Innrás í Írak yfirvofandi? MARGT bendir til að innrás Bandaríkjamanna sé yfirvofandi, ef ekki á þessu ári þá á því næsta.

Innrás í Írak yfirvofandi?

MARGT bendir til að innrás Bandaríkjamanna sé yfirvofandi, ef ekki á þessu ári þá á því næsta. Saddam Hussein, forseti Íraks, varaði Bandaríkjastjórn hins vegar við því á fimmtudag að innrás í Írak myndi mistakast og leiða til mikils mannfalls meðal bandarískra hermanna.

Fullyrt var í bandarískum fjölmiðlum að Hussein hefði nýlega sagt íröskum embættismönnum að hann hygðist verjast hugsanlegri innrás Bandaríkjahers með því að safna hersveitum sínum saman í stærstu borgum Íraks til að mannfallið meðal óbreyttra borgara og bandarískra hermanna yrði sem mest. Ekki er hins vegar vitað hversu reiðubúnir óbreyttir borgarar í Írak eru reiðubúnir til að deyja fyrir Saddam og í Washington var haft eftir Sharif Ali bin Al-Hussein, einum helsta leiðtoga stjórnarandstöðunnar í Írak, að bæði hermenn og óbreyttir borgarar biðu þess eins, að Saddam væri steypt af stóli.

Á Vesturlöndum eru alls ekki allir á eitt sáttir um fyrirætlan Bandaríkjastjórnar og m.a. sagði Kofi Annan, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, á mánudag að það væri "óráðlegt" að gera árás á Írak í ljósi "núverandi aðstæðna" í Mið-Austurlöndum.

21 fórst í Kólumbíu

TUTTUGU og einn maður fórst og sjötíu særðust er sprengjur sprungu við forsetahöllina í Bogota, höfuðborg Kólumbíu, á miðvikudag einmitt er Alvaro Uribe var þar innandyra að sverja embættiseið sem næsti forseti landsins. Talið er öruggt að skæruliðar úr marxíska byltingarhernum (FARC) hafi staðið fyrir ódæðinu en Uribe hefur heitið því að taka harkalega á skæruliðunum, sem berjast gegn stjórnvöldum í Kólumbíu. Það mun reynast þrautin þyngri en borgarastríðið í landinu hefur mjög færst í aukana undanfarnar vikur.