ÁFRÝJUNARRÉTTUR í Alabama í Bandaríkjunum hefur ógilt játningu þroskahefts manns sem fundinn var sekur um aðild að drápi ungbarns sem nú er talið að hafi aldrei verið til.

ÁFRÝJUNARRÉTTUR í Alabama í Bandaríkjunum hefur ógilt játningu þroskahefts manns sem fundinn var sekur um aðild að drápi ungbarns sem nú er talið að hafi aldrei verið til.

Í úrskurði meirihluta dómsins segir að hrópleg rangindi hafi átt sér stað er Medell Banks var sakfelldur en Banks, fyrrverandi eiginkona hans, Victoria Banks, og systir hennar, Dianne Tucker, játuðu á sínum tíma að hafa banað nýfæddu barni Victoriu.

Árið 1999 sagði Victoria lögreglu að hún væri barnshafandi þar sem hún vildi komast hjá fangelsisvist á meðan hún beið dóms í öðru máli. Læknir staðfesti sögu hennar en þegar ekkert bólaði á barninu var fólkið handtekið.

Mál fólksins var tekið upp að nýju eftir að læknar báru að ómögulegt væri að Victoria gæti fætt barn þar sem hún hefði gengist undir ófrjósemisaðgerð árið 1995. Verjendur fólksins segja það þroskaheft og að það hafi játað glæpinn til að komast hjá dauðarefsingu.

Konurnar hafa verið látnar lausar en Banks hefur krafist þess að játning hans verði dæmd ógild.

Montgomery. AP.