3. ágúst 2002 | Menningarblað/Lesbók | 2488 orð | 1 mynd

SAMÚÐ ER LYKILATRIÐI

Bandaríski sálgreinirinn Esther Menaker lærði fag sitt í Vín á fjórða áratugnum en hluti af náminu var meðferð hjá Önnu Freud, dóttur Sigmunds, föður sálgreiningarinnar. Hér segir Menaker frá kynnum sínum af þeim feðginum og ræðir um kenninguna sem hún hefur nú kennt og starfað eftir í um sjötíu ár.
UNDANFARIN fimm ár hef ég verið þeirrar gæfu aðnjótandi að leggja stund á nám í sálgreiningu í New York-borg. Á þessari vegferð kynntist ég mörgum áhugaverðum einstaklingum og einn sá eftirminnilegasti í þeim hópi var án efa einn leiðbeinenda minna á lokasprettinum í náminu, Esther Menaker. Esther er merkileg kona fyrir margra hluta sakir, hún var m.a. ein fyrsta bandaríska konan til að ljúka námi í sálgreiningu þar sem hún sat við fótskör brautryðjenda stefnunnar í Vínarborg á árunum 1930-1934. Hún var "á bekknum" hjá Önnu Freud, dóttir Sigmunds Freud, föður sálgreiningarinnar.

Esther hefur ritað fjölda greina og fyrirlestra og eftir hana liggja bækurnar Appointment in Vienna (1989), Otto Rank - A Rediscovered Legacy (1982), Seperation, Will and Creativity (1996) og The Freedom to Inquire (1995).

Hver ert þú?

Það var fallegt og bjart veður þegar ég steig út úr gulum leigubíl og gekk inn um dyrnar á húsi númer tuttugu við 77. stræti í New York. Ég hringdi bjöllu sem á stóð MENAKER og kunnugleg rödd svaraði sem endranær með merkingarþrunginni spurningu: "Hver ert þú?" Stuttu síðar var ég sestur inn í stofu Estherar með rjúkandi tebolla í hönd og heita eplaköku á diski.

Jæja Esther, eigum við ekki að byrja á stuttu yfirliti yfir lífshlaup þitt?

"Þú spyrð ekki um lítið, ungi maður - veistu hvað ég er gömul? Ég fæddist í bænum Bern í þýskumælandi hluta Sviss 6. september 1907. Foreldrar mínar voru miklir sósíalistar og það var m.a. ástæða þess að þau fluttu snemma til Þýskalands. Þegar ég var þriggja ára gömul tók fjölskyldan sig upp, fluttist til Bandaríkjanna og við settumst að í Michigan þar sem pabbi fékk vinnu sem efnafræðingur. Árið 1914 fluttumst við svo til Fíladelfíu þar sem ég ólst upp og bjó allt til ársins 1930 þegar ég giftist William Menaker, tannlækni í New York. William var búinn að fá nóg af tannlækningum og var búinn að loka stofu sinni þegar við tókum saman og farinn að vinna á meðferðarstofnun fyrir vandræðadrengi. Það var stutt í sálfræðiáhugann hjá okkur báðum svo við fórum saman til Vínar í júlí 1930 og hófum nám við Sálgreiningarstofnun Vínarborgar (Wienar Psycholanalytische Institute). Sem hluta af náminu fórum við sjálf í sálgreiningu og sálgreinir minn var Anna Freud en sálgreinir Williams var Helina Deuch. Þarna vorum við í fjögur ár eða allt til enda árs 1934 þegar við fórum aftur til Bandaríkjanna og opnuðum meðferðarstofu í New York. Árið 1956 varð ég fyrsti kennarinn í sálgreiningu við nýstofnaða deild, The Post-doctoral Psychoanalytical Institute við sálfræðideild New York University (NYU). Við eignuðumst tvo drengi sem nú eru á miðjum aldri og eftir að William dó árið 1972 hef ég búið og starfað sem sálgreinir hér í íbúð minni í New York."

Á valdi Önnu Freud

Hvernig fékkst þú áhuga á sálgreiningu?

"Ég fékk áhugann í gegnum manninn minn, og þó, þegar ég hugsa út í það þá vakti skólabróðir minn áhuga minn þegar hann lánaði mér bók Freuds um drauma. Ég hafði lagt stund á efnafræði við háskólann í Fíladelfíu en fékk eftir lestur bókarinnar brennandi áhuga á sálfræði á síðasta ári mínu við skólann. Áhuginn vaknaði því ég var forvitinn um mitt eigið líf og sálarþroska sjálfrar mín - þetta var aðalástæðan og líka næg ástæða."

Hvernig var fyrir bandarískan gyðing að fara til náms í Vín á þessum tíma?

