SUMARSLÁTRUN á sauðfé er hafin víða um land. Að sögn Guðmundar Svavarssonar, framleiðslustjóra Sláturfélags Suðurlands, hófst slátrun á Selfossi 29. júlí og búið er að slátra tvisvar. "Það hefur gengið alveg ljómandi vel.

SUMARSLÁTRUN á sauðfé er hafin víða um land. Að sögn Guðmundar Svavarssonar, framleiðslustjóra Sláturfélags Suðurlands, hófst slátrun á Selfossi 29. júlí og búið er að slátra tvisvar. "Það hefur gengið alveg ljómandi vel. Við slátrum einu sinni í viku enn sem komið er. Við slátrum alltaf 2.000 lömbum á viku þessar vikur," segir hann.

Guðmundur leggur áherslu á að þyngd dilkanna sé mjög áþekk nú og í fyrra. Hann bendir á að í fyrra hafi slátrun hafist 30. júlí og í fyrstu slátrun var meðalþyngdin 13,2 kíló en í ár var hún ívíð meiri eða 13,7 kíló. Hann segir að í síðustu viku hafi meðalþyngdin verið hin sama og á sama tíma árinu áður eða 13,5 kíló.

Samkvæmt upplýsingum Guðmundar þarf að ná hækkun sem viðheldur stöðu lambakjöts á markaði án þess að leiða til aukins útflutnings. Að teknu tilliti til þess hækkar Sláturfélagið verð á dilkakjöti um þrjú prósent frá því í fyrra. Hækkun er mismikil milli flokka þar sem nokkrir flokkar magurs kjöts eru færðir upp um verðflokk en feitari færðir niður. Ljóst sé að kostnaðarhækkanir í rekstri bænda séu umtalsverðar.