Palestínskir fjölmiðlar ala á píslarvottadýrkun og hatri á Ísraelum. Börn allt niður í fjögurra ára segjast vilja gera sjálfsmorðsárásir.

GEÐÞEKK ellefu ára gömul telpa brosir feimnislega í átt að stjórnanda spjallþáttarins og svarar spurningum um framtíðaráform sín. "Píslarvættisdauði er fallegur. Allir vilja deyja píslarvættisdauða," segir stúlkan. "Hvað gæti verið betra en að fara til himnaríkis?" Spjallþátturinn var sýndur í palestínska sjónvarpinu í júlímánuði og er aðeins eitt dæmi um það hve stór þáttur hugtakið "píslarvottur" er orðinn í palestínskri menningu og opinberri fjölmiðlaumfjöllun.

Þeir sem gera sjálfsmorðsárásir á Ísraela eru rómaðir í sjónvarpi, dægurtónlist, predikunum og skólabókum. Í ljóði í skólabók fyrir þrettán ára börn má lesa þessa línu: "Ég sé dauða minn framundan, en ég flýti mér í átt að honum". Veggspjöld með myndum af nýjustu "píslarvottunum" eru hengd á veggi á Vesturbakkanum og Gaza-ströndinni.

Mikið fjaðrafok varð í liðnum mánuði þegar ísraelski herinn sendi frá sér ljósmynd, sem fannst við húsleit á Vesturbakkanum, af ungbarni með gervisprengjur um mittið og rauðan hálsklút á enninu. Ættingi barnsins sagði að um grín hefði verið að ræða en ísraelskir fjölmiðlar sögðu ljósmyndina sönnun þess að æði hefði gripið palestínsku þjóðina.

"Þetta brjálæði er sem faraldur í samfélagi Palestínumanna. Annars staðar vilja börn verða knattspyrnumenn, en hér vilja þau sprengja sig í loft upp," segir Eran Lehrman, fyrrverandi starfsmaður leyniþjónustu ísraelska hersins.

Segja börnin heilaþvegin

Margir Ísraelar fullyrða að leiðtogar Palestínumanna, með Yasser Arafat, forseta palestínsku heimastjórnarinnar, í fararbroddi, ali á píslarvottadýrkuninni í því skyni að fá börn til þess að fremja hryðjuverk.

Samkvæmt tveimur skoðanakönnunum sem birtar voru í júlímánuði kemur fram að rúmlega sextíu prósent Palestínumanna styðja sjálfsmorðsárásir á Ísraela. Margir hafa hins vegar áhyggjur af ástandinu og áhrifum þess á börn sín.

"Ég er hræddur við að leyfa syni mínum að horfa á sjónvarpið," segir palestínskur túlkur sem ekki vill láta nafns síns getið. "Sonur minn er einungis fjögurra ára gamall. Áður fyrr sagðist hann vilja verða blaðamaður þegar hann yrði stór. Afi hans, sem er hjartaskurðlæknir, sagði að hann ætti að verða læknir. Fyrir nokkrum dögum vorum við að gantast við hann og spurðum hann hvort hann vildi frekar verða. Hann sagði "ég vil verða shahid" (píslarvottur). Ég missti stjórn á mér. Ég trúði ekki mínum eigin eyrum."

Palestínska fjölmiðlavaktin, ísraelsk stofnun sem leitar að dæmum um stríðsæsing í arabískum fjölmiðlum, sendi nýverið frá sér skýrslu þar sem palestínska heimastjórnin er sökuð um að nota forn trúarhugtök um mannfórnir í pólitískum tilgangi.

Meðal þess sem skýrslan nefnir sem dæmi er spjallþátturinn "Bréf frá þjóðinni okkar" sem sýndur var í liðnum mánuði á sjónvarpsstöð sem rekin er af heimastjórninni. Í þættinum ræddi hópur palestínskra ungmenna á aldrinum ellefu til nítján ára um sjálfsmorðsárásir. Samkvæmt afriti af samtölum ungmennanna er hin ellefu ára gamla Wala spurð hvort sé eftirsóknarverðara, friður og full réttindi til handa palestínsku þjóðinni eða "píslarvættisdauði". "Píslarvættisdauði," svarar telpan. "Auðvitað er píslarvættisdauði betri," bætir hin ellefu ára gamla Yussra við. "Við viljum ekki þennan heim, við viljum lífið eftir dauðann. Öll palestínsk börn biðja til Guðs um að fá að verða píslarvottar."

Palestínska sjónvarpið sýndi í mars síðastliðnum harðorða íslamska predikun, skömmu áður en alda sjálfsmorðsárása skall á. "Við verðum að óska eftir píslarvættisdauða og biðja Guð um að veita okkur hann," sagði klerkurinn Ahmed Abdul Razek. "Guð hefur sáð í unga fólkið okkar ást á heilögu stríði, ást á píslarvættisdauða. Ungmennin okkar hafa breyst í sprengjur. Þau sprengja sig í loft upp daga og nætur."

Itamar Marcus, forstjóri Palestínsku fjölmiðlavaktarinnar, segir útsendingarnar skýra hvers vegna svo mörg ungmenni hafa boðið sig fram til þess að gera sjálfsmorðsárásir. "Það er enginn efi um að þau sem gera árásirnar trúa því að þau séu að uppfylla óskir samfélagsins og Guðs. Það er það sem palestínska sjónvarpið kennir þeim. Þau eru heilaþvegin og þurfa nauðsynlega á aðstoð að halda," segir Marcus.

