Ralf Weißleder vinnur í ljósmyndum sínum með form í náttúru og borgarumhverfi.
Ralf Weißleder vinnur í ljósmyndum sínum með form í náttúru og borgarumhverfi.
Í Galleríi Gangi, heimagalleríi Helga Þorgils Friðjónssonar á Rekagranda 8, hefur þýski listamaðurinn Ralf Weißleder sett upp ljósmyndaverk.

Í Galleríi Gangi, heimagalleríi Helga Þorgils Friðjónssonar á Rekagranda 8, hefur þýski listamaðurinn Ralf Weißleder sett upp ljósmyndaverk. Þetta eru myndraðir þar sem unnið er með form í náttúru og umhverfi; lög af formum sem verða til innan myndrammans eða milli mynda sem hann raðar saman. Eitt verkið er þannig gert af fjórum ljósmyndum þar sem horft er á fólk bakvið laufskrúð; í myndröðinni verður til einhvers konar frásögn, óljós að vísu, og í öðru verki eru felldir saman nokkrir sjóndeildarhringir. Það verk endar í raun úti á leikskólanum Gullborg, sem sést fyrir utan glugga íbúðarinnar, en þar blaktir á flaggstöng fáni með grasi og himni og sjóndeildarhringurinn sker myndina í tvennt.

Weißleder var skólabróðir Önnu Guðjónsdóttur myndlistarkonu í Hamborg, hann hefur sýnt í galleríi sem hún rekur og í tvígang hefur hann tekið þátt í samsýningum með Kristni G. Harðarsyni. Það var Kristinn sem sagði honum frá Ganginum og nú er hann kominn hingað til að sýna.

"Ég vinn mikið með fundnar myndir," segir Weißleder, "myndir sem ég ýmist klippi út úr tímaritum, bókum eða kaupi hjá skransölum. Þannig er ég nú með hálfgert veggfóðursverk á sýningu úti, stórt samklipp gert úr ljósmyndum þar sem mest ber á myndum af konu sem ég keypti á fornsölu. Þetta er eldri kona, sem ég veit ekkert hver var, en þarna eru tugir mynda af henni við vötn. Og svo nota ég ýmiss konar myndefni af vatni og konum; konum að stíga uppúr vatni og þessháttar. Slík verk mín eru að hluta rannsókn og einnig um tungumál ljósmynda."

Stundum blandar Weißleder saman myndum sem hann tekur sjálfur og fundnum myndum, og stundum býr hann til hluti. Svo sýnir hann bara ljósmyndir sem hann tekur sjálfur og svo er um þessa sýningu í Ganginum. "Þetta er í raun hrein könnun á formum í efni sem ég hef ekki búið til sjálfur. Formið er mér mjög mikilvægt og hér vinn ég til dæmis með hluti eins og sjóndeildarhringinn, sem er eitt af því sem skilgreinir hugtakið landslag." Hann gengur mikið og er þá með myndavélina; tekur myndir af landslagi og í borginni; í sumum verkanna skarast byggingar og sterkar línur brjóta upp myndflötinn.

Ljósmyndalistin hefur síðustu áratugi verið mjög áberandi í Þýskalandi og Weißleder segir ljósmyndamiðilinn enn vera þann sterkasta í þýskri myndlist. "Ef maður fer inn í listaháskóla þá er ljósmyndin alstaðar og margir að vinna með ljósmyndaútprent úr tölvum. Í dag erum við að horfa á fagleg barnabörn Beckers-hjónanna koma út í listalífið; nemar þeirra, eins og Thomas Struth, eru sjálfir orðnir prófessorar og farnir að taka nemendur. Ungir ljósmyndarar eru mikið undir áhrifum frá Tilmans og Nan Goldin; Martin Parr virðist einnig hafa áhrif á stóran hóp. Ég reyni hinsvegar bara að halda áfram með mína hluti, beiti gamaldags aðferðum við að setja myndirnar saman og læt framkalla þetta fyrir mig í framköllunarstofunni á horninu."