LÖGREGLA á Bretlandi hefur handtekið tvo menn í tengslum við leitina að tveimur tíu ára stúlkum, Holly Wells og Jessicu Chapman, en þær hurfu sporlaust fyrir viku.

LÖGREGLA á Bretlandi hefur handtekið tvo menn í tengslum við leitina að tveimur tíu ára stúlkum, Holly Wells og Jessicu Chapman, en þær hurfu sporlaust fyrir viku. Voru mennirnir handteknir fyrir að hafa neitað að sýna lögreglunni tilhlýðilegan samstarfsvilja í tengslum við rannsókn á hvarfi stúlknanna.

David Beck rannsóknarlögreglumaður sagði að ekki mætti gera of mikið úr þessum handtökum. "Mennirnir sýndu lögreglunni ekki eðlilegan samstarfsvilja þegar spurningum var beint til þeirra. Með það í huga að við tökum þessa rannsókn afar alvarlega er ljóst að við munum grípa til aðgerða gagnvart hverjum þeim sem þykir haga sér grunsamlega," sagði Beck.

Annar mannanna er sagður á fertugsaldri en hinn um áratug eldri. Báðir voru handteknir á föstudag.

Ekkert hefur til þeirra Wells og Chapman spurst frá því að þær sáust síðast sl. sunnudag í heimabæ sínum, Soham í Cambridgeshire. Óttast margir að þær hafi orðið fórnarlömb barnaníðinga.

London. AFP.