Fréttir af því sem fram fer bak við tjöldin í alls kyns stofnunum og fyrirtækjum á Íslandi hafa undanfarið verið þannig að færir handritshöfundar spennumynda í Ameríku geta bara pakkað og loksins er ég farin að skilja allt það öngþveiti sem skapaðist í rómantískum skáldsögum fyrri tíma þegar bréf voru að misfarast. Þá voru það raunar bréf sem týndust sem allt vesenið var út af, t.d. ástarbréf og erfðaskrár, en núna eru það bréf og skjöl sem finnast sem allt hefur orðið vitlaust út af.

Ég segi fyrir mig að ef ég væri allt í einu komin í þýðingarmiklar stjórnir og ráð eða vissi ekki aura minna tal og gerði himinhá kauptilboð myndi ég alls ekki skrifa staf um neitt af því sem fram færi eða til stæði. Eg myndi frekar láta reyna á munnleg tilboð og loforð, - það færi þá ekki verr en svo að ekki yrði neitt af neinu.

Allt í einu virðist hér allt fullt af sterkríku fólki sem hefur það fínt nema hvað sumt af því hefur áhyggjur út af auðæfum sínum, sem ýmist eru að vaxa eða minnka í takt við stöðu hinna ýmsu hlutabréfa. Það er ekki spaug að eiga að sjá fyrir hvenær er best að selja eða kaupa við þvílíkar kringumstæður. Þar sem peningar þýða líka völd er ekki að kynja þótt ýmsum verði ekki svefnsamt, bæði þeim sem vilja komast á toppinn og hinum sem norpa þar fyrir.

Hvert hneykslismálið rekur annað, menn plotta og plotta, ráðast stundum á garðinn þar sem hann er lægstur og þeir eru til sem ekki hika við að svíkja sína bestu vini fyrir hagnaðarvon.

Hið "venjulega" fólk er aldeilis steinhissa á öllu saman. Það hlustar á fréttir, les greinar og yfirlýsingar og reynir að átta sig á hvað um er að vera en atburðarásin er oft svo hröð að það má hafa sig allt við.

Það bagar einkum hið "venjulega" fólk í þessum efnum hve illa það er oft á tíðum að sér í klækjum þeim sem virðast viðgangast í fjármála- og valdaheiminum. Ef þetta heldur svona áfram er þó hugsanlega ein leið fær til þess að almenningur geti botnað eitthvað í því sem fram fer hér. Það er að hið fræga rit Machiavellis, Furstinn - sem er kennslubók í klækjum samin fyrir miðaldastjórnanda á Ítalíu sem óttaðist um stöðu sína - verði gerð að skyldulesningu, t.d. í framhaldsskólum á Íslandi.

eftir Guðrúnu Guðlaugsdóttur