Nú er komin í bíó teiknimyndin Villti folinn. Þar segir frá villta hestinum Sindra sem elst upp í stórkostlegu landslagi og náttúrufegurð Norður-Ameríku, áður en hún varð Bandaríkin, þegar indíánar áttu landið og hvíti maðurinn var að taka það frá þeim.

Nú er komin í bíó teiknimyndin Villti folinn. Þar segir frá villta hestinum Sindra sem elst upp í stórkostlegu landslagi og náttúrufegurð Norður-Ameríku, áður en hún varð Bandaríkin, þegar indíánar áttu landið og hvíti maðurinn var að taka það frá þeim. Sindri er frjáls og glaður þar til einn dag - þegar hann sér manneskju í fyrsta sinn - að hann lendir í miklum vandræðum.

Pínulítill fornaldarhestur

Hestar hafa verið til lengi og hafa vísindamenn komist að því að elstu forfeður hestanna voru lítil dýr, ekki nema 25-50 sentimetrar á hæð. Það er minna er folald er í dag. Og þótt íslenski hesturinn sé frekar lítill, þá er hann risi miðað við þann fornaldarhest.

En fyrir um 3 milljónum ára var hesturinn orðinn líkur nútímahestinum. Engum hefur tekist að sanna hvaðan hesturinn er upprunninn, en steingervingar sýna að á ísöld bjuggu hestar í öllum heimsálfum nema Ástralíu.

Smáhesturinn knái

Íslenski hesturinn er ættaður frá Noregi. Hann er talinn smáhestur en er samt ólíkur öðrum hestum af líku kyni, því hann er mýkri og sterkari en þeir. Svo hefur íslenski hesturinn mjög marga mismunandi liti og líka gangtegundir (brokk, tölt o.s.frv.), en það er sjaldan hjá hestum sem búa í útlöndum.

Á Íslandi í gamla daga var hesturinn eina samgöngutækið. Þá voru engir vegir og engar brýr yfir ám svo þá var gott að ferðast á hesti. Síðan þá hefur hesturinn oft verið talinn einn besti vinur mannsins.

Tagl í tísku!

Margir vita ekki að taglið er mjög mikilvægur hluti hestsins. Á sumrin bandar hesturinn flugum burt með taglinu, og á veturna hlýjar það þeim á rassinum. Hestum finnst best að vera bara með eðlilegt tagl en þegar eigendur þeirra eru að keppa eru töglin þynnt og jafnvel stytt og það koma jafnvel tagltískur alveg eins og hárgreiðslur hjá fólki. Í myndinni Villta folanum getið þið séð að Sindra er ekki um það gefið að láta snyrta á sér fax og tagl.

Lappalöngu folöldin

Folöld eru ótrúlega sæt dýr. Strákafolöldin eru kölluð folar og stelpufolöldin fyljur. Folöldin fæðast með næstum fullvaxta fætur sem þau geta staðið á innan klukkutíma eftir fæðingu. Það er nú ekki hægt að segja um okkur mennina!

Langflest folöld fæðast á vorin þegar veður er hlýtt og grasið gott að bíta. Folöldin eiga þó í erfiðleikum með að fá sér gras því lappirnar þeirra eru svo langar! Þá fá þau sér bara mjólkursopa úr mömmu sinni.

Allir á bak

Á Íslandi eru margir reiðskólar sem bjóða upp á reiðkennslu fyrir krakka á öllum aldri. Þegar þið sjáið myndina um villta folann vitið þið að hann er ótaminn og að hestarnir í reiðskólanum láta ekki svona. Það er auðvelt að ríða þeim - og rosa gaman.

Allir á hestbak!