Sindri og indíáninn á flótta.
Sindri og indíáninn á flótta.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sunna Mjöll Sverrisdóttir, 9 - að verða 10 - ára nemandi í Breiðholtsskóla, og Daníel Gylfason, 9 ára nemandi í Háteigsskóla, eru frændsystkin, og fara oft saman í bíó.

Sunna Mjöll Sverrisdóttir, 9 - að verða 10 - ára nemandi í Breiðholtsskóla, og Daníel Gylfason, 9 ára nemandi í Háteigsskóla, eru frændsystkin, og fara oft saman í bíó. Daníel ætlar meira að segja að verða kvikmyndatökumaður þegar hann verður stór, en Sunna Mjöll er ekki alveg búin að ákveða sig.

Þau fóru um daginn að sjá teiknimyndina Villta folann og fannst myndin mjög skemmtileg, þótt þeim fyndist hún ólík öllum öðrum teiknimyndum sem þau hafa séð. Villti folinn heitir Sindri og er aðalpersónan í myndinni, og segir söguna.

Sunna: Það er sögumaður sem talar fyrir hestana og segir eiginlega hugsanir þeirra.

Daníel: Hesturinn lendir hjá hernum þegar hann er að skoða eld. Hann er fangaður og þeir reyna að temja hann. En það gengur illa.

Sunna: Það er erfitt að setja á hann skeifur og ekki hægt að merkja hann.

Daníel: Síðan losnar hann og indíáni líka, og þeir fara í indíánabúðir.

Sunna: Og þar hittir hann meri sem heitir Regn.

Þannig byrjar myndin um villta folann, sem þau segja spennandi mynd, en ekki fyndna einsog flestar teiknimyndir.

Sunna: Samt er einn og einn brandari.

Daníel: Það var fyndið þegar hann var að henda körlunum af baki sem voru að temja hann.

Sunna: Bróðir minn heitir Sindri, og í lok myndarinnar kemur: "Bless, Sindri hinn ótemjanlegi," og mér fannst það mjög fyndið!

Daníel: Teiknararnir voru þrjú ár að reyna að ná réttum hestahreyfingum, en samt voru hreyfingarnar stundum skrýtnar.

Sunna: Og einu sinni settist merin niður einsog hundur!

En Daníel og Sunna setja það ekki fyrir sig og mæla með myndinni fyrir krakka á aldrinum 3-15 ára og væru líka vel til í að sjá aðra mynd um villta folann Sindra.

Sunna: Þá myndi Regn trúlega eignast folald.