Stórgóð plata frá nýrokkskóngunum. Já, eiginlega bara frábær.

SONIC Youth réð lögum og lofum í tilraunarokkinu á níunda áratugnum (Daydream Nation ('88) er eitt af meistaraverkum rokksögunnar). Tíundi áratuginn var brokkgengari (og botninum náð með Experimental Jet Set, Trash & No Star ('94)). En þessi áratugur virðist ætla að vera gjöfulur. Sonic Youth er nefnilega í toppformi þessa dagana, eins og heyra má á Murray Street, þar sem hinu einstaka, dimmleita melódíuinnsæi S.Y. er blandað næsta fullkomlega saman við rætna tilraunastarfsemina sem hefur aldrei verið of langt undan.

Undanfarin ár hefur Sonic Youth gefið út gallsúrar, og í flestum tilfellum, afar vel heppnaðar tilraunaskífur á eigin merki, jafnframt sem sveitin hefur átt í blómlegu samstarfi við hið tilraunaglaða séní Jim O' Rourke. Þetta virðist hafa blásið fersku lífi í hljómsveitina og má heyra þreifingar í þessa átt á NYC Ghosts & Flowers ('00). Hér er hins vegar eins og sveitin viti nákvæmlega hvað hún vill. Ekki bara það heldur er framkvæmdin fumlaus.

Á 21. aldursári er Sonic Youth í firnaformi og gefur viðlíka sveitum úr samtímanum öruggt en íbyggið blikk. Það er allt að gerast ennþá og brunnur sköpunarinnar auðheyranlega stútfullur. Manni verður ósjálfrátt hugsað til Mick og Keith. Við þá vil ég segja. "Strákar, þetta er vel hægt. Aldurinn kemur málinu ekki við. Hunskist til að gera almennilega plötu!"

Arnar Eggert Thoroddsen