KRISTINN Magnússon, sundmaður úr Hafnarfirði, þreytti Drangeyjarsund á laugardag og tók land í Drangey eftir tveggja og hálfs tíma sund frá Reykjadiski.

KRISTINN Magnússon, sundmaður úr Hafnarfirði, þreytti Drangeyjarsund á laugardag og tók land í Drangey eftir tveggja og hálfs tíma sund frá Reykjadiski. Þetta er í annað skipti sem Kristinn þreytir Drangeyjarsund en árið 1998 synti hann til lands á 2 klst. og 10 mín.

Sjávarhiti að þessu sinni var 8° sem er það kaldasta sem Kristinn hefur synt í og þá var veður ekki mjög hagstætt. Af þessum sökum tafðist Kristinn á sundinu og má þess geta að hann synti án þess að bera á sig feiti. Páll Magnússon á Geisla SK 66 fylgdi Kristni eftir á sundinu en í bátnum geymdi Kristinn drykki sem hann lét kasta til sín á 20 mínútna fresti.

Sundleið Kristins að þessu sinni í beinni loftlínu var um 6,6 km. "Ég gerði ráð fyrir að vera miklu fljótari, en það kom rek og hliðaralda sem höfðu truflandi áhrif auk þess sem það voru miklir straumar í kringum eyna. Ég þurfti því að herða svolítið á mér þegar ég nálgaðist eyna," sagði Kristinn. Sundið hófst kl. 18.45 og tók Kristinn land um kl. 21.15. Landtakan gekk vel en Kristinn var mjög þreyttur eftir sundið og var brunninn á líkamanum eftir sjávarseltu og þarf líklega viku til að jafna sig. "Mér leið eins og vörubíl hefði verið ekið yfir mig," segir hann um líðan sína eftir landtökuna í eynni.

Drangeyjarsundið var fjórða þreksundið af sex sem Kristinn mun þreyta í sumar, en hann hefur lokið, auk Drangeyjarsunds, Engeyjarsundi, Viðeyjarsundi og Hvalfjarðarsundi. Eftir er Þingvallavatnssund og sund milli lands og Vestmannaeyja. Ef líkaminn leyfir mun hann bæta við sjöunda sundinu, frá Kjalarnesi til Reykjavíkur.