Innrás í Írak yfirvofandi?
MARGT bendir til að innrás Bandaríkjamanna sé yfirvofandi, ef ekki á þessu ári þá á því næsta. Saddam Hussein, forseti Íraks, varaði Bandaríkjastjórn hins vegar við því á fimmtudag að innrás í Írak myndi mistakast og leiða til mikils mannfalls meðal bandarískra hermanna.Fullyrt var í bandarískum fjölmiðlum að Hussein hefði nýlega sagt íröskum embættismönnum að hann hygðist verjast hugsanlegri innrás Bandaríkjahers með því að safna hersveitum sínum saman í stærstu borgum Íraks til að mannfallið meðal óbreyttra borgara og bandarískra hermanna yrði sem mest. Ekki er hins vegar vitað hversu reiðubúnir óbreyttir borgarar í Írak eru reiðubúnir til að deyja fyrir Saddam og í Washington var haft eftir Sharif Ali bin Al-Hussein, einum helsta leiðtoga stjórnarandstöðunnar í Írak, að bæði hermenn og óbreyttir borgarar biðu þess eins, að Saddam væri steypt af stóli.
Á Vesturlöndum eru alls ekki allir á eitt sáttir um fyrirætlan Bandaríkjastjórnar og m.a. sagði Kofi Annan, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, á mánudag að það væri "óráðlegt" að gera árás á Írak í ljósi "núverandi aðstæðna" í Mið-Austurlöndum.