ÍSLANDSKORT Máls og menningar voru gerð að umtalsefni hér í dálkinum fyrir nokkru og var þá fundið að ónákvæmni.

ÍSLANDSKORT Máls og menningar voru gerð að umtalsefni hér í dálkinum fyrir nokkru og var þá fundið að ónákvæmni. Því hefur verið komið á framfæri við Víkverja að gagnrýni hans eigi ekki lengur við rök að styðjast því að þau atriði, sem farið var rangt með í þeirri útgáfu kortabókar Máls og menningar, sem Víkverji hafði undir höndum, hafa verið leiðrétt í nýrri útgáfu kortabókarinnar. Þar er um að ræða nöfn bæja á Reykjanesi í Dalasýslu. Annars vegar höfðu nöfn bæjanna Staðar og Árbæjar víxlast og hins vegar var rangt farið með nafn bæjarins Barma. Nú hefur þetta verið leiðrétt og ber að hrósa útgáfunni fyrir þann metnað að vera vakandi fyrir mistökum og leiðrétta þau um leið og færi gefst.

VÍKVERJI skoðaði á dögunum heimasíðu Flugleiða í Danmörku, icelandair.dk, sem honum skilst að sé verðlaunuð síða. Vissulega er heimasíðan hin aðgengilegasta, með upplýsingum um komur, brottfarir, verð og allt annað sem vænta mátti á heimasíðu flugfélags. Það kom Víkverja hins vegar afar spánskt fyrir sjónir að finna einnig á síðunni tölvuleik, sem kynntur er sem fyrsti tölvuleikur Flugleiða á Netinu.

Tölvuleikur þessi snýst um hinn teiknaða Halldór, sem hægt er að stjórna þannig að hann hlaupi um í Bláa lóninu og reyni að næla í stúlkur sem skjóta þar upp kollinum. Þegar það tekst, þá missa þær brjóstahöldin, sem færast Halldóri til tekna sem stig í leiknum. Keppikeflið er auðvitað að ná sem flestum brjóstahöldum, án þess að álpast ofan í heita pytti í lóninu.

Víkverji ætti kannski að vera sjóaðri en svo að hann furðaði sig á uppátækjum fyrirtækisins, sem notaði stúlkurnar í lopapeysunni til að auglýsa ferðir til Íslands hér um árið, eða tældi Breta til landsins með því að lofa "dirty weekend". Nú er það Halldór, sem "gets lucky in the Blue Lagoon", eins og segir í tölvuleiknum. Orðasambandið "to get lucky" er notað af enskumælandi karlrembum þegar þær detta í þann lukkupott að komast yfir konur, og er þá átt við annað og meira en að safna brjóstahöldum. Er ekki kominn tími til að Flugleiðir hætti að gefa í skyn að íslenskar konur séu erlendum karlrembum auðveld bráð?

ÞAÐ ER eins og grípi um sig æði á Íslandi þegar verslunarmannahelgin gengur í garð. Þá tæmist höfuðborgin og yfir hana færist notaleg ró. Víkverji gekk niður Laugaveginn um kvöldmatarleytið föstudaginn fyrir verslunarmannahelgina og var engu líkara en hann væri kominn til útlanda. Ekki vegna veðurblíðunnar, heldur þess að fyrir utan Víkverja voru þar aðeins útlendingar á ferð. Þannig mátti heyra mælt á frönsku, ítölsku, þýsku og ensku og voru flestir sennilega að velta fyrir sér hvað hefði orðið um hina innfæddu.

EITT kom Víkverja á óvart um verslunarmannahelgina. Hann hugðist fara á Borgarbókasafnið og skila vænum bókastafla, en kom þá að luktum dyrum. Safnið var lokað alla helgina og má spyrja hvort það sé ekki of langt gengið.