Stjórnendur palestínska sjónvarpsins segja útsendingarnar einfaldlega sýna afstöðu palestínsku þjóðarinnar í heild sinni. "Við þurfum að endurspegla það sem er að gerast og það sem sem þjóðin trúir á," segir Saadu Sabawi, sem er fréttaritstjóri og fréttastjóri erlendra frétta hjá palestínska sjónvarpinu. "Við erum ekki að skapa vandann. Börnin sem verða píslarvottar gera það ekki vegna sjónvarpsins heldur vegna þess sem Ísraelar eru að gera þeim. Vegna ofbeldisins og kúgunarinnar."

Sabawi sagðist ekki þekkja þá tilteknu sjónvarpsþætti sem Ísraelarnir gagnrýndu. Hins vegar virtust lýsingarnar ekki vera óvenjulegar.

Ísraelar hafa löngum gagnrýnt palestínska fjölmiðla. Eitt fyrsta skotmark ísraelska hersins í október árið 2000, nokkrum vikum eftir að átökin á svæðinu hófust á ný, var aðalendurvarpsturninn á Vesturbakkanum. Palestínska sjónvarpið hefur síðan flutt sig á Gaza-ströndina.

Spilla frelsisbaráttunni

Nokkrir ungir drengir í Dahaisha-flóttamannabúðunum nærri Betlehem á Vesturbakkanum sögðust dást að "píslarvottunum", en að þeir vildu ekki endilega deyja "píslarvættisdauða" sjálfir. Mutasem abu Ajamiyya, níu ára gamall, sagði hins vegar alvarlegur í bragði: "Ég vil gera sjálfsmorðsárás. Ég vil drepa eins marga þeirra og ég get. Ég vil fara á strætisvagnastöð og sprengja mig fyrir framan þá," sagði Mutasem. Hann hefur ekki sagt foreldrum sínum frá þessum áformum. "Þetta er það sem ég vil gera. Ég mun halda því leyndu þar til ég verð stór."

Meðal fullorðinna Palestínumanna snýst umræðan ekki um siðferðilega hlið sjálfsmorðsárásanna heldur hvort "hernaðaraðgerðirnar" skili einhverjum árangri í baráttunni. Þeir nota sjaldan hugtakið "sjálfsmorðsárás".

"Þessar aðgerðir hjálpa ekki til í baráttu okkar fyrir frelsi og sjálfstæði. Þvert á móti styrkja þær þá sem ekki vilja frið og gefa Ariel Sharon [forsætisráðherra Ísraels] ástæðu til að halda áfram grimmilegu stríði sínu á hendur palestínsku þjóðinni," segir í opnu bréfi sem 55 áhrifamenn meðal Palestínumanna undirrituðu og var birt í júnímánuði.

Jafnvel sumir þeirra sem skrifuðu undir yfirlýsinguna neita að fordæma árásarmennina sjálfa og trúa því að árásirnar hafi eitthvert gildi. "Það er okkur skapraun að sjá þá [Ísraela] lifa rólegu lífi, fara á ströndina og á kaffihús, meðan synir þeirra framkvæma þessi grimmdarverk," segir Isla Jad, prófessor við Birzeit-háskóla í Ramallah.

Margir Palestínumenn sem áberandi hafa verið í friðarhreyfingunni neituðu að rita nafn sitt undir yfirlýsinguna. "Fólk hló að fimmtíuogfimmmenningunum. Þetta var vandræðalegt," sagði Mahdi Abdul Hadi, forstjóri rannsóknarfyrirtækisins Passia.

Kennslumyndband Hamas

Ísraelar hafa undanfarin tvö ár talið 133 palestínska sjálfsmorðsárásarmenn, 91 sem tókst ætlunarverk sitt og 42 sem voru handteknir áður en þeim tókst að sprengja sig í loft upp. Sá yngsti sem var handtekinn var rúmlega fjórtán ára gamall. Leyniþjónusta ísraelska hersins segir raðir ungra Palestínumanna sem tilbúnir eru að fórna lífi sínu nánast endalausar.

Annað sem mikinn hroll vakti í Ísrael er myndband sem ísraelski herinn gerði upptækt í borginni Nablus í apríl síðastliðnum. Um er að ræða þriggja klukkustunda langt kennslumyndband í framleiðslu og meðferð sjálfsmorðssprengja. Á bandinu kennir grímuklæddur maður hvernig gera á belti með sprengiefni og hvar á að standa í strætisvagni til þess að valda sem mestum skaða þegar sprengjan er sprengd. Talið er að myndbandið, sem einnig inniheldur íslamskar bænir, hafi verið framleitt af Hamas, herskáum palestínskum samtökum, sem neita að viðurkenna tilverurétt Ísraelsríkis.

Foringi innan leyniþjónustu ísraelska hersins, sem ekki vildi láta nafns síns getið, sagði að tæknilegar hliðar sjálfsmorðsárása væru enn svo erfiðar að ólíklegt væri að óháðir aðilar gætu staðið að þeim.

"Þeir hafa fleiri hugsanlega árásarmenn en sprengjur," sagði hann. "Þeir líta á sjálfsmorðsárásir sem þeirra eina vopn. Þær eru frábær vopn, ódýr vopn...en þær eru samt sem áður háðar skipulagi, peningum og hráefni."

Jerúsalem. Los Angeles Times.