VERÐ á saltfiski hefur lækkað um 10-20% í evrum frá áramótum í viðskiptalöndum Íslendinga í Suður-Evrópu, Portúgal, Spáni og á Ítalíu.

VERÐ á saltfiski hefur lækkað um 10-20% í evrum frá áramótum í viðskiptalöndum Íslendinga í Suður-Evrópu, Portúgal, Spáni og á Ítalíu. Til viðbótar kemur síðan styrking íslensku krónunnar gagnvart erlendum gjaldmiðlum, þannig að áhrif þessa eru mun meiri en lækkun verðsins í evrum gefur til kynna. Þessu hefur fylgt birgðasöfnun hér á landi og verðlækkanir á fiskmörkuðum hér þar sem saltfiskverkendur hafa verið stórir kaupendur.

Helgi Már Reynisson, framkvæmdastjóri hjá Sölku sjávarafurðum ehf., segir að forsaga þessarar þróunar sé sú að í hitteðfyrra og fram á mitt ár í fyrra hafi verð á saltfiski hækkað mjög mikið og í kjölfarið hafi neyslan minnkað. Margar ástæður hafi valdið þessari þróun, þar á meðal tilkoma evrunnar í þessum löndum að hans mati, og það eigi einkum við um þróunina í Portúgal og á Ítalíu. Þá hafi Evrópusambandið dregið saman framlög sín til efnahagsuppbyggingar í Portúgal sem hafi hægt mjög á öllum hagvexti þar, en Portúgal sé langstærsti markaðurinn fyrir saltfisk í Evrópu. Þau áhrif hafi síðan breiðst út til saltfiskmarkaða í nágrannalöndunum.

Helgi Már sagði að jafnhliða verðlækkununum hefði saltfiskmarkaðurinn breyst úr því að vera seljendamarkaður yfir í það að vera kaupendamarkaður. Þegar eftirspurn eftir saltfiski hefði verið mikil og verðið hátt hefðu kaupendur og dreifingaraðilar keppst við að eiga ávallt nægar birgðir fyrir viðskiptavini sína. Eftir að verð hefði byrjað að lækka hefðu þeir haldið að sér höndum með kaup á fiski og birgðir því safnast upp hjá framleiðendum og seljendum.

Hann sagði að þessarar þróunar hefði fyrst orðið vart í fyrrahaust. Þá hefði verðið staðnað og salan í raun og veru ekki farið almennilega í gang. Frá því í desember og fram á vor hefði verð síðan lækkað jafnt og þétt. Verðlækkunin næmi 10-20% almennt í viðskiptalöndum okkar á þessu svæði og það ætti sérstaklega við um verð á stærri og millifiski.

Talsvert til af saltfiski í landinu

Helgi Már sagði aðspurður að talsvert væri til af saltfiski í landinu nú. Það væri hins vegar ekkert óeðlilegt í ljósi sögunnar. Ferillinn í gegnum tíðina hefði verið sá að birgðir söfnuðust upp frá því eftir páska í mars/apríl og fram á haust þegar neyslan ykist aftur þegar föstur væru framundan. Það mætti því segja að það væri ekkert óeðlilegt við þessa birgðasöfnun, en menn hefðu bara verið orðnir of góðu vanir í þessum efnum síðustu árin. Eldri menn í saltfiskverkun myndu vel aðra tíma.

Verkunin ætti sér að miklu leyti stað á veturna og fram á sumar en neyslan færi fram frá hausti og fram að páskum og því væri tímabundin birgðasöfnun í sjálfu sér ekkert óeðlileg.