Lög eftir Mahler, R. Strauss og Brahms. Hulda Björk Garðarsdóttir sópran; Sigríður Aðalsteinsdóttir mezzosópran. Daníel Þorsteinsson, píanó. Þriðjudaginn 6. ágúst kl. 20:30.

SÖNGKONURNAR Hulda Björk Garðarsdóttir og Sigríður Aðalsteinsdóttir eru báðar staddar á öndverðum ferli atvinnumennskunnar. Hulda Björk er fastráðin við Íslenzku óperuna frá janúar 2003, Sigríður hefur störf í haust við Þjóðaróperuna í Vín. Þær hafa áður sungið saman við ýmis tækifæri. Á tónleikum sínum með Daníel Þorsteinssyni píanóleikara í Myndlistarsafni Sigurjóns Ólafssonar s.l. þriðjudagskvöld sungu þær fyrst sitt í hvoru lagi; Sigríður fjögur lög eftir Gustav Mahler (Lieder eines fahrenden Gesellen) en Hulda síðan fimm lög eftir Richard Strauss, þ.e. Tvö lög við texta Johns Henrys Mackays Op. 27 og Drei Lieder der Ophelia Op. 67. Loks sungu þær saman fjóra dúetta eftir Johannes Brahms - Die Meere, Klänge I og II og Am Strande.

Allt er í heimi afstætt, og fyrir létta sumardagskrá var sjálfsagt vandfundið "léttara" efni úr fórum ofangetinna meistara miðað við þungaviktarstöðu þeirra í síðrómantískri þýzkri tónsköpun, enda þótt auðmeltari ljóðasöngslög séu öllu tíðari bæði í klassík og nýrómantík, og jafnvel á 20. öld. En hvað sem því líður er ósvikin nálægð við einfaldleika þjóðlagsins í söngvum förupilts Mahlers, þó að tærleikinn birtist kannski enn skírar í hljómsveitarútgáfunum en í versjóninni fyrir rödd og píanó. Mezzorödd Sigríðar virtist hafa þyngzt og óperumótazt verulega frá því er maður heyrði hana síðast og víðeygð undrun og æskusakleysi unglingsins því lengra undan en ella í Wenn mein Schatz Hochzeit macht. En þrátt fyrir svolítið losaralegan fókus í hæðinni, sem einnig vantaði meiri hlýju, mátti samt heyra nokkur sléttari litatilbrigði í seinni hluta Ging heut' Morgen über's Feld, og enn fleiri í 4. og síðasta laginu. Ich hab' ein glühend Messer var dramatískara en hin og skilaði sér betur, einnig fyrir ágæta textatúlkun. Náði sú hæst í Die zwei blauen Augen von meinem Schatz með dyggri aðstoð píanósins í "marcia funebre" bæjarabassakaflanum, þótt hér sem stundum síðar virtist vanta aðeins mýkra flæði í ásláttinn - hugsanlega fyrir fullsparlega pedalnotkun.

Þá var komið að Huldu Björk, er gaf unnustanum undir fótinn með blómstrandi Rosenkavalier-rödd sinni í Heimliche Aufforderung eftir Richard Strauss og flutti hið kunna Morgen sama höfundar "sotto voce" af eftirtektarverðri litafjölbreytni. Samt var hið bezta eftir, þótt ekki minni mig í bráð að hafa heyrt áður Ófelíusöngva Strauss af hérlendum söngpalli. Vart þarf lengi að liggja yfir þessum þrem lögum frá 1919 til að meðtaka snilld þeirra, þar sem Strauss teflir saman harmi saklausrar ungmeyjarsálar við gerjandi geðveiki (m.a. í "rugluðu" hljómaferli slaghörpunnar) á einkar átakanlegan hátt. Þau Hulda og Þorsteinn náðu þar eftirminnilegasta árangri kvöldsins í fjölbreyttri og samstilltri túlkun er náði tragískum hápunkti í síðasta söng Ófelíu, "Sie trugen ihn auf der Bahre bloß...".

Að góðum forngrískum harmleikjasið birtist svo hæfilegt andvægi í lokin með léttasta lið kvöldsins. Fólst hann í fjórum dúettum eftir Brahms, þar sem þær stöllur sungu fyrst ölduvaggandi sjávarídyllinn Die Meere, síðan hin þjóðlagaleitu smálög Klänge I og Klänge II og að endingu hið lýríska Am Strande, allt af lipurri samstillingu og í góðu jafnvægi, og hlutu prýðilegar undirtektir áheyrenda að launum.

Ríkarður Ö. Pálsson