STARFSEMI Listasafns Reykjavíkur heldur áfram þrátt fyrir þá óvissu sem nú ríkir um ástand verka í listaverkageymslum þess.
STARFSEMI Listasafns Reykjavíkur heldur áfram þrátt fyrir þá óvissu sem nú ríkir um ástand verka í listaverkageymslum þess. Verið er að undirbúa sýningu sem opnuð verður í Hafnarhúsinu á Menningarnótt, en hún ber yfirskriftina MHR-30 og er 30 ára afmælissýning Myndhöggvarafélagsins í Reykjavík. Hinn 8. ágúst var stærsti hluti sýningarinnar, sem er þrátt fyrir það aðeins hluti úr einu verkanna, hífður upp frá norðurvegg Hafnarhússins yfir í portið. Um er að ræða glerplötu sem vegur um 600 kíló en með grindum og öðrum nauðsynlegum búnaði sem þurfti til við flutningana var heildarþyngd þess sem híft var yfir húsið alls 1.600 kíló. Glerið sjálft er 20 fm, 5x4 metrar að stærð og þykkt þess um 12 mm en stærri glerplötur eru yfirleitt ekki framleiddar. Glerið mun gegna hlutverki tjarnar, sem er hluti af stærra verki Önnu Eyjólfsdóttur myndlistarkonu, sem jafnframt er formaður Myndhöggvarafélagsins í Reykjavík.