"Það var hræðilegt! Vínarbúar voru snobbaðir og hrokafullir og stífar hefðir ríktu á öllum sviðum. Þeim líkaði alls ekki við Bandaríkjamenn og fannst við ómenntuð og óþroskuð, en þeim þótti hinsvegar alveg sjálfsagt að hafa gott af okkur. Bragur alls var alger andstæða þess sem ég hafði kynnst í Bandaríkjunum. Á háskólaárum mínum í Fíladelfíu fannst mér ég njóta virðingar og fólk hafði áhuga á því sem ég var að fást við. Í Vín fannst mér vera gert lítið úr mér, ekki síst í meðferð Önnu Freud."

Hvernig þá?

"Þetta hafði með sjálfa aðferð hennar að gera en eins og sálgreining var stunduð í þá daga þá varð maður að beygja sig algerlega fyrir valdi sálgreinisins. Ég fékk það á tilfinninguna að ég ætti að vera á valdi Önnu og að hún væri að fást við dulin veruleika í mér sem ég sjálf hefði ekkert vit á og bæri ekkert skynbragð á."

Var þetta ekki bara það sem sálgreinar myndu kalla ósjálfrátt viðnám eða tregðu af þinni hendi - að þú gæfist ekki meðferðinni?

"Það var nákvæmlega það sem það var kallað! En auðvitað getur maður ekki gefist annarri manneskju á þennan hátt. Það skiptir öllu máli að þetta sé rétt gert.

Sérfræðingur sem býður þjónustu sína - hvort sem það er sálfræðingur, læknir, kennari eða hvað annað - þarf að geta gert það án þess að setja þig niður og án þess að láta þig fá það á tilfinninguna að þú vitir ekkert.

Þetta var það sem var í gangi í Vín og ég upplifði það sem valdsmannslega drottnun Önnu og innrás inn í sálarlíf mitt. Það var lítil gagnkvæmni í vinnunni og meðferðin hafði ekki yfirbragð samstarfs tveggja aðila eins og þarf að vera."

Langar ekki aftur til Vínar en langar til Íslands

Hvernig persóna var Anna Freud?

"Ég get varla sagt að ég hafi kynnst Önnu Freud sem persónu. Eðli málsins samkvæmt þá kynnist maður þeim sálgreini sem maður vinnur með ekki náið persónulega. Sambandið helgast af meðferðinni og er ekki ætlað að stuðla að vináttutengslum. Ég man hinsvegar að Anna var alltaf vel til höfð, hún var frekar lokuð, vör um sig en þó miklu vinalegri en flestir Vínarbúar. Vínarbúar gátu verið yfirmáta vinalegir á yfirborðinu en undir niðri var alltaf stutt í eitthvað ógnandi."

Þú lýsir biturri reynslu. Var eitthvað jákvætt við að vera í námi í Vín?

"Já, þarna opnaðist mér heimur sálgreiningarinnar, þessi stórmerkilega kenning um fólk, mannlegt líf og menningu. Ég lærði líka þýsku og kynntist nýrri menningu. Þetta var hinsvegar ekki ánægjuleg reynsla, heldur erfið reynsla og kannski sérstaklega fyrir konu af gyðinglegum uppruna. Þegar við fórum frá Vín voru nasistarnir skammt undan og sem gyðingur fann ég stöðugt fyrir kulda í minn garð. Það var grunnt á því góða hjá Vínarbúum gagnvart gyðingum á þessum tíma og það segir sína sögu að mig hefur aldrei langað aftur til Vínar - mig langar hinsvegar mikið til Íslands!"

Freud var kurteis og viðfeldinn

Kynntist þú Sigmundi Freud sjálfum?

"Við hittumst stundum og þá heilsuðumst við. Ég hitti hann einkum á sumrin þegar ég sótti tíma til Önnu í sumarhúsi þeirra. Freud var þá vanur að fá sér göngutúra og ég sá hann stundum úti í garðinum við húsið. Hann var vinalegur, afskaplega kurteis og viðfelldinn maður en ég get varla sagt að ég hafi kynnst honum að neinu ráði. Ég var nemandi og ekki mjög framhleypin. Ég hafði hinsvegar mikinn áhuga á kenningum hans, mikilvægasta framlag þeirra var að sýna fram á að hugurinn sé ekki einsleitur heldur búi yfir meiru en aðeins því sem við erum meðvituð um."

Skilningur og samúð skiptir öllu í sálgreiningu

Hvaða eiginleikar einkenna góðan sálgreini?

