*UMBOÐSMAÐUR Alþingis hefur í nýlegu áliti gagnrýnt stjórnsýslu samgönguráðuneytisins.

*UMBOÐSMAÐUR Alþingis hefur í nýlegu áliti gagnrýnt stjórnsýslu samgönguráðuneytisins. Átelur umboðsmaður ráðuneytið fyrir drátt sem varð á svari við fyrirspurnum hans, en svarbréf frá ráðuneytinu barst umboðsmanni rúmu ári eftir að fyrirspurn var send ráðherra. Ítrekar umboðsmaður tilmæli úr fyrri álitum sem vörðuðu ráðuneytið og hyggst vekja athygli Alþingis á þessu. Í frétt frá ráðuneytinu segir að gerðar hafi verið ráðstafanir til þess að tryggja skjótari afgreiðslu en orðið hefur í þeim tveimur málum tengdum samgönguráðuneytinu sem umboðsmaður hefur fjallað um nýverið.

*LÖGREGLAN í Vestmannaeyjum hefur aldrei lagt hald á jafnmikið magn af fíkniefnum og um liðna verslunarmannahelgi. Lagði hún m.a. hald á um 120 grömm af amfetamíni, 40 grömm af kókaíni og 30 e-töflur.

*RÁÐAST á í haust í bólusetningu á um 70 þúsund börnum og unglingum fyrir heilahimnubólgu af C-stofni. Bólusetja á ungbörn á fyrsta ári og allt upp í 18 ára unglinga.

*Á RÚMUM mánuði í sumar hafa sautján konur leitað til Neyðarmóttökunnar vegna kynferðislegs ofbeldis. Fimm komu fram eftir verslunarmannahelgi.