Kemal Dervis
Kemal Dervis
KEMAL Dervis, fjármálaráðherra Tyrklands, sagði af sér embætti í gærmorgun og hefur Bulent Ecevit forsætisráðherra þegar skipað lítt kunnan þingmann, Masum Turker, í hans stað.

KEMAL Dervis, fjármálaráðherra Tyrklands, sagði af sér embætti í gærmorgun og hefur Bulent Ecevit forsætisráðherra þegar skipað lítt kunnan þingmann, Masum Turker, í hans stað. Afsögn Dervis kemur ekki á óvart en reiknað er með að hann gangi nú til liðs við nýjan flokk Ismails Cem, fyrrverandi utanríkisráðherra. Vonast margir til að Cem og Dervis geti sameinað hófsama vinstrimenn, þ.m.t. flokk forsætisráðherrans, Lýðræðislega vinstriflokkinn, í kosningum í nóvember.

"Sundrungin sem einkennir stjórnmál landsins í dag er mikið vandamál og við verðum að finna lausn á henni. Það er markmið mitt," sagði Dervis eftir að hann tilkynnti afsögn sína í gær. Vill hann að styrk stjórn taki við völdum að afloknum kosningunum í nóvember enda bíði erfið verkefni; m.a. viðræður um hugsanlega inngöngu Tyrklands í Evrópusambandið (ESB).

Mikil pólitísk upplausn hefur ríkt í Tyrklandi eftir að Ecevit veiktist í maí og fjölflokkastjórn hans tók að riða til falls. Sagði Cem af sér embætti utanríkisráðherra fyrir um mánuði og minnstu munaði að Dervis fylgdi honum þá.

Voru uppi getgátur um það í gær að Ecevit hefði á föstudag skipað Dervis að gera upp hug sinn um það hvort hann vildi sitja áfram í ríkisstjórninni eða ganga til liðs við andstæðinga forsætisráðherrans.

"Draumalið" ESB-sinna

Dervis, sem ekki var flokksbundinn, starfaði áður hjá Alþjóðabankanum í Washington. Hann átti stóran þátt í því að tryggja ríkisstjórn Ecevits sextán milljarða dollara lán frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum í fyrra eftir að efnahagskreppa reið yfir Tyrkland. Hafa fréttaskýrendur lýst þeim Dervis og Cem sem "draumaliði" þeirra sem hlynntir eru því að Tyrkir gangi í ESB.

Ankara. AFP.