11. ágúst 1972: "Nær daglega berast fregnir frá Tékkóslóvakíu, þar sem greint er frá fangelsisdómum, sem kveðnir hafa verið upp yfir andófsmönnum hins sósíalíska stjórnkerfis, sem Tékkar og Slóvakar búa nú við.
11. ágúst 1972: "Nær daglega berast fregnir frá Tékkóslóvakíu, þar sem greint er frá fangelsisdómum, sem kveðnir hafa verið upp yfir andófsmönnum hins sósíalíska stjórnkerfis, sem Tékkar og Slóvakar búa nú við. Síðan Alexander Dubcek var komið frá völdum, eftir innrás Sovétríkjanna í ágúst 1968, hefur dyggilega verið unnið að því að koma í veg fyrir frjálsa skoðanamyndun í landinu. Þannig reyna valdhafarnir að tryggja sjálfa sig í sessi og stuðla að réttri þróun sósíalismans eins og það er kallað.

Málgagn tékkneska kommúnistaflokksins, Rude Pravo, segir, að fólkið í landinu viti, að ríkið verndi alla borgara, líf þeirra, heilsu og eignir án tillits til stjórnmála- og trúarskoðana. En á móti komi, að engum haldist uppi að brjóta landslög eins og það er orðað. Í sósíalísku ríki telst það lögbrot, sem annars staðar heyrir til mannréttinda."

11. ágúst 1982: "Einu aðgerðir núverndi ríkisstjórnar í vaxandi efnahagsvanda þjóðarbúsins allan feril hennar hafa verið bráðabirgðaúrræði og skammtímaráðstafanir á fárra mánaða fresti, sem engin döngun hefur verið í. Í hvert eitt sinn, sem ríkisstjórnin hefur lotið að slíkum sýndarúrræðum, hefur Framsóknarflokkurinn heitið því hástöfum, að næst þegar tekist verði á við vandann kæmu alvöruaðgerðir til sögunnar. Jafnoft hefur Framsóknarflokkurinn lekið ofan í nýja sýndarmennsku.

Þessi staða er enn einu sinni upp komin. Einn af þingmönnum Framsóknarflokksins segir í blaðaviðtali í gær. "Ég fæ ekki betur séð en að grundvöllur stjórnarsamstarfsins sé brostinn, ef ekki næst samstaða um viðunandi efnahagsaðgerðir í þessari stöðu."! Þessi kokhreysti er bergmál af svipuðum ummælum, sem fram hafa verið sett nokkurn veginn á þriggja mánaða fresti allan stjórnarferilinn.Ummælum, sem gufað hafa upp í eymingjaskap.

Alþýðubandalagið, möndull ríkisstjórnarinnar, heldur sig einnig við sama heygarðshornið og fyrr: engin alvöruúrræði, eingöngu kákaðgerðir, sem leiða aðeins lengra út í kviksyndið. Engu er líkara en Alþýðubandalagið sé að kortleggja flóttaleið út af stjórnarheimilinu, ef húsbóndavaldi þess þar verður raskað."