FRJÓMAGN í Reykjavík reyndist undir meðallagi í júlímánuði en á Akureyri var frjómagn á sama tíma yfir meðallagi.

FRJÓMAGN í Reykjavík reyndist undir meðallagi í júlímánuði en á Akureyri var frjómagn á sama tíma yfir meðallagi. Í Reykjavík viðraði vel til frjódreifingar framan af mánuðinum en þá var blómgun hins vegar lokið eða um það bil að ljúka hjá ýmsum tegundum sem annars dreifa frjókornum í júlí, til dæmis túnsúra, reynir og starategundir. Með hundadögum varð veður vætusamara og þar með óhagstætt frjókornum, en síðari hluti júlí er einmitt sá tími sem venjulega er mest um grasfrjó.

Nokkrar grastegundir eru enn í blóma, einkum erlendir slæðingar og ræktuð túngrös og því er uppspretta grasfrjóa enn til staðar og verði veður þurrt í fyrri hluta ágúst gætu þeir dagar komið að frjótölur verði háar. Annars er útlit fyrir að frjótímanum ljúki fyrr á höfuðborgarsvæðinu í ár en oft áður.

Á Akureyri var frjótala grasa lág framan af júlí en um miðjan mánuðinn hélst hún í meðallagi og fór yfir það síðustu 10 dagana.

Venjulega er mikið um grasfrjó í ágúst á Akureyri og oftar en ekki mælist seinna hámark sumarsins í síðustu viku ágúst.

Frjótölur má skoða reglulega á veðurvef Morgunblaðsins www.mbl.is.