæntur og eignaðist átta börn.

Margfróður samkomumaður

Viðar Ólafsson, framkvæmdastjóri VST, segir að Sigurður hafi verið skemmtilegur maður og góður húsbóndi, minnisstæður öllum sem þekktu hann. Í minningargrein starfsfélaga Sigurðar um hann sagði m.a. að hann hefði verið gæddur stálminni og svo athugull hafi hann verið að fátt hafi farið fram hjá honum. "Hann hafði þann hátt á að setja vandamál í undirvitundina, og vitja lausna þegar á þurfti að halda. Hann var margfróður í náttúrufræðum, skógræktarmaður og umhverfisverndarsinni, þótt hið síðastnefnda vægist stundum á við virkjanafrumkvöðulinn. ... Sigurður var jafnan í ljúfu skapi og stundum leiftrandi fyndinn, en hann átti sér einkaorðfæri sem ekki hentar öðrum. Samkomumaður var hann góður og jafnan hrókur alls fagnaðar þar sem við átti."

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.