"Í sálgreiningu skiptir hæfni og þekking öllu máli - veldur hver á heldur. Sálgreining er öflugt meðferðarform og sé henni misbeitt getur hún verkað neikvætt og eða alls ekki. Þekking og skilningur á eðli hugans og á gildrum og gjótum sálrænnar meðferðar er því alger forsenda árangurs. Í þessu efni er þekkingarbrunnur sálgreiningarinnar mikill fjársjóður. Þegar svo kemur að beitinu þessarar þekkingar þá skiptir skilningur og samúð öllu. Ef samúð og skilning skortir þá getur meðferðin unnið gegn því sem henni er ætlað. Drottnunargirnd, þekkingarhroki og skortur á skilningi eru erkifjendur sállækninga og reyndar allra lækninga. Þetta er nokkuð sem bandaríski sálgreinirinn Hanz Kohut lagði ríka áherslu á."

Er hægt að kenna samúð og skilning?

"Nei, ekki beint. En það má vissulega tileinka sér þessa eiginleika með samsömun, þ.e. að læra af þeim sem kunna listina að sýna öðru fólki djúpstæða samúð. Samúð er þó ekki það sem læknar í sálgreiningu heldur er hún tæki sem gerir sálgreiningu virka og hjálplega.

En þetta snertir líka trú. Ég var alinn upp sem guðlaus kommúnisti en upp á síðkastið hefur hugur minn í auknum mæli leitað á svið þess trúarlega.

Kannski ég sé eitthvað farin að eldast en ég held ekki að það sé ástæðan. Ég held nefnilega að lykilatriði í allri meðferð sé að sálgreinirinn láti á sér skiljast að honum sé annt um persónu og líf skjólstæðings síns. Og á dýpra plani snýst þetta um kærleika. Þetta kann að virðast væmið og án sálfræðilegs inntaks en er það alls ekki. Þetta er kjarni málsins og snertir í reynd trúmennsku þess sem annast meðferðina. Það er tilhneiging fræðanna að greina, mæla og setja skjólstæðinginn inn í kerfi og þá gleymist oft þetta lykilatriði sem er samúðin. Það er auðveldara að fela sig í skógi fræðanna en að koma út á bersvæðið til skjólstæðingsins. Ungverska sálgreinandanum Otto Rank var tíðrætt um að stuðningur við vilja skjólstæðingsins væri lykilatriði. Þetta merkir eins og ég skil það að styrkja hið einstaka í honum. Góð sálgreining metur gildi þess einstaka og alls þess sem er sérstakt og mikilvægt í persónunni."

Viljinn er virk tjáning á kjarna persónuleikans

Samkvæmt þessu, hvað er þá þessi vilji?

"Til að svara þessu leita ég aftur í smiðju Rank en hann skilgreindi viljann sem tjáningu lífsaflsins í persónunni. Spurningin hvaðan lífsaflið kemur er guðfræðileg spurning en við vitum öll við hvað er átt. Það er of takmarkandi að setja samasemmerki á milli viljans og líkamshvatanna eins og Freud gerði. Lífið og mannleg breytni felur í sér miklu meira en aðeins líffræðilegar hvatir. Tökum dæmi: Ég er að borða þessa góðu eplaköku. Ég borða hana vissulega af hvöt til að viðhalda mér og fylla kviðinn en í athöfninni felst líka meira. Ef þú gefur mér kökuna þá skapar það tengsl á milli mín og þín. Ef mér finnst kakan góð þá er það sértök og gefandi reynsla, o.s.frv. Að borða köku er því miklu meira en viðbragð við hungurtilfinningu eða lifun líffræðilegrar hvatar. Að borða köku er líkt og svo margt annað menningarathöfn sem við þurfum að leggja rækt við og það er viljinn til þess sem gefur lífi okkar gildi."

Ertu ekki að snúa út úr, er ekki viljinn sálræn hvöt til athafna?

"Vissulega getur viljinn birst í hvatvísi en hann er ekki hvöt í sjálfu sér. Viljinn er virk tjáning á kjarna persónuleikans hvort sem er í hugsun eða athöfn. Hann getur stundum verið örvaður af ómeðvituðum hvötum en þegar viljinn gefur sig til kynna þá er hann er alltaf meðvitaður. Sálgreining snýst um að styðja skjólstæðinginn í að gangast við vilja sínum og fara eftir honum."

Sjálfspíslahvöt: Að gefa upp hluta af sjálfum sér

Þú hefur skrifað mikið um sjálfspíslahvöt (masókisma). Hver er í meginatriðum kenning þín?

"Hugmynd mín um það sem ég nefni tilfinningalega sjálfspíslahvöt er sú að hún byggi í reynd á eiginleika einstaklingsins til að gefa upp hluta af sjálfum sér og vilja sínum. Þegar um sjálfspíslahvöt er að ræða gerir einstaklingurinn þetta til að forðast aðskilnað frá þeim eða því sem hann elskar. Löngun, þrám og þörfum er fórnað til að mæta þörfum annarrar manneskju. Hugsun og tilfinningu er fórnað til að forðast aðskilnað. Þetta sjáum við í ástarsamböndum þar sem fólk er tilbúið til að undirgangast miklar píslir og þjáningar í stað þess að missa. Slík sjálfspíslahvöt brýtur persónu einstaklingsins niður því hann/hún fórnar sér aðeins til þess að verða ekki yfirgefin(n). Sjálfspíningarhvöt þess sem meiðir sig líkamlega er þessu skyld, en er róttækara form þar sem bæld reiði, niðurlæging eða kynórar fá lausan tauminn og beinist gegn einstaklingnum sjálfum, oft með mjög alvarlegum afleiðingum."

