[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Myndasaga vikunnar er Vecna-Hand of the Revenant eftir Modi Thorsson og Kevin McCann. Iron Hammer Graphics gefur út, 2002. Bókin fæst í Nexus og kostar 1.250 krónur.

ÞAÐ ER sjaldan sem íslenskur myndasöguhöfundur nær tíu þúsund eintaka sölu. Ætli það hafi bara nokkurn tíma gerst? Nú er hins vegar orðin breyting á því. Modi Thorsson heitir rithöfundur sem lengi hefur kafað í hinn drungalega fantasíuheim Dungeons & Dragons. Fyrir hina óinnvígðu var Dungeons & Dragons upphafið að því sem í daglegu tali kallast hlutverkaspil (e. roleplay). Í slíkum spilum nota menn hugmyndaflugið til að spinna sögur sem síðan eru notaðar sem rammar utan um leikinn sjálfan. Sögurnar eiga sér stað í einhverjum af hinum mörgu heimum (e. settings) sem spilararnir geta kosið sér til að vinna með. Allar þessar sagnir eiga sér gjöf að gjalda til meistara Tolkien en heimurinn sem hann skóp í Hringadróttinssögu og fleiri ritum er endalaus uppspretta hugmynda fyrir nútímafantasíuhöfunda. Modi hefur lengi gegnt hlutverki sagnameistara í slíkum spilum og er bókin sem hér er til umfjöllunar að nokkru leyti byggð á þeim sögum sem hann hefur matreitt ofan í meðspilara sína. Það er því ekki amalegt að geta komið þessari sögu á framfæri við stærri hóp lesenda í formi myndasögu.

Aðalpersóna bókarinnar, Vecna, er forn fjandi sem gegnir stóru hlutverki í einhverjum Dungeons & Dragons heiminum. Í byrjun bókarinnar gefur á að líta mikið umsátur uppvakninga, drísla og allra handa andskota um borgarvirkið Fleeth og Vecna vakir yfir stríðinu með sinni ófrýnilegu ásjónu. Innan borgarmúranna er að finna töfrapresta og hermenn sem berjast hetjulegri baráttu gegn árásarhernum. Prestarnir tilbiðja hinn mikla Pholtus sem sagan segir að geti eytt heilu óvinaherjunum með ljósi sínu ef svo ber undir. Vecna hefur harma að hefna gegn prestsreglu Pholtusar og stefnir að því að leggja borgina í rúst og nota íbúa hennar sínum illu áformum til framdráttar.

Það er ekki mikil léttúð yfir skrifum Moda. Hann beitir mergjuðu tungutaki til að koma sögunni og dramanu til skila eins og til siðs er í góðum fantasíum. Það er reyndar svo að á stundum átti ég nokkuð erfitt með að fóta mig í textanum og sum orðin skildi ég einfaldlega ekki (hvað þýðir til dæmis þetta "revenant" sem nefnt er í titlinum?) en ætli það segi ekki meira um enskukunnáttu mína en ritstíl höfundar. Illmennska og ófrýnileiki þeirra vondu er mikill og pínslirnar sem þeir bjóða eiga sko ekkert skylt við tannpínu eða fótsvepp; ónei, á boðstólunum er eitthvað miklu verra eins og eilíf áþján í helvíti og svoleiðis. Sagan er vel ofin og augljóst að Modi hefur gefið sér langan tíma til að vinna hin smæstu smáatriði og áreiðanlegt að hin verklega notkun á sögunni í spilaumhverfinu hefur gefið henni aukna dýpt.

Kevin McCann er nokkuð flinkur teiknari. Myndir hans eru drungalegar í takt við söguefnið og notkun hans á málningu til að lita persónurnar er oft vel heppnuð en slíkt er ekki mjög algengt í myndasögum í dag. Vel teiknaðar persónurnar í forgrunni eiga þó betra skilið en notkun McCanns á afskaplega stirðum tölvuteikningum sem bakgrunn. Byggingar og önnur föst fyrirbæri mynda oft hróplega mótsögn við lifandi áferðina á persónunum. Slík atriði geta ráðið úrslitum í sögum á borð við þessa þar sem kröftug og þung stemmningin skiptir svo miklu.

Það er ekki laust við að hjartað slái ofurlítið hraðar í garð myndasagna sem gerðar eru af íslenskum höfundum. Það er fátt jafnkitlandi fyrir þjóðarstoltið eins og að vita að við hlið manns í Bónus stendur hæfileikaríkur einstaklingur sem er að ,,meika það í útlöndum". Modi þarf þó enga íslendingarembuhækju til að hljóta góðan róm fyrir þetta verk sitt. Hann er vel að þessum tíu þúsund eintökum kominn og vonandi að þær sölutölur hækki bara með komandi heftum af þessari framhaldssögu.

Heimir Snorrason