ÁHUGI Íslendinga á gönguferðum um landið hefur aukist gífurlega á síðustu árum. Framkvæmdastjórar stærstu ferðafélaganna eru sammála um það og segja jafnframt að framboð á ferðum sé fjölbreyttara nú en var fyrir nokkrum árum.

ÁHUGI Íslendinga á gönguferðum um landið hefur aukist gífurlega á síðustu árum. Framkvæmdastjórar stærstu ferðafélaganna eru sammála um það og segja jafnframt að framboð á ferðum sé fjölbreyttara nú en var fyrir nokkrum árum.

"Við höfum greinilega fundið fyrir aukningu síðustu árin. Þetta sveiflast alltaf á milli ára en á síðustu 5-8 árum hefur áhuginn stigmagnast," segir Inga Rósa Þórðardóttir, framkvæmdastjóri Ferðafélags Íslands. Hún segir að hópur gönguáhugamanna hafi stækkað, auk þess sem samsetning hans sé orðin fjölbreyttari, aldursbil breiðara og fólk sækist eftir meiri þjónustu en fyrr.

"Þannig að við flytjum gjarnan farangur með bíl og höfum jafnvel fullt fæði innifalið í ferðunum. Þetta er vel séð og hefur fengið góðar undirtektir," segir Inga Rósa.

Að sögn hennar er boðið upp á allt frá kvöldferðum til lengri ferða. Hún segir að ferðirnar séu léttar gönguferðir jafnt sem krefjandi. Hún leggur áherslu á að kvöldferðirnar séu þriggja tíma ferðir í nágrenni Reykjavíkur og nefnir Helgafell, Hellisheiði og Reykjanes sem dæmi. "Í svona ferðum eru um 30-50 manns en í flestum öðrum ferðum er miðað við 20-25 manns," bætir Inga Rósa við.

Aðspurð um útbúnað fólks segir hún hann allt annan en áður var og fólki þyki sjálfsagt að eiga allt sem til þarf. Hún segir að Landmannalaugar séu alltaf vinsælasti áfangastaðurinn en einnig sé Laugavegurinn mjög vinsæll. Þá njóti óvenjulegri staðir á borð við Lónsöræfi og Víknaslóðir við Borgarfjörð eystra sífellt meiri vinsælda.

Hallgrímur Kristinsson, framkvæmdastjóri Ferðafélagsins Útivistar, segir að það hafi orðið samfelld aukning í ferðum þeirra síðustu ár. Hann segir skýringarnar eflaust margþættar og nefnir sem dæmi almennan áhuga fólks á hollri hreyfingu.

"Önnur ástæða er sú að uppstilling ferða hefur þróast. Við erum til dæmis farin að bjóða upp á ferðir fyrir jeppafólk, þar sem jafnframt er gengið. En umfram allt held ég að 3-5 daga gönguferðir með trússi, þar sem gist er í skálum, hafi skilað mestu. Slíkar ferðir eru langvinsælastar hjá okkur," segir hann.

Ekki æskilegt að ung börn séu með í för

Þegar hann er inntur eftir hvaða ferðir séu vinsælastar nefnir hann Sveinstind - Skælinga. Þá er gengið frá Sveinstindi yfir Langasjó til vesturs og endað í Hólaskjóli. "Þetta er ferð sem við byrjuðum á fyrir nokkrum árum og í dag hefur hún vaxið svo mikið að hún er orðin vinsælli en Laugavegur, sem var alltaf vinsælasta ferðin. Við vorum með 15 slíkar ferðir í sumar og í hverri ferð eru 20 manns hámark," bætir hann við.

Aðspurður um samsetningu ferðahópanna segir hann fólk vera á öllum aldri. Mikið beri á fyrirtækjum, saumaklúbbum og vinahópum, jafnt sem einstaklingum.

Hann segir að það hafi færst í vöxt að fólk taki börnin með í ferðirnar en bendir jafnframt á að það séu takmörk fyrir því hvaða ferðir börn geti farið og ekki sé mælt með að börn yngri en 12 ára séu höfð með í för.

Bylting í útbúnaði eftir að flís varð almenningseign

Hallgrímur er sammála Ingu Rósu og segir að útbúnaður fólks sé mun betri nú en fyrir nokkrum árum. Hann segir að bylting hafi sérstaklega orðið eftir að flís varð almenningseign.

"Trússferðirnar auðvelda fólki sem ekki á allan útbúnað að ferðast. Þegar allt þarf að vera í bakpokanum þarf maður að hafa minnsta prímusinn á markaðnum og svefnpokinn má ekki taka neitt pláss. Í trússferðunum skiptir ekki máli þótt svefnpokinn sé stór og fötin þurfa ekki að vera það fínasta, því ef fólk blotnar er alltaf hægt að hafa aukaflík með. Fólk þarf því ekki að eiga nýjustu græjur," segir hann.

Sjö tinda ganga

Til marks um aukinn gönguáhuga landsmanna hafa starfsmannafélög tekið sig til og skipulagt gönguferðir fyrir vinnustaðina og dæmi um það er að starfsmenn Tilraunastöðvar Háskóla Íslands í meinafræði á Keldum hófu sjö tinda göngu í sumar. Að sögn Snorra Páls Davíðssonar, formanns starfsmannafélagsins, hófst gönguátakið í fyrra og þar sem mikið sé af göngufólki á vinnustaðnum sé hann sannfærður um að framhald verði á gönguferðum hjá þeim.