Nauðsyn að viðurkenna kynlíf sem góðan og eðlilegan hluta lífsins

Þú nefndir áðan trú. Hvernig sérðu tengsl trúar og sálgreiningar?

"Ef við skoðum þau í ljósi viljans má þá ekki segja að þegar hlutirnir eru eins góðir og þeir geta best orðið að þá ráði vilji Guðs. Er það ekki þetta sem er tjáð með táknrænum hætti með því að tala um "á himni", eða segjum við ekki "verði þinn vilji, tilkomi þitt ríki, svo á jörðu sem á himni". Að gefa eftir vilja sinn og gefast vilja Guðs er því sálfræðilega merkileg hugmynd og nokkuð sem getur verið mjög skapandi og jákvætt - en getur líka fengið á sig mynd sjálfspíningar. Til dæmis veldur skírlífiskrafa kaþólsku kirkjunnar vanda og mikilli þjáningu. Það er kominn tími til fyrir kirkjuna að vaxa úr grasi og fullorðnast hvað þetta varðar. Þessar skírlífishugmyndir eru óraunhæfar og skila engu. Afstaða kirkjunnar gagnvart konum, hjónaskilnaði, samkynhneigð og fóstureyðingu þurfa líka að breytast. Það er nauðsyn að viðurkenna kynlíf sem góðan og eðlilegan hluta mannlegs lífs.

Þótt það sé í reynd forvitnilegt að velta því fyrir sér hvers vegna fólk hefur tilhneigingu til að óttast kynhvöt sína og bæla hana, þá hlýtur kirkjan að vera kölluð til að viðurkenna eðli lífsins í stað þess að dæma það sem óeðli. Það er kominn tími til að lyfta þessari bælingu af trúuðu fólki.

Öfgarnar í hina áttina er ekki bæling heldur bæling samtímans en hún felst í að allt er sýnt og afhjúpað og við venjulegt fólk neyðumst stöðugt til að vera með nefið á kafi í einkalífi annars fólks. Ég er þreytt á þessu og er alveg hissa á því hvað fjölmiðlum tekst að tutla þennan spena sem er þegar upp er staðið afskaplega lítið gefandi."

Ræðum dauðann

Þú starfar enn sem sálgreinir, ert með nýja bók í handriti, hefur áhuga á að skrifa aðra og heldur háskólafyrirlestra vítt og breytt um Bandaríkin í gengum síma og sjónvarp. Hvernig sérðu framtíðina fyrir þér?

"Ég veit ekki hversu mikla framtíð ég á fyrir mér og það er erfitt að spá í ókomna tíð. En á meðan ég get gert það sem mér finnst skemmtilegt, gefandi og nytsamlegt þá mun ég halda áfram að gera það.

Þar sem ég er orðin gömul kona hugsa ég bæði um það að deyja og um dauðann sjálfan. Ég man að móðir mín vildi aldrei ræða dauðann og ég held að hún hafi haldið að það mætti forðast hann með því að tala ekki um hann. Þetta er dapurleg hugmynd sem ég get alls ekki fallist á. Líklega erum við ein af fáum tegundum jarðar sem veit með vissu að hún muni deyja. Þetta skapar vandræði. Við óttumst dauðann, ræðum hann ekki og erum því ekki aðeins úr tengslum við hann heldur og um leið úr tengslum við lífið sjálft. Þetta er ekki aðeins röng afstaða heldur er hún hvorki heilsusamleg né gagnleg.

Umræða um dauðann og þær tilfinningar sem hann vekur með okkur er ekki aðeins gagnleg heldur er hún líka bráðskemmtileg. Við skulum ræða það betur á eftir. Eigum við ekki að hætta þessu viðtali og fá okkur meira te? Meðal annarra orða hvar kaupir þú svona tölvu? Nú verð ég að eignast tölvu!"

Ég þáði teið og ræddi við Esther fram eftir degi, allt til þess tíma að ég slökkti á tölvunni, kvaddi vinkonu mína með þökkum, steig upp í leigubíl og tók stefnuna á Kennedyflugvöll. Viljinn dró mig heim til ævintýraeyjunnar í norðri.

EFTIR HAUK INGA JÓNASSON

Höfundur er sálgreinir.

Fletta í leitarniðurstöðum

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.