Þau Ellert, Díana Dúa og Gunnar Ingi skipa Tópaz.
Þau Ellert, Díana Dúa og Gunnar Ingi skipa Tópaz.
POPPHLJÓMSVEITIN Tópaz hefur hingað til verið skipuð þeim Ellerti Rúnarssyni og Gunnari Inga en nu hafa þeir félagar fengið til liðs við sig söngkonuna Díönu Dúu og nýtt lag með tríóinu er farið að hljóma á öldum ljósvakans.

POPPHLJÓMSVEITIN Tópaz hefur hingað til verið skipuð þeim Ellerti Rúnarssyni og Gunnari Inga en nu hafa þeir félagar fengið til liðs við sig söngkonuna Díönu Dúu og nýtt lag með tríóinu er farið að hljóma á öldum ljósvakans.

"Bandið er búið að starfa saman í tvö og hálft ár. Við höfum verið með ýmsa aðstoðarmenn með okkur í gegnum tíðina en við Gunnar Ingi erum svona potturinn og pannan í þessu. Samstarfið við Díönu hófst ekki alls fyrir löngu og höfum við hug á að halda því áfram," byrjar Ellert þegar hljómsveitin Tópaz hefur komið sér fyrir í húsakynnum Morgunblaðsins.

Díönu Dúu kannast trúlega einhverjir við frá blaðsíðum glanstímarita en hún hefur starfað sem fyrirsæta um alllangt skeið.

"Ég hef nú líka verið að syngja mér til skemmtunar og meðal annars með hljómsveitinni Chernobyl," segir Díana Dúa. "Ellert kom svo til mín og bauð mér að syngja þetta flotta lag og ég ákvað að slá til."

Flotta lagið sem hér um ræðir kallast "Minningar" og var samið af Ellerti er hann var við nám í Danmörku í vetur.

"Ég kynntist Díönu gegnum sameiginlegan vin og sýndi því áhuga að láta hana hafa lag frá mér. Ég hef áður samið lag sem hentar stúlkurödd betur og það var jólalag sem við gerðum sem vakti talsverða lukku," upplýsir Ellert.

Lagið var tekið upp í byrjun júlí og var það Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson sem sá um upptökur og útsetningu.

"Við erum svo bara búin að vera að æfa á fullu og ætlum svo að fara að spila," segir Ellert. "Við höfum hugsað okkur að einbeita okkur að rólegri tónlist á næstunni, þá er ég að tala um órafmagnaða tónlist og þessháttar. Sérstaklega til að koma laginu okkar á framfæri."

"Það tekur alltaf tíma að byggja upp grundvöll fyrir því að leika einungis eigið efni á tónleikum svo við leikum þekkta tónlist í bland við okkar eigin," segir Gunnar Ingi.

"Við reynum einnig að finna stað þar sem markhópurinn heldur sig en við erum að stíla okkar lög inn á unga fólkið," segir Ellert. Spurður um framhaldið segir Ellert frekari útgáfu vel hugsanlega.

"Það væri þó ekki fyrr en við teljum okkur vera tilbúin og við erum búin að fylgja þessu lagi nægilega vel eftir. Þá er auðvitað bara tíminn til að fara aftur í hljóðver og taka upp meira," segir hann að lokum og segist hlakka mikið til hins nýkomna samstarfs við samríma undirtektir Díönu og Gunnars.

birta@mbl.is