Háalda við Landmannalaugar.  Laugahraun í forgrunni.
Háalda við Landmannalaugar. Laugahraun í forgrunni.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Landmannalaugar eru þekktasti staðurinn á Fjallabaksleið nyrðri. Leifur Þorsteinsson kann skil á helstu gönguleiðum frá skála FÍ í Landmannalaugum.

FJALLABAKSVEGUR nyrðri eða Landmannaleið liggur á milli efstu byggðar í Landsveit og Skaftártungu fyrir norðan Heklu og Torfajökul. Pálmi Hannesson segir í árbók Ferðafélags Íslands (FÍ) 1933 "En á þessari leið skiptir um útsýni æ og æ og mörg þeirra eru svo fögur, svo lífauðug og stílhrein, að af ber flestu því sem til er hér á landi." Frá Landmannalaugum, þekktasta stað á leiðinni er um það bil jafnlangt til byggða í báðar áttir.Verður nú lýst helstu gönguleiðum þaðan frá skála FÍ.

1) Brennisteinsalda og hverirnir

Haldið er upp og yfir Laugahraunið. Við blasir Háalda nærri 1.100 m. Í forgrunni Vondugil og framan við grónir mýraflákar. Leiðin liggur utan í hlíðum Öldunnar. Líklega er Brennisteinsalda litskrúðugasta fjall landsins, þar er sem sólin skíni, jafnvel í dumbungi. Í miðri hlíðinni má velja:

A) Sömu leið til baka, sem er léttust.

B) Fram Grænagil með Laugahraun á vinstri hönd og Bláhnúk á hægri hönd. Best er að stefna yfir hraunið á suðurenda hryggjar sem gengur niður úr miðjum Bláhnúk og halda sig uppi á hraunkantinum þegar komið er að gilinu. Göngustígur er líka í gilinu en ógreiður. Hraunið er á köflum erfitt yfirferðar. Að lokum er slóðin greinileg og niður í gilið og meðfram læknum. Gilið dregur nafn sitt af grænum biksteini sem er glerkennt afbrigði af líparíti og hefur myndast við hraða storknun. Úr mynni Grænagils er haldið til norðurs meðfram hraunkantinum að skála FÍ.

C) Að ganga upp á Brennisteinsöldu, upp í skarðið milli Öldunnar og upptaka Laugahrauns. Léttast er að ganga innan við skarðið og minnstur halli. Af toppnum fæst góð sýn norðaustur yfir Laugahraun. Þar sjást Syðri- og Nyrðri-Háganga og í góðu skyggni inn í Hamarinn og inn á Bárðarbungu í Vatnajökli. Nær eru Snjóalda og Snjóöldufjallgarður. Háalda í vestri með Vondugil á milli. Af toppi öldunnar er gengið niður á flatlendið innan Laugahrauns og sömu leið í skála í Landmannalaugum.

2) Bláhnúkur - Skalli - Hattur - Reykjakollur

Frá skála FÍ er genginn ökuslóðinn suður með jaðri Laugahrauns að Grænagili. Læk í því má vaða eða stikla. Gengið er u.þ.b. 100 m til suðurs og greinilega gönguleið upp eftir hrygg Bláhnúks, til suðurs, eftir götunni upp á tind. Útsýni er yfir Grænagil og litadýrð. Brennisteinsalda blasir við og fjöll miðhálendisins, eins og Kerlingarfjöll. Stallur neðan við tindinn er tilvalinn hvíldarstaður þegar um 1/3 leiðarinnar eru eftir. Framhaldið er brattara og krákustígar. Á tindinum opnast útsýni til þriggja átta.

Norðausturhluti öskjunnar í Torfajökli sést greinilega, þ.e. Barmur og Hábarmur, handan við Jökulgilskvíslina og helstu gönguleiðir úr Laugum. Á tindi Bláhnúks er útsýnisskífa. Haldið er niður vestur af fjallinu, bratta slóð en auðrataða og niður innst í Grænagili, fram gilið og í skála.

Tilvalið er að fara inn fjöllin og eftir fjallshryggjunum ofan gilja. Hæst kemst maður inn á Skalla (1.017 m) og Hatt nokkru lægri. Hér er litríkasta landslag á svæðinu. Vel sést niður í Hattver í botni Jökulgils. Í suðri ber hæst Háskerðing og Torfajökul og í austri sést til Hábarms (1.192 m). Reykjafjöll með Háuhveri eru í suðvestri. Til baka er gengið austan við Litla-Brandsgil og niður Reykjakoll. Þaðan er stutt í skála.

3) Suðurnámur - Háalda

Gangan hefst við göngubrú yfir Námskvísl. Bratt er að vörðunni en góður stígur. Héðan er skáli FÍ í suðri, en gengið er til vesturs, eftir breiðum hrygg. Til norðurs eru skrautlegar hlíðar, nyrðri hluti Suðurnáms og til suðurs sést í Landmannalaugar, Bláhnúk, Laugahraun og Brennisteinsöldu. Í skarðinu milli Suðurnáms og Háöldu er best að fara miðjan hrygg og forðast ógöngur. Úr skarðinu er stefnt upp á hátind. Þaðan er útsýni til allra átta og í góðu skyggni, níu jökla sýn. Leiðir:

a) Stikuð gönguleið ofan gilja upp í Hrafntinnusker. Vandratað og ætti aðeins að fara í góðu skyggni. Áætlaður göngutími í skála 4-6 klst.

b) Að fara niður í skarðið milli Háöldu og Suðurnáms. Auðveldast er að fara niður við gilbarminn innst á Vondugiljaaurum. Aðrar leiðir eru illfærar. Í Vondugiljum neðan við Háöldu eru hverir, gróðurreitir og skrautlegt grjót. Stefnt er á hlíðar Brennisteinsöldu. Stikla þarf smálæki. Best er að halda sig á troðningum meðfram hlíðunum, því svæðið er votlent. Stikuðu leiðinni frá skálanum að hverasvæðinu er fylgt yfir Laugahraun.

4) Brandsgil - Reykjakollur

Auðveld og skemmtileg ganga, tilvalin ef fjallasýn er lítil. Vaða þarf lækinn í Brandsgili oft. Gengið er meðfram Bláhnúk og í Brandsgil, hyldjúpt hamragil. Þegar kemur fyrir beygjuna á gilinu er skafl. Stundum eru þar íshellar. Fallegur foss er innst í gilinu og þægilegt að ganga að honum eftir skaflinum. Gæta skal þess að snjóþekjan yfir ánni getur brostið. Skrautlegt grjót er á áraurunum, aðallega líparít og hrafntinna. Tilvalið er að skoða gufuhverina í hlíðum Reykjakolls í bakaleiðinni, ganga á kollinn og sjá yfir Jökulgil og Landmannalaugar.

Höfundur er í stjórn FÍ.