Hallbirni Hjartarsyni er vottuð virðing á hljómdiskinum Kúrekinn.
Hallbirni Hjartarsyni er vottuð virðing á hljómdiskinum Kúrekinn.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Lög eftir Hallbjörn Hjartarson í flutningi hljómsveitarinnar Krókódílarnir og ýmissa söngvara.

Lög eftir Hallbjörn Hjartarson í flutningi hljómsveitarinnar Krókódílarnir og ýmissa söngvara. Hljómsveitina skipa Magnús Einarsson (rafgítar, kassagítar, mandólín, banjó), Eysteinn Eysteinsson (trommur, ásláttur), Pétur Hallgrímsson (rafgítar, kassagítar) og Friðþjófur Sigurðsson (bassi). Söngvarar eru KK, Magnús Eiríksson, Magga Stína, Hreimur Örn, Helgi Björnsson, Þorgeir Guðmundsson, Gunnar Ólason, Einar Ágúst, Margrét Eir og Dr. Gunni. Hrannar Ingimarsson sá um upptökur og hljóðblöndun, framleiðsla og upptökustjórn í höndum Friðþjófs Sigurðssonar.

LÖG hins eins sanna kúreka, Hallbjarnar Hjartarsonar, hafa lengi glatt landann og það er góð hugmynd að fá ýmsa flytjendur til að túlka vel valin lög eftir hann. Það er fátt íslenskara en lögin hans Hallbjarnar, hann er einskonar blanda af Geirmundarstuði og dægurvísnarauli Gylfa Ægissonar en með kúrekahatt og viðkvæmari taug. Lög hans eru einföld og standa óstudd án íburðarmikilla útsetninga eða tilhalds í flutningi og forvitnilegt að sjá hvernig öðrum tekst til að fanga einlægnina í lögum hans. Lagavalið gefur góðan þverskurð af verkum Hallbjarnar til þessa, þótt eflaust sakni einhverjir sinna uppáhaldslaga - hér er t.d. enginn Kántríbær.

Krókódílasveitin er létt og leikandi, gítarleikurinn fjölbreyttur og eins eru margar raddútsetningar vel heppnaðar. Söngvararnir komast vel frá sínu, sérstaklega eru KK og Magnús Eiríksson afslappaðir í flutningi sínum á óðnum til Lukku Láka og undirleikurinn kliðmjúkur. "Sannur vinur" er grípandi lag með glaðlegum brokktakti og áreynslulaus söngur Hreims Arnar gerir það að einu skemmtilegasta laginu á disknum. Magga Stína nær sérlega vel barnsleikanum í "Sveitadrengurinn" og varla hægt að finna heppilegri rödd við lagið.

Einmana slædgítar og viðkvæmnislegur söngur Margrétar Eir í gospelkynjaða laginu "Bænin" dregur fram blíðari hliðina á lögum Hallbjarnar, sem og örlagamæðan í "Donna sjómanni" sem Helgi Björnsson syngur. Minnisstæðust hlýtur þó að vera útgáfan á "Kúreka norðursins", því klassíska lagi. Það er hægt verulega á laginu og slædgítarinn og djúp og rám viskírödd Þorgeirs Guðmundssonar gefa því aukna dýpt í bæði eiginlegri og óeiginlegri merkingu - eitt andartak heyrir maður næstum því ýlfrið í sléttuúlfunum og krafsið í hestshófum, meðan kúrekinn raular sína reynslusögu við snarkið frá eldinum. Disknum lýkur á hinum fjöruga ræl um Hundinn Húgó sem dýravinurinn dr. Gunni flytur - í þessu tilfelli sem öðru veit maður ekki hvort það er lagið sem velur söngvarann eða öfugt, svo vel fellur þetta saman.

Allt ber vitni um að þetta er gert af virðingu fyrir tónlistarmanninum Hallbirni, flutningur og útsetningar vandaðar, smekkleg textabók fylgir og ljóst að föðurlandið hefur tekið í sátt þennan spámann kántrísins hér á landi á.

Steinunn Haraldsdóttir