Boris Spassky við skákborðið sem var sérhannað og smíðað fyrir einvígið af Gunnari Magnússyni.
Boris Spassky við skákborðið sem var sérhannað og smíðað fyrir einvígið af Gunnari Magnússyni.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
"ALLTAF þegar ég kem til Íslands líður mér vel. Mér finnst gott að heimsækja Ísland," sagði Boris Spassky, fyrrverandi heimsmeistari í skák, á blaðamannafundi í Þjóðmenningarhúsinu í gær, laugardag.

"ALLTAF þegar ég kem til Íslands líður mér vel. Mér finnst gott að heimsækja Ísland," sagði Boris Spassky, fyrrverandi heimsmeistari í skák, á blaðamannafundi í Þjóðmenningarhúsinu í gær, laugardag. Spassky er hingað kominn til að taka þátt í málþingi Skáksambands Íslands, sem haldið er í tilefni þess að 30 ár eru liðin síðan "skákeinvígi aldarinnar" milli Boris Spasskys og Bobbys Fischers var haldið á sviði Laugardalshallarinnar í Reykjavík.

Spassky var afslappaður og glaður á blaðamannafundinum í gær og svaraði spurningum blaðamanna fúslega. Á fundinum voru einnig eiginkona hans, Marina Spassky, Lothar Schmid, sem var yfirdómari í einvíginu í Reykjavík, Hrannar B. Arnarsson, forseti Skáksambands Íslands, og Guðmundur G. Þórarinsson, sem var forseti Skáksambandsins þegar einvígið fór fram.

Spassky byrjar á því að segja nokkur orð um Ísland og dregur síðan upp ljósrit af skopmynd, sem Sigmund teiknaði meðan á einvíginu stóð og birt var í Morgunblaðinu á sínum tíma. "Þetta var besta skopmyndin," segir Spassky, "og textinn er bestur. Þar biður Bobby mig að koma að leika með leikföngunum en ég segist ekki geta leikið mér því ég sé með kvef." Spassky hlær og sýnir blaðamönnum myndina.

Þegar Spassky er spurður hvernig hann hugsi um einvígið við Fischer segir hann: "Ég reyni að hugsa ekki um það." Hann bætir því við að hann sé þó ekki eins tilfinningasamur nú og hann var fyrir þrjátíu árum. "Þá var ég mjög tilfinningaríkur," segir hann. "Nú er ég hins vegar ágætis vinur Bobbys. Ég ber ekki neinar neikvæðar tilfinningar í hans garð."

Þegar einvígi þeirra Spasskys og Fischers fór fram var kalda stríðið í algleymingi. Spassky er spurður hvort hann hafi litið á einvígið sem keppni á milli Sovétríkjanna og Bandaríkjanna. "Nei," segir hann, "ég leit á sjálfan mig sem heimsmeistara og hugsaði eingöngu um mín persónulegu hagsmunamál. Ég leit á sjálfan mig sem konung skákarinnar. Þeir eru alltaf einir, enginn hjálpar þeim."

Spassky segir mikilvægt að hafa í huga að verstu árin í lífi hans hafi verið þau ár sem hann var heimsmeistari. "Ég bar mikla ábyrgð sem heimsmeistari en enginn hjálpaði mér." Hann tekur fram að hann hafi ekki verið í neinum tengslum við hið pólitíska valdakerfi í Sovétríkjunum. "Ég var ekki kommúnisti," segir hann og leggur áherslu á að honum hafi ekki samið vel við yfirvöld í landinu. "En að sjálfsögðu hafði ég mikinn áhuga á því að heyja einvígi við Bobby. Þar skipti líka máli að verðlaunaféð var mjög hátt."

Spassky segir að árið 1971 hafi taugakerfi hans farið að veikjast: "Það byrjaði ekki á að hrynja," útskýrir hann, "heldur þjást." Síðan segir hann: "Ef maður hefur ekki sterkt taugakerfi í íþróttum tapar maður." Spassky segir að hann hafi undirbúið einvígið við Fischer í marga mánuði. Hann hafi því, þegar á hólminn var komið, verið í góðu líkamlegu ásigkomulagi. "Svo það var engin ástæða til að kvarta. Ég var bjartsýnn." Hann segir þó að samskiptin við Fischer hafi haft mikil áhrif á sig dagana fyrir einvígið. Sérstaklega hefði það haft áhrif á sig að Fischer skyldi ekki mæta á opnunarhátíð sem haldin var fyrir einvígið, en þar hefðu margir mætt, m.a. þáverandi forseti Íslands. "Það var vel staðið að öllu, en Bobby... hann var sofandi einhvers staðar."

Hefur samband við Fischer

Spassky tapaði einvíginu við Fischer og varð sá síðarnefndi þar með fyrsti heimsmeistarinn í skák utan Sovétríkjanna frá stríðslokum. Þegar Spassky er spurður hvaða áhrif einvígið hafi haft á hann persónulega segist hann hafa orðið mjög ánægður. Skyndilega hafi hann orðið laus við allan þann "farangur", eins og hann orðar það, sem fylgdi heimsmeistaratitlinum. "Ég var gjörsamlega tómur innan í mér," segir hann og bætir því við að auðvitað hafi úrslitin haft sínar jákvæðu og neikvæðu hliðar. Hann lýsir því m.a. að seinna hafi hann orðið þunglyndur. "Eftir einvígið bönnuðu yfirvöld í Moskvu mér að taka þátt í alþjóðlegri keppni í níu mánuði," segir hann. "Þessir níu mánuðir voru erfiður tími." Hann segist þrátt fyrir allt hafa fengið mikla orku í einvíginu á Íslandi; hann hafi viljað keppa í skák á alþjóðlegum vettvangi en það hafi hann ekki fengið að gera um tíma, eins og áður sagði. En hefur hann enn samband við Fischer? "Já, ég er í netsambandi við hann," segir Spassky að lokum.