BÆJARYFIRVÖLD í Hafnarfirði hafa í skoðun í tengslum við gerð aðalskipulags byggingu átján holu golfvallar að sunnanverðu við Straumsvík.
Lúðvík Geirsson, bæjarstjóri í Hafnarfirði, segir að það sé alveg ljóst að á höfuðborgarsvæðinu sé mikil þörf fyrir fleiri golfvelli. Þeir vellir sem séu fyrir séu löngu yfirfullir og þar komist ekki allir að sem vilji. Úr því þurfi að bæta. Mikill áhugi sé fyrir því í bænum, bæði hjá Keilismönnum og öðrum, að bæta hér úr og finna nýtt framtíðarland í þessum efnum.
Lúðvík segir að skipulags- og bæjaryfirvöld hafi verið að skoða þessi mál samhliða vinnu við nýtt aðalskipulag. Í þeim efnum hafi menn horft til svæða í hrauninu suður af bænum, einkum þeirra svæða sem séu nær ströndinni, því vellir sem þannig séu staðsettir bjóði upp á lengri notkunartíma yfir árið en vellir sem séu annars staðar. Meðal annars hafi komið til umræðu og skoðunar svæði sem séu í hrauninu sunnan við Straumsvík, ekki langt frá Reykjanesbrautinni. Þá hafi sumir einnig horft til svæðisins í kringum Óttarsstaði.