[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
ÞEGAR maður fær sér að borða setur maður matinn upp í munn. Þegar maður fer að sofa þá lokar maður augunum. Þegar maður fer í sturtu þá fer maður úr fötunum. Eða hvað?

ÞEGAR maður fær sér að borða setur maður matinn upp í munn. Þegar maður fer að sofa þá lokar maður augunum. Þegar maður fer í sturtu þá fer maður úr fötunum. Eða hvað?

Ég hef komist að því á ferðum mínum til Bandaríkjanna, að það eru ekki allir sem fara naktir í sturtu. Réttara sagt fer enginn úr öllu í kvennaklefanum í sundlaugum (mér er sagt að reyndar gildi annað í karlaklefanum). Bandarískar konur fækka ekki fötum fyrir framan hverja aðra, nekt þykir af einhverjum ástæðum ósæmileg. Þrátt fyrir að ég hafi vitað þetta, en ég bjó í Bandaríkjunum sem barn, þá var ég eiginlega búin að gleyma þessu þegar ég fór fyrst í sund í Kaliforníu í vetur. Þá var ég með sundbolinn í poka hjá handklæðinu, sjampóinu og því, og klæddi mig úr fötunum eins og maður gerir áður en maður fer í sturtu til að þvo sér áður en maður fer ofan í sundlaug með fullt af öðru fólki. Ég gekk af stað í átt að sturtunni og allt í einu fór mér að líða heldur óþægilega. Ég fann hvernig horft var á mig, eða réttara sagt - ekki horft á mig, og gerði mér allt í einu grein fyrir því hvað ég hafði gert. Mér leið eins og ég stæði allsber á miðjum Laugaveginum og hljóp inn á klósett þar sem ég fór í sundbolinn. Beið aðeins áður en ég fór inn í sturtuklefann. Þvoði mér eins vel og aðstæður buðu upp á og fór svo ofan í laugina.

Ég hætti fljótlega að fara í sund. Það gerðist þegar ég áttaði mig á því að auk þessa sérstaka siðs að baða sig í sundfötum, þá baða konurnar sig hreint alls ekki áður en þær fara ofan í laugina (mér er sagt að þetta sé líka svona í karlaklefanum). Þær mæta í sund í sundbolnum innan undir fötunum, fara úr fötunum og beint ofan í laug. Þetta gerist líka síðdegis eftir langan og sveittan vinnudag - þá vippa þær sér úr dröktunum, í ljós kemur sundbolurinn og þær skella sér beint ofan í laug. Svo koma þær upp úr og þá fara þær í sturtu, í sundbolunum að sjálfsögðu, en ég hef ekki alveg náð að átta mig á því hvernig þær koma sér úr honum og í fötin þannig að enginn sjái. Ég var mjög reið út í þetta fyrirkomulag þarna í vetur. Ég elska sund, vil helst fara daglega, en mér var fyrirmunað að svamla um þegar ég hugsaði um allan óþrifnaðinn. Ég hugsaði með mér að þetta væri enn ein birtingarmynd einstaklingshyggjunnar í Bandaríkjunum. Maður fer nefnilega í sturtu áður en maður fer ofan í af tillitssemi við aðra, maður fer í sturtu eftir að maður kemur upp úr af tillitssemi við sjálfan sig.

En svo er spéhræðslan allt önnur saga. Hvað var málið með hana? Nekt er af einhverjum ástæðum alveg gríðarlega viðkvæmt mál í Bandaríkjunum. Börn sjá foreldra sína ekki nakta (hvorki móður né föður) eftir að þau fá vit og foreldrar sjá börn sín ekki ber eftir að þau fara að klæða sig sjálf. Þannig alast Bandaríkjamenn ekki upp við að sjá annað fólk bert. Aftur á móti brýst strípalings-hneigðin fram í ýktri mynd öðru hvoru þegar einn og einn ,,brjálæðingur" hleypur allsber yfir íþróttavöll og þegar hópar ,,öfga-frjálslyndra" (ekki óalgengir í Kaliforníu) fara svokallaðar ,,nektargöngur" þar sem þeir spranga berir um götur og ,,hneyksla" meðborgara sína.

Mér skilst að Bretar séu líka ansi viðkvæmir fyrir nekt. Þegar ég var í menntaskóla og fór með kór skólans á kóramót í Danmörku, þar sem gist var í stórri ráðstefnumiðstöð og notast við sameiginlegar (kynjaskiptar) sturtur, kynntumst við breskum kór. Þar voru krakkar á svipuðum aldri og við og af einhverjum ástæðum líkaði stelpunum í þeim kór ekki alls kostar við stelpurnar í okkar kór. Á einhverju stigi málsins heyrðist til nokkurra þeirra þar sem þær voru að baktala okkur við stelpur í enn öðrum kór: ,,Þær eru algjörar hórur! Þær fara allsberar í sturtu!" Það þarf kannski ekki að taka fram að þær bresku klæddust sundbolum í sturtu, þó að næsta sundlaug væri í margra kílómetra fjarlægð.

Þá er ótalin sú staðreynd að bandaríska kvikmyndaeftirlitið fer mun vægari höndum um gróft og viðbjóðslegt ofbeldi en ber brjóst, rass eða kynfæri, jafnvel þótt ekkert kynferðislegt komi við sögu. Ég sá 101 Reykjavík á kvikmyndahátíð í Fíladelfíu í fyrravor. Það var ansi gaman að sjá myndina með bandarískum áhorfendum því þeir hlógu á allt öðrum stöðum en íslenskir áhorfendur. Þá var athyglisvert að verða vitni að viðbrögðum áhorfenda við atriði þar sem aðalpersónan, Hlynur Björn, stígur upp úr baðkari heima hjá sér. Áhorfendum til mikillar furðu hafði maðurinn verið allsber í baðinu og þessar einar til tvær sekúndur sem liðu áður en nekt hans var hulin fór taugaveiklunarhlátur/vein um salinn, fólk vissi hreinlega ekki hvernig það átti að vera og ég er ekki frá því að hitastigið í húsinu hafi hækkað um eins og eina gráðu svona rétt á meðan. Sjálf kippti ég mér ekkert upp við þetta. En það er ekkert að marka, ég er svo mikill dóni - ég fer jú allsber í sturtu.

bab@mbl.is